Vitamál

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 11:21:32 (3219)

1999-12-17 11:21:32# 125. lþ. 48.15 fundur 57. mál: #A vitamál# (heildarlög) frv. 132/1999, Frsm. 1. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[11:21]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um vitamál. Málið fékk allítarlega umfjöllun í nefnd. Umsagnir komu frá allmörgum aðilum, m.a. frá Félagi smábátaeigenda, Landhelgisgæslunni og Kaupskipaútgerðinni.

Megininntak frv. er annars vegar að styrkja vita- og leiðsagnarmál meðfram ströndum landsins og það er í sjálfu sér vel. Það er afar mikilvægt að við fylgjumst einmitt vel með nýjustu tækni í upplýsingaþjónustu, í fjarskiptum og í tækni til að koma skilaboðum áleiðis til sjófarenda eða þeirra sem fara á sjó. Öryggi þessarar þjónustu er afar mikilvægt. Í nál. 1. minni hluta stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í frumvarpi til laga um vitamál er að finna margt sem telja má til bóta í lagasetningu á þessu sviði. Hins vegar er 1. minni hluti algerlega andvígur 7. gr. frumvarpsins um vitagjald en þar er gert ráð fyrir að vitagjald verði innheimt af 1.600 bátum undir 10 tonnum sem áður voru undanþegnir gjaldinu. Það er álit 1. minni hluta að ríkissjóði sé skylt að veita grunnþjónustu í vitamálum, óháð tekjum, þar eð rekstur vita er nauðsynlegur til að tryggja öryggi sjófarenda. Þó að hér sé ekki um háar fjárhæðir að ræða lýsir 1. minni hluti sig algerlega andvígan lagasetningu um sérstakar álögur á þá sem stunda smábátaútgerð í landinu.``

Herra forseti. Hér á landi setjum við upp götuvita og vegskilti. Við setjum þar upp ljós sem eiga að leiðbeina umferðinni og það þykir alveg sjálfsagt. Við greiðum ekki sérstakt gjald þó svo við ökum fram hjá götuvitum. Þessir vitar, þessi þjónusta meðfram ströndinni, herra forseti, er grunnþjónusta sem ber að veita án þess að eigi að skattleggja hana beint. Við mótmælum þeirri stefnu að ekki megi veita slíka almenna þjónustu án skattlagningar og því að það skuli vera að færa sig upp á skaftið og finna nýja skattstofna og skattleggja þjónustuna.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, herra forseti, að þessi þjónusta er ríkisstyrkt eða ríkið tekur verulegan þátt í greiðslu kostnaðar við hana, enda væri annaðhvort. En þarna er verið að fara inn á nýja leið. Smátt og smátt, skref fyrir skref má búast við því að sjófarendur hvar sem þeir eru á litlum bátum meðfram ströndinni eða stærri skipum eigi að fara að greiða fyrir alla þessa þjónustu þannig að hún verði þannig fjárhagslega sjálfbær. Sú þróun finnst mér ekki vera neitt til að hrópa húrra fyrir.

Þar fyrir utan, herra forseti, hefur þessi smábátaútgerð okkar, bæði litlu fiskibátarnir, skemmtibátar og bátar sem bændur hafa átt og gera út frá jörðum sínum, verið hluti af hinu íslenska samfélagi um árabil og vitaþjónustan meðfram ströndinni á að vera hluti af því samfélagi, þeirri þjónustu sem við veitum samfélaginu. Við mótmælum því að það eigi að fara að skattleggja hvern þann sjófarenda, hvern bát sem fer á sjó vegna þessarar grunnþjónustu, þ.e. því grundvallaratriði sem þarna er verið að fara inn á, að allt eigi að skattleggja, upphæðin er ekki aðalatriðið. Ef maður ætti að vera sjálfum sér samkvæmur væri skattlagt við hvern ljósastaur. Þegar blikkar rautt eða gult ljós á Hringbrautinni ættum við að greiða skatt til að geta komist áfram, ef umferðin á að fara að greiða allan þennan skatt. Þessari hugsun mótmæli ég, herra forseti.

