Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:49:51 (3256)

1999-12-17 15:49:51# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. En lokaorðin standast því miður ekki alveg, einfaldlega vegna þess að mönnum er ekki fullljóst að hverju er stefnt á þessu sviði.

Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að samkeppnin tryggir ekki framfarir enda á núna að reyna að tryggja hana með lögum og í kjölfarið reglugerðum, sem kveða á um nefndir og ráð og dagsetningar og fresti og þar fram eftir götunum. Með þessum pakka á að tryggja að haldið verði aftur af þeim gróðasjónarmiðum sem hafa þegar grafið um sig hjá Landssímanum og ég gat um áðan. Þetta er leið sem áður var kennd við Sovétríkin, aðferðafræði sem ríkisstjórnin hefur nú tekið upp á sína arma.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra um framtíðina. Ég spurði um það áðan hvort einhugur væri innan ríkisstjórnarinnar. Því miður höfum við ekki fengið sjónarmið Framsfl. fram í dagsljósið. Er einhugur um það innan ríkisstjórnarinnar að láta grunnnetið fylgja Landssímanum þegar hann verður hugsanlega seldur? Er einhugur um þetta innan ríkisstjórnarinnar? Eru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn á einu máli um þetta? Ég harma það að sjálfsögðu að framsóknarmenn hafa ekki haft hugrekki til að koma í þessa umræðu (Gripið fram í.) og gera skýra grein fyrir sjónarmiðum sínum og svara þeim spurningum sem hafa nú verið bornar upp, það er enn kostur til að gera það. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að þeir hefðu gert áður grein fyrir sjónarmiðum sínum, ég óska eftir því að fá það staðfest núna. En ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort innan ríkisstjórnarinnar sé einhugur um það með sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum að aðskilja ekki sölupakkann og grunnnetið.