Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:38:45 (3238)

1999-12-17 13:38:45# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:38]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Öllu nær hefði verið fyrir hv. þm. Tómas Inga Olrich að kalla þessa utandagskrárumræðu réttum nöfnum þar sem fjallað er um utandagskrárumræðubeiðni Samfylkingarinnar í októbermánuði.

Það er rétt að Samfylkingin bað um þessa umræðu og ég var þar málshefjandi. En hv. þm. Tómas Ingi Olrich virðist ekki hafa aflað sér réttra upplýsinga vegna þess að þingflokkur Samfylkingarinnar fór fram á það að hæstv. forsrh. í fjarveru utanrrh. kæmi í upphafi þingstarfa þennan dag og greindi þinginu frá því á hvern hátt hæstv. ríkisstjórn hygðist svara þessum fréttaflutningi og þeim fullyrðingum sem settar voru fram af vísinda- og fræðimönnum í vísindatímariti sem menn gera venjulega heldur meiri kröfur til en slúðurfréttablaða um að hér hefðu verið kjarnorkuvopn. Þessar fréttir höfðu verið teknar upp af virtum erlendum fjölmiðlum og innlendum fjölmiðlum og við fórum þess vegna fram á að hæstv. ríkisstjórn flytti okkur yfirlýsingu í upphafi þingfundar.

Við buðumst jafnframt til að bíða eftir hæstv. utanrrh. ef hann væri væntanlegur til landsins daginn eftir. Það reyndist ekki vera. Að þessu öllu frá óskuðum við eftir hálftíma utandagskrárumræðu þar sem hæstv. forsrh. var ekki tilbúinn til þess að koma með yfirlýsingu í upphafi fundar.

Það er fullkomlega eðlilegt þegar svona alvarlegar staðhæfingar koma fram í vísindatímariti frá fræðimönnum og vísindamönnum að þær séu teknar til umræðu. Það er fullkomlega eðlilegt, af því að þetta fjallar nú um fréttaflutning íslenskra fjölmiðla, að íslenskir fjölmiðlar taki það til umræðu. Það hefur verið og er stefna íslenskra stjórnvalda að hér séu ekki geymd kjarnavopn. Þegar aðrar staðhæfingar koma fram hljótum við að fara fram á skýringar.