Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:57:52 (3247)

1999-12-17 13:57:52# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins ítreka það í tilefni umræðunnar að mjög skýrar reglur gilda innan Atlantshafsbandalagsins um flutning og staðsetningu kjarnavopna og að slíkir flutningar eigi sér ekki stað nema með fullu samþykki þeirra ríkja sem hlut eiga að máli. Enn fremur er Bandaríkjamönnum óheimilt samkvæmt varnarsamningnum að nýta varnarstöðina á Íslandi með neinum hætti nema með fullu samþykki og vitund íslenskra stjórnvalda. Þetta eru aðalatriði málsins og það hefur aldrei nokkurn tíma neitt komið fram sem bendir til annars en að þetta hafi verið virt.

Þetta er aðalatriði málsins og þess vegna ætti að vera óþarfi að draga þessar staðreyndir í efa skipti eftir skipti. Kalda stríðinu er lokið, því lauk fyrir tíu árum, og ég tel að það séu önnur utanríkismál sem skipti meira máli að taka fyrir á Alþingi en þau mál sem snúa að kalda stríðinu. Það er verkefni sagnfræðinga en ekki verkefni hv. þingmanna að brjóta þau til mergjar í ræðustól á Alþingi. Það eru önnur mál sem væri nú meiri ástæða til að tala um, t.d. nýafstaðin Helsinki-ráðstefna og framtíðin, sem ég hefði haldið að væri meiri ástæða til að beina athyglinni að.