Eins og fram kom fyrr í máli mínu fengum við umsagnir frá allmörgum aðilum og við fengum umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda. Smábátaeigendur, sem standa ekki aðeins fyrir stórum hluta í beinni atvinnusköpun í landinu heldur eru hluti af þeirri menningu, því þjóðfélagi sem við viljum standa vörð um og umferð þeirra, sendu okkur umsögn, herra forseti. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr umsögn þeirra:

,,Í frumvarpi til vitamála er ráðist harkalega að eigendum minni báta. Lagt er til að nýr skattur verði lagður á eigendur smábáta 5.000 kr., samtals 8 milljónir.`` --- Eða eins og þeir reikna út, það er nú þá öll upphæðin. --- ,,Þá felur frumvarpið einnig í sér ákvæði er hækkar vitagjald hjá öllum bátum á stærðarbilinu 10 brúttótonn til 77 brúttótonn; um mörg hundruð prósent, hjá þeim minnstu, niður í 6,5% hjá þeim stærstu. Samkvæmt upplýsingum úr athugasemdum með frumvarpinu munu þessi ákvæði skila 10 milljónum kr. í vitagjald, sem er 43% af hlut allra íslenskra skipa, þar með talið okkar stærstu gámaflutningaskip og frystitogarar. Á sama hátt er nýjum gjaldendum, smábátaeigendum, ætlað að greiða rúman þriðjung.``

Nú er þess rétt að geta, herra forseti, að meiri hluti samgn. flytur brtt. þar sem þessar upphæðir eru lækkaðar en þó ekki tekið af skattheimtunni í grundvallaratriðum heldur er henni haldið óbreyttri.

Í frv. voru færð þessi rök sem standa í sjálfu sér í grundvallaratriðum óbreytt. Þar eru engin rök færð í rauninni fyrir því hvers vegna þessi leið er farin önnur en þau að það skal taka upp skattheimtu: ,,Með lágmarksgjaldi er komið til móts við þau sjónarmið að láta smærri báta greiða hlutfallslega hærra gjald en þeir gera í dag. Miðað við núverandi gjaldskrá hækkar þetta gjaldið á innlendum skipum úr u.þ.b. 13 millj. kr. í um 23 millj. kr., eða um 10 millj. kr.``

,,Vakin skal athygli á að vitamál eru öryggismál sjómanna. Í frumvarpinu er gerð krafa um að þeir sem noti þjónustuna greiði stofn- og rekstrarkostnað að fullu. Flöt upphæð er engin nálgun á því markmiði þar sem sá sem notar þjónustuna 10 sinnum á ári borgar jafnt þeim sem notar hana 100 sinnum.``

Það er ekki einu sinni jöfnuður þar á ferðinni, herra forseti, ef það væri markmiðið. Nei, þetta er skattlagning, þessi þjónusta skal vera skattlögð. Það er stefnt að því að hún fjármagni sig sjálf þegar fram í sækir.

[11:30]

Herra forseti. Ég held áfram að vitna í bréf smábátaeigenda: ,,Með frumvarpinu er markaður nýr skattstofn, vitagjald. Skattur þessi er að öllu leyti óréttlátur þar sem ekki er tekið tillit til stærðar skipa eins og venja er þegar greitt er fyrir þjónustu sem veitt er.``

Að vísu, herra forseti, eins og kom fram í greinargerð framsögumanns meiri hlutans þá er þar örlítil breyting gerð á.

,,Það vekur undrun að ekki er gerð tillaga til breytinga á vitagjaldi af erlendum skipum, sem setja farþega eða vörur á land, umfram það sem gert er við íslensk skip. Þar er sama regla og verið hefur, þ.e. fjórðungur vitagjaldsins er greiddur við hverja komu til landsins, en þó aldrei meira en fullt vitagjald. Athygli vekur að gjaldtaka sú sem hér um ræðir er aðeins 30% af gjaldskrá sem í gildi er á Bretlandi. Þar sem upplýsingar um bresku gjaldskrána er að finna í athugasemdakafla frumvarpsins er það með hreinum ólíkindum að ekki sé gerð tilraun til að aðlaga vitagjald erlendra skipa vitagjaldi sem íslensk skip verða að greiða á Bretlandi. ...

