Ættleiðingar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 11:04:40 (3217)

1999-12-17 11:04:40# 125. lþ. 48.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÓÖH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Með samþykkt þessa frv. eru fengin réttindi og réttarbót fjölda fólks til ættleiðinga og er það vel. En um leið og færð eru réttindi sem lengi hefur verið beðið eftir til fólks, jafnvel 1.500 manna að talið er, er annar hópur sem er skilinn út undan en það eru börn samkynhneigðra í staðfestri samvist og samkynhneigðir einnig.

Virðulegi forseti. Mannréttindi eru algild en ekki afstæð. Jaðarhópa ber okkur að vernda og verja réttindi þeirra. Í umræðunum í gær orðaði einn þingmaður það svo að það væri verið að færa kærkomna jólagjöf til fjölda manna. Á jólum skilur maður engan út undan á heimilinu.

Ég ætla þó að styðja framgang þessa máls í trausti þess og von og trú að þeir sem hafa talað fyrir lausn málsins á vorþingi muni við það standa og við lögleiðum full réttindi fyrir samkynhneigða og fyrst og fremst börnin þeirra.