Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:26:10 (3255)

1999-12-17 15:26:10# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður sem um margt hafa verið fróðlegar. Þær skýra ágætlega afstöðu þingmanna til málsins. Ég mun hér fara yfir nokkur atriði sem fram hafa komið í ræðum.

Að gefnu tilefni, vegna sérstakrar fyrirspurnar frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, vil ég taka fram --- sem ætti að vera óþarfi því að hv. þm. eru yfirleitt afskaplega vel lesnir í stjórnarsáttmálum --- að það fer ekkert á milli mála að samkvæmt stjórnarsáttmálanum er gert ráð fyrir að undirbúa sölu Landssímans. Ef hv. þm. Ögmundur Jónasson efast um það þá er bent á það í stjórnarsáttmálanum. Þegar sala er undirbúin þarf ekki mjög skarpskyggna menn til að sjá hvað er í vændum.

Ég vil fagna því sérstaklega hversu góðar undirtektir hafa verið við þetta frv. Mér finnst það standa upp úr við þessa umræðu að stjórnarandstaðan telur að hér sé um merka lagasetningu að ræða, svo ég vitni beint í orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Hins vegar eru nokkur atriði sem stjórnarandstaðan gerir athugasemdir við, eins og eðlilegt er og ekkert við því að segja. Um það vil ég fjalla núna.

Ég verð hins vegar að segja að það veldur mér vonbrigðum að hv. stjórnarandstöðuþingmenn skuli ætla að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Mér fyndist, miðað við yfirlýsingar þeirra um merka lagasetningu, að eðlilegra væri að slíkur viðburður yrði studdur fremur en að láta hann fram hjá sér fara.

Hins vegar kom mjög ítrekað fram hjá hv. þm. Lúvíki Bergvinssyni að hann ræddi mjög mikið um eignarhaldið á símanum og hver færi með það eignarhald. Út af fyrir sig er ekkert undarlegt við það enda er þetta umdeilt mál. Lögin eru hins vegar alveg skýr. Við setningu laganna um Póst og síma á sínum tíma og samkvæmt lögunum um Landssíma Íslands hf. var gert ráð fyrir því að samgrh. færi með hlutabréfið. Þetta er nú ekki einstakt íslenskt fyrirbrigði. Við þekkjum það t.d. frá Noregi eins og ég hef vakið athygli á, þar er sama fyrirkomulag á þessu. Auðvitað getur, eins og í öllum málum, komið til þess að verk manna séu gagnrýnd eða jafnvel að gerð sé tilraun til þess að gera þau tortryggileg.

[15:30]

Við eigum auðvitað að standa þannig að málum að reynt sé að draga úr því svo sem kostur er. Ég held að þetta verði ekki mikið vandamál og sé ekki vandamál þegar litið er til þess að fram undan er sala bæði á Landssímanum og sala á bönkunum. En ég hef ekki orðið þess mjög var að forustumenn stjórnarandstöðunnar gerðu athugasemdir við það að einn og sami ráðherrann fer með fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun og banka þannig að það er nú ekki einsdæmi hvað varðar Landssímann.

En hvað um það. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég teldi að þetta mætti og þurfi auðvitað að skoða og að það væri e.t.v. einfaldast fyrir samgrh. að vera laus við hlutabréfið. Ég vil hins vegar benda á að það skiptir mjög miklu máli vegna þess sem fram kom hér m.a. fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að í uppbyggingu fjarskiptakerfisins og þessarar þjónustu háttar þannig til að því miður er ekki alls staðar svo að samkeppni tryggi framvindu og þróun, það er fjarri því. Og auðvitað er forsenda þess að samgrh. fer með þau mál sem snúa að Landssímanum að það skiptir miklu máli hvernig er staðið að verki á sviði fjarskiptanna og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.

