Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 14:00:23 (3248)

1999-12-17 14:00:23# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, Frsm. 2. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (frh.):

Virðulegi forseti. Rétt fyrir klukkan eitt gerði ég hlé á máli mínu þar sem ég var að kynna nál. hv. 2. minni hluta samgn. og ætla ég að leitast við að halda ræðu minni áfram eftir að hafa hlýtt á merka umræðu sem hér fór fram um hvort kalda stríðinu væri lokið eður ei.

Virðulegi forseti. Í ræðu minni, hér fyrir matarhlé, fór ég almennt yfir viðhorf 2. minni hluta til þessa fjarskiptafrv. sem er að mínu viti mjög merk lagasetning og mikilvægt að vel takist til við hana. Hins vegar óttast ég, eins og ég greindi frá í fyrri hluta ræðu minnar, að sú leið sem hér er valin, þ.e. að hagsmunir Landssíma Íslands skuli ganga framar rekist þeir á almannahagsmuni, takmarki möguleika á því að við fáum sem flest fyrirtæki á þennan markað svo neytendur njóti sem bestrar þjónustu og lægra verðs.

Virðulegi forseti. Ég hafði lýst áhyggjum mínum af því að hæstv. samgrh. færi með eignarhald ríkisins í Landssímanum jafnframt því að hafa reglugerðarvald á þessu sviði. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum að hættan á að þar sé um hagsmunaárekstra að ræða er mjög mikil. Ég fór yfir þetta, virðulegi forseti, í ræðu minni fyrir matarhlé og hyggst nú freista þess að ræða þriðju meginástæðuna sem gerir það að verkum að ég og hv. þm. Kristján Möller, sem með mér stendur að þessu nál., teljum okkur ekki geta stutt frv. þegar það verður borið fram í heild sinni.

Virðulegi forseti. Það sem við vekjum athygli á og gagnrýnum mjög er í þriðja lagi gildistaka ákvæðis um reikisamninga á farsímamarkaði, 21. gr. frumvarpsins, sem gerir það að verkum að markmið þess, að tryggja jafnræði á þessum markaði, mun ekki nást. Í ákvæði til bráðabirgða III í þessu frv. er gert ráð fyrir að greinin öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2001. Í 21. gr. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þar sem ekki verður ráðist í uppsetningu og rekstur farsímastöðvar, vegna eðlis eða umfangs fjárfestingar, eða þar sem aðstæður til uppsetningar og rekstrar farsímastöðvar eru sérstaklega erfiðar, svo sem vegna náttúrulegra aðstæðna, skulu farsímafyrirtæki sem veita almenna farsímaþjónustu eiga aðgang að almennum farsímanetum annarra farsímafyrirtækja.``

Að baki þessu hvílir sú hugsun að nýta eins og kostur er þau fjarskiptanet sem þegar hafa verið sett upp og eru ekki fullnýtt. Enn fremur er það í samræmi við viðhorf í umhverfismálum að náttúrunni sé ekki raskað að óþörfu. Að baki þessari hugsun búa hagkvæmnis-, náttúruverndar- og samkeppnissjónarmið.

Athyglisvert er, virðulegi forseti, í ljósi þess að Landssími Íslands hefur 97--98% af öllum fjarskiptamarkaði hér á landi, að veita þurfi slíku fyrirtæki árs umþóttunartíma svo að á þessum markaði hefjist eðlileg samkeppni sem geti vaxið í þágu neytenda. Þetta ákvæði var rætt í hv. samgn. og lögð á það áhersla af öllum gestum hennar, að fulltrúa Landssíma Íslands undanskildum, að þetta ákvæði tæki gildi strax. Gerist það ekki er þessu fyrirtæki sem hefur nú 95--98% markaðshlutdeild gefinn ársfrestur til að efla stöðu sína á markaði. Virðulegi forseti, það hefði nú kannski þurft að aðstoða einhverja aðra á slíkum markaði en þann sem hefur hann nánast einn og óskiptan. Þegar grannt er skoðað kemur fram í þessu frv. að þar sem hagsmunir þessa fyrirtækis rekast á við almannahagsmuni þá skuli hagsmunir fyrirtækisins ganga fyrir.

Í umræðum í nefndinni kom fram að engar tæknilegar hindranir standa í vegi fyrir því að ákvæði um reikisamninga taki gildi strax. Innlendur reikisamningur þýðir að farsímafyrirtæki eiga aðgang að farsímanetum annarra fyrirtækja þegar uppbygging eigin aðstöðu er talin óraunhæf. Hér eiga við svipuð eða sambærileg viðhorf og áður hafa verið rakin í umfjöllun um heimtaugar eða notendalínur sem liggja inn í hvert hús á landinu, enda eru þær u.þ.b. 180.000. Í umræðu í nefndinni kom fram að fresturinn á gildistöku þessa ákvæðis, sem þó gengur ekki lengra en raun ber vitni, er til kominn til að tryggja að Landssíminn fái enn frekara forskot á fjarskiptamarkaði en hann nú hefur.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið þrjár meginástæður þess að ég treysti mér ekki til þess að styðja þetta frv. þó, eins og ég sagði hér í upphafi, ýmislegt í því sé til bóta, einkanlega það að tryggja landsbyggðinni lágmarksþjónustu og ef hún reynist ekki arðbær þá muni ríkið koma til skjalanna og greiða hana niður. Ég fagna því sérstaklega en að öðru leyti vísa ég til nál. á þskj. 469. Ég hef nú kynnt nál. 2. minni hluta og mun síðan fara frekar yfir þessi mál í ræðu hér á eftir.