Landssamband smábátaeigenda skorar á háttvirta nefnd að gera breytingar á frumvarpinu, þar sem fallið verður frá hugmyndum að stóraukinni gjaldtöku Íslendinga, en huga fremur að þeirri leið sem hér er bent á.`` --- Þ.e. að skattleggja þá sem hafa virkilega beinar tekjur af því að fara hér um, stóru skipin, og gæta þá samræmis þar við það sem gert er víða erlendis.

Herra forseti. Ég dreg þetta svo sterkt fram vegna þess að smábátar og smábátaeigendur eru ákveðinn grunnþáttur í íslenskri menningu og með því að skattleggja alla þá sem fara hér á sjó og eiga báta er vegið að þeirri grunnhugsjón sem við berum gagnvart þeim skyldum sem samfélagið og ríkið hefur gagnvart einstaklingum.

Herra forseti. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar, sem komu á fund nefndarinnar, bentu á að auka mætti hagræðingu í að sameina og samræma enn betur störf og verkefni Siglingamálastofnunar og Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan væri á ferðinni meðfram ströndum landsins og þess vegna væri eðlilegra að henni væri falinn stærri hlutur, meiri ábyrgð og kannski stór hluti af þeim verkefnum sem þarna væri um að ræða. Það væri mun hagkvæmara og meira öryggi fólgið í því.

Herra forseti. Ég tel að ástæða hefði verið til að skoða betur þær hugmyndir sem Landhelgisgæslan kom með. Hún benti m.a. á aðferð sem væri notuð í Bandaríkjunum þar sem þessi mál eru einmitt falin þar sama aðila og þar væri jafnframt aukið öryggi, samræmd vinna og þess vegna væri þar líka að þeirra mati meiri hagkvæmni.

Það er ekki verið að segja það hér, herra forseti, að Siglingastofnun gæti ekki fyllstu hagkvæmni í störfum sínum, alls ekki. Hins vegar ber okkur stöðugt að leita leiða til að taka í þjónustu okkar bæði nýjustu tækni, nýjustu þekkingu og að auka öryggi, og þær leiðir sem geta aukið öryggi sjófarenda ber okkur að skoða. Þess vegna, herra forseti, leyfi ég mér að vitna í umsögn Landhelgisgæslunnar um þetta mál:

,,Að gefnu tilefni vill Landhelgisgæslan jafnframt upplýsa að náin og góð samvinna er milli stofnunarinnar og Siglingastofnunar um vitamál almennt. Þannig hefur Landhelgisgæslan með skipun sínum og loftförum sinnt viðhaldi og eftirliti með vitum og öðrum siglingamerkjum og ýmissi annarri þjónustu á þessu sviði, sbr. hér síðar.

Landhelgisgæslan býr yfir skipum og loftförum, þar með talið þyrlum, sem notuð eru við viðhald og eftirlit með vitum og öðrum siglingamerkjum. Landhelgisgæslan sinnir nú þegar í raun ýmsum þáttum þjónustu á þessu sviði eins og áður greinir, svo sem við stefnumælingar vitamerkja, ýmissar vinnu við baujur og önnur siglingamerki, auk flutnings birgða til vitanna, hverju sinni að beiðni Siglingastofnunar. Dæmi eru þess að við framkvæmd viðhalds spegla og ljósgjafa á vegum Siglingastofnunar í vitum landsins hafi merki aflagast, sem að sjálfsögðu fylgir mikil hætta þar til leiðrétt hefur verið. Einnig eru dæmi þess að skekkjur hafa ekki komið í ljós fyrr en við næstu stefnumælingu Landhelgisgæslunnar. Áður en slíkar skekkjur uppgötvast hafa jafnvel orðið óhöpp. Þegar skekkjur hafa orðið eins og að framan er lýst er framkvæmdin þannig að Landhelgisgæslan tilkynnir Siglingastofnun um ástandið og síðarnefnda stofnunin sendir menn frá Reykjavík til að lagfæra og leiðrétta skekkjurnar. Ef vitamálin væru alfarið á könnu Landhelgisgæslunnar gætu starfsmenn stofnunarinnar leiðrétt stefnu vitans strax og skekkja uppgötvast. Að slíku væri mikið hagræði jafnframt því sem það yki öryggi að mun.``

