Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:49:35 (3243)

1999-12-17 13:49:35# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Þessi umræða er um margt merkileg eins og sú er fram fór hér fyrr í haust um utanríkismálin, stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og kalda stríðið.

Hv. málshefjandi tók svo til orða að nú þyrfti að ljúka þessari umræðu, umræðunni væri lokið, málið væri upplýst. Ég er hv. þm. Tómasi Inga Olrich innilega ósammála. Við eigum að taka okkur tíma til að ræða þessi mál, kryfja kalda stríðið og skoða það ofan í kjölinn. Við eigum að bregðast við þeim tíðindum sem hingað berast, hvort heldur það er úr virtum blöðum vestan hafs ellegar frá íslenskum fjölmiðlum. Þannig rækja fjölmiðlar sitt hlutverk vel. Hefðu þeir kannski átt að þegja þunnu hljóði 20. október sl.? Hefði verið betra að minnast ekki á það einu orði hvað færi fram og hvað væri í heimspressunni?

Nei, sem betur fer er það þannig að íslenskir fjölmiðlar eru frjálsir og fólki er einnig frjálst hér á hinu háa Alþingi að ræða það sem hæst ber. Virk þjóðfélagsumræða um stöðu Íslands í kalda stríðinu, hernaðarlegt mikilvægi landsins, um tengslin við Bandaríkin og Vestur-Evrópu og hlutverk okkar í NATO og svo samskipti stjórnmálaflokka við Sovétríkin og Austur-Evrópu hér áður fyrri er nauðsynleg, ekki síst svo þjóðinni auðnist að fóta sig á farsælan hátt í breyttum heimi.

Herra forseti. Við lifum nefnilega í breyttum heimi. En það er stundum svo á hinu háa Alþingi að það er eins og allt hafi breyst nema hugmyndir hv. þm. Sjálfstfl. um lífið og tilveruna. Stjórnvöldum ber að ýta undir upplýsta umræðu, m.a. með því að styrkja sérstaklega rannsóknir um þessi efni, hið háa Alþingi þarf að leggja sitt af mörkum til þess að unnt sé að brjóta kalda stríðið til mergjar, um það á ekki að þurfa að ríkja ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.