Ástæðan fyrir því að hv. samfylkingarfulltrúarnir treysta sér ekki til að standa að afgreiðslu þessa frv. er í fyrsta lagi sú að forræðið skuli vera á hendi samgrh. Ég tel að það sé mjög léttvægt. Í annan stað gera þeir athugasemdir við ákvæði 20. gr. um heimtaug og í þriðja lagi við að reikisamningaákvæðið skuli ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 2001. Ég ætla ekki að eyða tíma hér í að fara frekar yfir spurninguna um hverjir eigi að fara með hlutabréfið. Ég tel að ekki séu nægjanlega sterk rök fyrir þeim málflutningi stjórnarandstöðunnar að þeir geti hafnað þessari merku lagasetningu. Því fer fjarri, svo ég vísi aftur til orða hv. þm.

Hvað varðar hins vegar 20. gr. þá tel ég að á sama hátt sé óþarfi að hafna frv. vegna hennar. Það er algjörlega ótvírætt í 20. gr. að ætlast er til þess að markaðsráðandi fyrirtæki hleypi öðrum fyrirtækjum að heimtauginni. Ef hv. þingmenn efast um að gert sé ráð fyrir því að svo verði þá má vekja sérstaka athygli á ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er alveg skýrt á um það með dagsetningu, þ.e. hvaða frest markaðsráðandi fyrirtæki hefur til þess að taka á því máli. Póst- og fjarskiptastofnun getur sett þar tímamörk þannig að ég tel að þrátt fyrir að Samkeppnisstofnun hafi gert þarna athugasemdir þá sé engin ástæða til að vefengja það að möguleikar séu til aðgangs að heimtaug. Og 20. gr. tel ég vera fullkomlega skýra hvað það varðar og vísa þá sérstaklega og ekki síður til greinargerðar með frv.

Hvað varðar reikisamningana sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði grein fyrir að væru ein af þremur ástæðum fyrir því að hann getur ekki stutt frv., þá er út af fyrir sig ekkert því til fyrirstöðu þó að þessi aðlögunartími sé gefinn að samningar náist fyrr. Þetta er sá tímafrestur sem gefinn er og veittur þannig að ég tel ekki óeðlilegt, þrátt fyrir að mikill hraði sé á þessum viðskiptum öllum og þessari þróun á sviði fjarskiptanna, að þessi frestur eða aðlögunartími sé veittur, eitt ár í það minnsta, en endurtek að ekkert bannar það að símafyrirtækin semji, geri reikisamninga nú þegar. Ekkert bannar það.

Rauður þráður í gegnum alla ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar var svo fullyrðingar um að öll framganga samgrh. gengi út á að tryggja verðgildi Landssímans. (Gripið fram í: Það var vitnað í ræðu samgrh. sjálfs. Það var það sem verið var að gera.) Það var nú mjög frjálslega gert í ræðunni. (Gripið fram í.) Ég verð að viðurkenna að það getur nú varla verið áfellisefni að samgrh. reyni að standa þannig að málum að hann verðfelli ekki þessa eign ríkisins. Er það árásartilefni? Ég spyr. Ég tel að eins og atgangurinn er á þessum markaði, eins og samkeppnin er, eins og áhuginn fyrir rekstri fjarskiptafyrirtækja á þessum markaði er, þá bendi ekkert til þess að menn hafi áhyggjur af þessari stöðu og því fagna ég enda er tilgangur flutnings þessa frv. sá að tryggja samkeppni, koma á virkri samkeppni öllum til hagsbóta, öllum neytendum til hagsbóta. En aðstæður eru þannig í þessu stóra landi okkar að við verðum að fara með gát og við verðum að tryggja það að þjónustan sé til staðar, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vakti réttilega athygli á. Það er að mínu mati lykilatriði. Við megum ekki fórna öllu, hleypa hér öllu í bál og brand bara til þess að þóknast einhverjum sérstökum áhugamönnum um það innan Samfylkingarinnar og fórna hagsmunum fólksins úti á landi. Það fær mig enginn til þess að standa að slíkum verkum. Ég vil að það komi hér skýrt fram. (LB: Hvernig ætla þeir að fórna þeim?) Þingmaðurinn hlýtur að vera búinn að rannsaka það því að svo rækilega hefur hann talað um að samgrh. standi fyrst og fremst í því að tryggja hagsmuni Landssímans. Það er rangt. Ég er fyrst og fremst að standa hér að því að sett verði löggjöf sem tryggir eðlilega samkeppni, tryggir fjarskiptin í landinu og tryggir þjónustu. Þetta er ekki einfalt mál. Það er ekki auðvelt að finna samnefnara fyrir þetta viðfangsefni. En við erum að reyna það og því hefur verið lýst að hér sé um merka lagasetningu að ræða og það gerðu ekki ómerkari aðilar, svo ég endurtaki það, en fulltrúar stjórnarandstöðunnar.