Ég tel, herra forseti, að okkur beri að hlusta á þessar ábendingar Landhelgisgæslunnar og íhuga þær mjög gaumgæfilega. Áfram segir í greinargerð Landhelgisgæslunnar, herra forseti:

,,Skip Landhelgisgæslunnar eru á ferð umhverfis landið við regluleg gæslu- og eftirlitsstörf og gætu sem hægast sinnt lögbundnu og nauðsynlegu eftirliti og viðhaldi með vitum og öðrum siglingamerkjum landsins.

Landhelgisgæslan rekur stjórnstöð þar sem vakt er allan sólarhringinn alla daga ársins og sinnir mikilvægri þjónustu við sjófarendur. Stofnunin annast sjómælingar og sjókortagerð og gefur út tilkynningar til sjófarenda, svo sem áður greinir, auk ýmissar annarrar þjónustu tengdri siglingum og veiðum. Stjórnstöðin gæti að óbreyttu einnig sinnt allri upplýsingagjöf til sjófarenda varðandi vita og önnur siglingamerki.``

Áfram segir í þessari mikilvægu greinargerð, herra forseti:

,,Önnur atriði sem snerta kunna stjórnun og umsjón vitamála getur Landhelgisgæslan leyst af hendi. Stofnunin hefur í sinni þjónustu mannafla sem býr yfir almennri þekkingu á sviði siglinga og þeirra málefna sem tengjast vitamálum almennt. Þörf fyrir sérkunnáttu mætti fullnægja með því að núverandi sérhæfðir starfsmenn Siglingastofnunar á þessu sviði flyttust með verkefnunum til Landhelgisgæslunnar.

Verkefnaflutningur af því tagi sem hér er gerð tillaga um væri til samræmis við það sem gildir í Bandaríkjunum, svo dæmi sé nefnt. Þar voru málefni vita og annarra siglingaleiðbeininga alfarið færð til strandgæslunnar (U.S. Coast Guard) en höfðu áður verið í höndum sérstakrar vitastofnunar (Bureau of Lighthouses).

Það er trú Landhelgisgæslunnar að ef framangreindur verkefnaflutningur yrði framkvæmdur leiddi það til þess að kostnaður við málaflokkinn lækkaði.``

Herra forseti. Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á þessari mikilvægu umsögn Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan, sem er í nánustum tengslum við öryggi og þjónustu á höfunum í kringum landið, hlýtur að gera sér grein fyrir því hvað hún er að leggja til. Hjá fulltrúum Landhelgisgæslunnar kom líka skýrt fram að á engan hátt væri verið að halla á störf og ábyrgð Siglingastofnunar, þeir lögðu á það þunga áherslu og að þar væri mikið og gott samstarf. Þeir drógu það alveg sérstaklega fram og það vil ég gera líka í máli mínu, herra forseti, að mikil virðing væri borin fyrir þeirri ábyrgð sem Siglingastofnunin sýnir gagnvart verkefnum sínum. En þegar verið er að leita að nýjum skattstofni, þegar verið er að leita að nýjum álögum á sjófarendur þá ber að hlusta á slík varnaðarorð og það ber að hlusta á slíkar leiðbeiningar því að þeir ljúka greinargerð sinni með því segja að væri sú tilhögun tekin upp sem þeir leggja til teldu þeir að það leiddi til sparnaðar og ekki bara til sparnaðar heldur líka til markvissari öryggisþjónustu og yki öryggi meðfram ströndum landsins.

Þetta er í svo mikilli hrópandi mótsögn við þann yfirlýsta tilgang þess frv. sem við hér erum að fjalla um, að leggja skatt á alla sjófarendur, leggja skatt á bæði stóra og smáa til þess að láta þessa þjónustu reka sig með sjálfbærum hætti.

