Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:51:48 (3244)

1999-12-17 13:51:48# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Tómasi Inga Olrich, fyrir að hefja mál sitt um það sem áður hefur verið sagt hér og mikil upphlaup urðu hér um hjá stjórnarandstöðunni.

Það var merkileg forustugrein sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Og hún segir kannski allt það sem segja þarf í þessu máli. Ég vil fá að vitna til hennar, með leyfi forseta:

,,Maður að nafni William M. Arkin hefur þrisvar sinnum á tæpum tveimur áratugum haldið því fram að kjarnorkuvopn hafi verið geymd á Íslandi. Í öll skiptin hafa nokkrir íslenskir stjórnmálamenn og sumir fjölmiðlar gripið þessar staðhæfingar á lofti og notað þær til meiri háttar árása á þá sem borið hafa ábyrgð á varnarmálum þjóðarinnar í hálfa öld.

Í samtali við Morgunblaðið í gær viðurkennir William M. Arkin að hann hafi í öll þrjú skiptin haft rangt fyrir sér. Er ekki kominn tími til að William M. Arkin láti af afskiptum af íslenskum málum og að þeir sem gerst hafa bandamenn hans hér horfist í augu við að þeir hafa ekki haft sóma af því að hlíta leiðsögn þessa manns?``