Ég tel að ég sé búinn að fara yfir þau atriði sem fram komu í ræðu framsögumanns 2. minni hluta samgn. og ég harma að sá ágæti hópur sem vann í samgn. og stendur að áliti 2. minni hluta skuli ætla að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir taldi að samkeppnin væri ekki næg, úti á landi m.a. Það má vel vera. Ég held að það þurfi að reyna að sjá til þess að samkeppnin sé sem víðast og þá til hagsbóta. En vegna þess sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði um yfirburði Landssímans, þá held ég að líka verði að líta aðeins til þess hversu miklar kröfur við gerum til þess fyrirtækis. Við ætlumst til ansi mikils af Landssíma Íslands hf. um þjónustu á landinu öllu. Vissulega er fyrirtækið með yfirburðastöðu. Það fer ekki á milli mála og það er tekið á því með þeim tökum sem frv. gerir ráð fyrir um aðgang að heimtaug, með reikisamningaákvæðum o.fl.

Hv. þm. kom einnig að valdi samgrh. Þó að það frv. sé ekki til meðferðar núna þá vil ég vekja athygli á því sem kemur fram í 10. gr. frv. um Póst- og fjarskiptastofnun. Þar er sérstök úrskurðarnefnd sem er skipuð af Hæstarétti og þar er gengið fram með opnum augum hvað það varðar að setja þessa úrskurðarnefnd sem á að úrskurða um deiluatriði og skipa hana svona, algjörlega óháða samgrh., til þess að tryggja að ekki sé reynt að gera úrskurði tortryggilega. Ég tel mjög vel ráðið að standa þannig að skipun þessarar úrskurðarnefndar og ég vil undirstrika það og leggja á það áherslu að þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun starfi á vettvangi samgrn. þá skiptir auðvitað mjög miklu máli að ætlast er til þess að hún sé sjálfstæð stofnun sem vinni að sínum verkefnum algjörlega óháð vilja samgrh. hverju sinni. Vegna ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur vil ég bara segja og undirstrika að ég tel að kröfurnar á hendur Landssíma Íslands séu margfaldar á við það hagræði sem því kann að fylgja að samgrh. fer með hlutabréf þess fyrirtækis. Ég held að það sé alveg ljóst.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók ágætlega upp hanskann fyrir Póst og síma frá fyrri tíð. Ég leit svo á að hann væri öðrum þræði að bera í bætifláka fyrir Landssímann sem liggur nú oft undir ámæli þannig að ég stend þá ekki einn í því. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á mörg atriði og vakti athygli á því sem er rétt, að eins og nú háttar þá eru ekki alls staðar forsendur fyrir samkeppni. Það liggur alveg í augum uppi. Þess vegna förum við þá leið að skapa nýjum fjarskiptafyrirtækjum, nýjum símafyrirtækjum aðgang að kerfum þess markaðsráðandi sem hefur tengingu við hvert einasta heimili í landinu. Þannig sköpum við samkeppni, tryggjum að fleiri geti veitt þjónustu og að samkeppni myndist. Ég er ekki talsmaður þess að nein einokun ríki á einu eða öðru sviði, fjarri því. Með þessu frv. er verið að finna leiðir, fara leiðir til þess að koma á samkeppni.