Það er eitt líka, herra forseti, sem ég hefði viljað sjá að tekið hefði verið á í þessu frv., það er hvernig verkefnum á þessu sviði hefur verið dreift út um landið. Við vorum með vita og vitaverði vítt og breitt um landið og í umræðunum í gær eða fyrradag vorum við einmitt að fara í gegnum það að nú ætti að fara að selja þessar merku menningarstofnanir sem voru eyjar og nes þar sem vitaverðirnir voru. Þetta var stolt Íslendinga í gegnum árin og fjöldi bóka var skráður þar. Nú þegar lagt er til að leggja skatt á smábátaeigendur til að fara í kringum landið þá erum við jafnframt að setja þau lönd og þá aðstöðu þar sem hinir gömlu vitar stóðu á söluskrá.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að erfitt er að ætlast til þess að við verðum með vitaverði á þessum stöðum úti um land, bæði er komin tækni og framfarir á þessu sviði sem gera það ekki eins nauðsynlegt, en engu að síður þá ber bæði af öryggissjónarmiðum og líka af menningarlegum sjónarmiðum að sýna þessari vitavörslu fulla virðingu. Það ber að kanna hvernig hægt er að styrkja öryggi og viðbrögð úti um land. Það kemur ekki fram í þessu frv., þessu er að meginhluta miðstýrt héðan frá Reykjavík. Að vísu kom fram bæði í viðtölum hjá fulltrúum Siglingastofnunar og fulltrúum Landhelgisgæslunnar og fleirum sem þarna komu að að haft væri samband við björgunarsveitir vítt og breitt um landið og samið við þær um einstök verkefni, en það væri ekki gert með samræmdum kerfisbundnum hætti heldur væri það meira á grundvelli einstakra verkefna. Og það er vel að fela björgunarsveitum, slysavarnadeildum úti um landið skilgreind verkefni en gagnvart þessari öryggisþjónustu, gagnvart því hvernig Siglingastofnun og/eða Landhelgisgæslan kæmi upp öryggisstöðvum úti um land, endurnýjaði í rauninni og færði vitaverðina gömlu til nýtísku vegar, kemur heldur ekki fram í þessu frv. og það tel ég að hefði þurft að gera.

Herra forseti. Það er líka þetta með kaupskipin og er munur á hvort það eru innlend eða erlend kaupskip. Hins vegar upplýstist að það eru nánast engin íslensk kaupskip lengur til, kaupskip sem eru skráð í eigu Íslendinga og setin Íslendingum. Nei, hinn íslenski kaupskipafloti, stolt okkar í gegnum árin, það var hluti af sjálfstæðinu að koma upp eigin kaupskipum, því miður er það nú orðið þannig að nánast allur kaupskipaflotinn sem flytur vörur að og frá landinu er á leigu, er setinn erlendum sjómönnum og er þess vegna í rauninni ekkert íslenskur kaupskipafloti.

[11:45]

Herra forseti. Í umræðunni um öryggismálin kom það líka fram, sem ég tel að eigi að taka alvarlega, hvort tryggt sé að um borð í þessum leigukaupskipum séu stjórnendur sem kunni á íslenskt öryggiskerfi og geti talað íslenska tungu. Það að geta talað innbyrðis hér meðfram ströndum landsins hlýtur að vera hluti af öryggismálum. Það þýðir lítið að vera að kallast á, með fullri virðingu fyrir öðrum tungumálum, á pólsku og japönsku og dönsku og ensku, þannig að einmitt þessi tungumálakunnátta er hluti af öryggismálum meðfram ströndum landsins. Í umræðunni komu fram áhyggjur bæði Siglingastofnunar og Landhelgisgæslunnar af því hvort þeir sem héldu þarna um stjórnvölinn væru í rauninni færir um að fullnægja og standa undir þeirri öryggisgæslu sem ber að hafa gagnvart sjófarendum meðfram ströndinni.

