Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:41:06 (3239)

1999-12-17 13:41:06# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Gamalt íslenskt spakmæli segir: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Það er ekki ónýtt fyrir bandaríska heimsveldið að eiga sér þvílíkan hauk í horni sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich er. Hann tekur öllum skúringakonum fram sem ég þekki hvað það varðar að hvítþvo Bandaríkjamenn þegar á þá er hallað að einhverju leyti að mati hans.

Ég er reyndar sammála hv. þm., formanni utanrmn., um mikilvægi þess að taka þetta mál til umræðu. Ég þakka hv. þm. fyrir að beita sér fyrir því að fá þessa umræðu í annríki jólaföstunnar. Sömuleiðis þakka ég hæstv. forseta fyrir að hliðra til fyrir umræðunni og láta hana hafa forgang þannig að hún sé tekin fram fyrir aðrar utandagskrárumræðubeiðnir sem hafa beðið um nokkurra daga skeið, ég er mjög þakklátur þessum hv. þingmönnum, hæstv. forsetanum, og hv. þm. Tómasi Inga Olrich, fyrir þessa vasklegu framgöngu í að koma málinu til umræðu.

Höfundar nefndrar greinar í Bulletin og Atomic Scientist hafa hreinskilnislega viðurkennt að þeir gátu sér rangt til í því tilviki þar sem þeir héldu að Ísland væri á listanum. Komið hefur í ljós að það er japanska eyjan Iwo Jima. Þetta hafa höfundarnir viðurkennt og skýrt hvernig þessi misskilningur varð hjá þeim. Þeir reyndust reyndar hafa rétt fyrir sér í 25 af 27 tilvikum en ekki í þessu tilviki.

Ég tel, herra forseti, að það megi í sjálfu sér einu gilda hvort vilji íslensku eða japönsku þjóðarinnar er virtur að vettugi þó að við gleðjumst auðvitað að í þessu tilviki átti það ekki við Ísland. Það er síður en svo, herra forseti, að öll kurl séu komin til grafar í þessum efnum og það er reyndar svo að þessi skjöl og mörg önnur hafa um leið afhjúpað ýmiss konar blekkingar og lygar sem hafðar hafa verið uppi af stjórnvöldum í þessum efnum, að vísu gagnvart öðrum löndum en Íslandi í þessu tilviki en þá í staðinn (Forseti hringir.) Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Japan o.s.frv.

(Forseti (GuðjG): Ef hv. þm. er óánægður með röð utandagskrárumræðna þá skal honum ráðlagt að fá fund um það mál með forseta Alþingis og ræða þessa óánægu sína.)