13. gr. er að mínu mati mjög mikilvæg. Þar er fjallað um alþjónustuna og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vildi fá skilgreiningu af minni hálfu á alþjónustunni. Ég vil fyrir það fyrsta vísa til þess sem stendur í frv. Það fer ekkert á milli mála að þar gert ráð fyrir því að sú þjónusta sem þar um ræðir og er nokkuð skýrt skilgreind, á að fást um land allt, þ.e. er óháð landfræðilegum aðstæðum. Auðvitað gerist þetta ekki á einni nóttu. Það tekur tíma að byggja upp þessa þjónustu. En það er alveg ljóst og skýrt í mínum huga að við erum að tala um að alþjónusta og það sem í henni felst, sem er skilgreint bæði í frv. og ég get einnig vísað til þess sem segir í sérstakri reglugerð nr. 216/1998 um alþjónustu, þ.e. að gert er ráð fyrir að hún sé veitt óháð því hvar á landinu er. Þetta vil ég undirstrika alveg sérstaklega. Að öðru leyti er þar náttúrlega um mikið nýmæli að ræða þar sem sett eru skilyrði um að í þessari alþjónustu felist flutningsgeta sem skiptir auðvitað mjög miklu máli að sé fyrir hendi. En ég vil bara undirstrika að það tekur sinn tíma að byggja þetta upp og við verðum að ætla okkur einhvern tíma til þess.

[15:45]

Hv. þm. virðist ekki vera mikill áhugamaður um sölu á Landssímanum. Við því er út af fyrir sig ekki margt að segja eða gera en ég tel að við getum best tryggt uppbyggingu þessarar þjónustu með því að það sé sem best skilgreint í lagatexta og í reglugerð en fyrst og fremst og aðallega með því að sjá svo um að fyrirtækin séu bærilega styrk. Ég held að með því að skapa gott rekstrarumhverfi þá sköpum við fyrirtækjunum möguleika til að byggja sig upp og veita þjónustuna.

Hvað varðar aðskilnað grunnkerfisins, sem þingmaðurinn kom inn á, frá öðrum rekstri hjá Landssímanum held ég að óþarfi sé að tíunda það miklu frekar af minni hálfu að ég tel að það sé ekki líklegt til þess að efla þjónustuna eða verða til góða þannig að ég tel að það beri ekki að fara þá leið.

Hvað varðar úrbætur, sem þingmaðurinn spurðist fyrir um, í gagnaflutningakerfinu úti um landið vil ég nefna að auðvitað skiptir mjög miklu máli sem kemur fram í frv. og varðar almenna gagnaflutninga á forsendum alþjónustunnar en síðan skipta mjög miklu máli þær breytingar sem hafa orðið á gjaldskrá vegna gagnaflutninga og eru í farvatninu og á leigulínum. En það er alveg ljóst og ég er sammála þingmanninum um að þar þarf að taka verulega á. Ég vil bara endurtaka að þeim mun öflugri sem þessi fyrirtæki eru og þeim mun eðlilegri sem samkeppnin er þeim mun líklegri eru þau til þess að geta byggt upp þjónustuna. Ég held að það væri mjög erfitt fyrir okkur að ákveða hver hún eigi að vera hér með lögum að öðru leyti en því sem kemur fram í 13. gr. og varðar alþjónustuna.

Herra forseti. Ég hef farið svona lauslega í gegnum þau aðalatriði sem ég tel að ég hafi þurft að koma inn á af því sem hefur komið fram hjá hv. þm. og vil bara að lokum endurtaka þakkir mínar fyrir undirtektir í aðalatriðum við frv. og mér heyrist að þingmenn, þrátt fyrir ýmsar athugasemdir, séu bærilega sáttir við það sem að er stefnt með þessari löggjöf.