Vitamál

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 12:13:57 (3232)

1999-12-17 12:13:57# 125. lþ. 48.15 fundur 57. mál: #A vitamál# (heildarlög) frv. 132/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[12:13]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er verið að tala um að leggja gjald á smábáta. Það kemur ekki til með að verða lagt á alla smábáta því að allir bátar undir sex metrum verða þó undanþegnir þessu gjaldi. Ég held að menn þurfi að velta því fyrir sér hvaða áhrif það hefur að setja gjöld á báta og hvernig það kemur út.

Það er reyndar til þál. frá Alþingi þar sem lögð er áhersla á að gjöldin séu miðuð við þann kostnað sem ríkið hefur af þjónustunni. Hann er örugglega ákaflega mismunandi eftir því um hvaða báta er að ræða, hvort þeir fara á sjó einn dag eða fleiri. Þess vegna held ég að menn ættu að reyna að finna leið til að nálgast þetta þannig að það sé sanngirni í því og farið verði eftir þessari þál. Alþingis hvað það varðar að stilla þessi gjöld eins og þau gefa tilefni til vegna þjónustunnar.