Herra forseti. Ég tel að það hefði átt að vinna þetta frv. miklu betur. Ég tel að það hefði átt að taka alvarlega ábendingar Landhelgisgæslunnar um hvað betur mætti fara. Ég tel ekki vera tekið á því af virðingu fyrir því öryggi, þeim miklu öryggisatriðum sem þarna er um að ræða. Ég tel að það sé ekki gert með því að láta málið ekki fara í nákvæmari skoðun, fá nánari úttekt á því hvað þetta hefur í för með sér, hvað þeir voru í rauninni að leggja til. Þetta er ekki bara spurning um stofnanir og rétt hverrar stofnunar til þess að vera til heldur er þetta líka meginspursmál um öryggismál og að geta fylgt nýjustu tækni í öryggismálum og þeirri hagkvæmni sem best er að beita án þess að það komi niður á öryggi sjófarenda.

Herra forseti. Ég verð líka að ítreka að vita- og hafnamál, öryggismálin meðfram ströndum landsins er hluti af grunnöryggisneti þjóðarinnar. Að ætla að fara að þróa það með þeim hætti að það sé greitt að fullu af sjófarendum er andstætt þeirri íslensku sýn sem við höfum á því hvaða öryggisneti íslenska þjóðin vill standa að.

Herra forseti. Þess vegna leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs áherslu á að horfið verði algjörlega frá öllum hugmyndum um að skattleggja sjófarendur á smábátum meðfram ströndum landsins, að skattleggja þessa litlu útgerðarmenn, útvegsbændur, að skattleggja þá sem eru að fara á sjó fimm, tíu, fimmtán daga á ári eins og þeir væru þar allt árið, enda skiptir það ekki máli því að það er ekki aðalatriðið. Ég vek athygli á því, herra forseti, að þetta er skattur en ekki þjónustugjald þannig að ekki einu sinni sú hugsun nær í gegn því hún lendir í andstæðum inni í frv. Hún lendir í andstæðum því annars vegar er ekkert verið að tala um að það sé eðlilegt að sjófarendur greiði fyrir þjónustuna og hins vegar er það að þetta er ekki þjónustugjald, þetta er skattur. Það er því ekki einu sinni sjálfu sér samkvæmt hvað þetta varðar.

Herra forseti. Annars vegar er beinlínis verið að auka skattheimtu og hins vegar er verið að undirbúa það að íslenska ríkið eigi ekki að standa með reisn undir grunnöryggi allra landsmanna. Áður en lýkur, ef þessari stefnu heldur áfram, herra forseti, þá verðum við farin að greiða beina skatta fyrir hvern ljósastaur eða ljósaskilti á veginum sem vísar veginn áfram. Nei, herra forseti, við leggjum til að ríkið hafi myndugleika til að kosta þessa starfsemi að grunni til og það sé alrangt og lítilsvirðandi að fara að leggja hvort sem það eru 2.000 kr., 3.000 kr. eða 5.000 kr. á þessa smábátaeigendur.

Gerir Alþingi sér grein fyrir því, herra forseti, að innheimtan á þessum 2.000 kr., 3.000 kr. eða 5.000 kr. kostar nærri því eins mikið og kannski hátt upp í það eins mikið og þarna er verið að leggja á? En hún skaffar einhverjum kontóristum í Reykjavík atvinnu við að skrifa út gíróseðla og síðan einhverjum innheimtufulltrúum við að innheimta það. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? (Gripið fram í.)

(Forseti (HBl): Ekki samtal milli þingmanna í þingsal.)

Ég virði það, herra forseti, en þetta var snörp ábending frá hv. þm. Það stendur hvergi í frv. að þeir eigi að sitja hér. Nei, þarna er verið að útvega einhverjum kontóristum hér atvinnu við að skrifa út gíróseðla upp á 2.000, 3.000, 4.000, eða 5.000 eða 6.000, 7.000 kr. á bændur úti um land sem eiga báta, á fiskimenn í þorpum landsins. Það er reisn ríkisins í þessari skattheimtu.

Herra forseti. Við eigum að sýna smábátaeigendum þá virðingu og reisn að við séum ekki að leggja á þá svona gjald. Við eigum að standa að því af fullri reisn að grunnöryggi vegfarenda meðfram ströndum landsins er verkefni þjóðarinnar allrar sem við viljum standa á bak við af reisn.