Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:54:19 (3258)

1999-12-17 15:54:19# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hugsanlegir kaupendur símans verða að vita um framtíðina. En þarf ekki Alþingi Íslendinga að fá að vita hver er framtíðarsýn íslenskra stjórnvalda á þessu sviði? Vísað er í einhverjar ógreinilegar vangaveltur innan Framsfl. Við viljum fá að vita alveg afdráttarlaust hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Er einhugur um það innan ríkisstjórnarinnar að aðskilja ekki símann og grunnnetið? Er um þetta einhugur? Hvað ætla menn sér að gera? Það er ekki hægt að bjóða Alþingi upp á svona vinnubrögð, það er hreinlega ekki hægt.

Ef ég hef eitthvað misskilið hæstv. ráðherra varðandi samkeppnina þá biðst ég afsökunar á því en ég heyrði ekki betur en hann segði eitthvað á þá lund að samkeppnin væri engin trygging fyrir framförum og ég leyfði mér að ræða þá ágætu fullyrðingu ráðherrans.

En ég vil fá skýr svör, Alþingi á að fá skýr svör. Hér er vísað í markaðinn og markaðurinn þurfi að fá upplýsingar og vitneskju en við sem sitjum á Alþingi þurfum að gera það líka og miklu fremur.