Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:52:09 (3257)

1999-12-17 15:52:09# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna það sem hv. þm. sagði um það að samkeppni --- og hafði það eftir mér --- að samkeppni tryggði ekki framfarir. Það hef ég aldrei nokkurn tíma sagt. Ég sagði að það væri ekki hægt að tryggja alls staðar samkeppni, því miður. En ég tel að samkeppni tryggi framfarir fyrst og fremst og það er sá drifkraftur held ég sem fær marga til þess að taka til hendinni.

Hvað varðar það hvort stjórnarflokkarnir séu samstiga í því að aðgreina ekki grunnnetið við sölu. Það liggur alveg fyrir að formaður Framsfl. hefur velt þeirri eðlilegu spurningu upp hvort það kæmi til greina. Ég hef ekki gert neina athugasemd við það að menn velti því fyrir sér. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar eftir að hafa farið mjög rækilega yfir málið að skynsamlegra sé að gera ráð fyrir því að þetta fyrirtæki færi í heilu lagi ef það yrði selt, það tryggi best heildarhagsmunina. Út frá því þarf ekki að lesa neinn ágreining í málinu því að hann hefur ekki komið fram.

En afgreiðsla þessa frv. kemur ekki í veg fyrir það að við getum síðan tekið á því máli að selja Landssímann þegar þar að kemur og ég hef sagt að samþykkt fjarskiptalagafrv. og samþykkt frv. um Póst- og fjarskiptastofnun sé forsendan fyrir því að við getum tekið til hendi við að undirbúa söluna vegna þess að þeir sem vilja kaupa fjarskiptafyrirtæki verða að vita í hvaða umhverfi þeir eiga að starfa. Fyrst skulum við afgreiða þetta frv. og svo skulum við ræða um aðra hluti.