Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:24:08 (3254)

1999-12-17 15:24:08# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég var viðstaddur 1. umr. þessa máls. Við þá umræðu var hér varaformaður nefndarinnar sem fer með þessi mál. Mér varð það á að óska eftir skýringum á ræðu hans. Hann skammaði mig þá fyrir að hafa ekki hlýtt á ræðu hans og sagði að þingmenn ættu að fylgjast með umræðum hér á Alþingi, sérstaklega í þeim nefndum sem þeir ættu sæti í.

Ég held að það væri ráð að hæstv. forseti athugaði hvort varaformaður nefndarinnar geti ekki mætt og hlýtt á þessa umræðu. Hér hafa verið bornar fram spurningar sem reyndar voru bornar fram þá við fyrri umræðu líka um afstöðu Framsfl. til þessara mála, hvernig yrði staðið að því að selja Landssíma Íslands og hvort, ef hann yrði seldur, grunnnetið yrði þá selt með. Þetta er eitt af allra stærstu einkavæðingarmálum sem nú eru á döfinni. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir út og suður að hann stefni að því að af einkavæðingunni verði sem allra fyrst þannig að hægt verði að selja fyrirtækið. Framsfl. er ekki hér til að ræða málin. Mér finnst bara ekki ganga, hæstv. forseti, að búa þannig að umræðu á þinginu að annað aðalelementið í stjórnarflokkunum vanti þó að ég geri ekki lítið úr viðveru hv. þm. Árna Johnsens sem stýrir þessum málum alfarið einn um þessar mundir, að því er virðist.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun athuga hvort varaformaður samgn. getur mætt og verið viðstaddur umræðuna.)