Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:58:44 (3261)

1999-12-17 15:58:44# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega ósammála því sem kom fram síðast hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að einkafyrirtæki geti ekki verið öflugir þátttakendur í því að byggja upp þjónustu í Strandasýslu. Ég gæti trúað því að það væru nú fyrst og fremst einkafyrirtækin sem hefðu verið frumkvöðlar í allri þeirri ógnarhröðu og miklu þróun sem hefur orðið í fjarskiptum í heiminum. Ég held að það sé allt of mikil einföldun að skýra þetta þannig.

Við þurfum hins vegar hér á Íslandi að gæta að okkur, við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti í þessu öllu saman. Ég held að með þeirri löggjöf sem við erum að vinna hér að, þar sem nýjum fyrirtækjum og starfandi fyrirtækjum á sviði fjarskipta er skapaður möguleiki á því að tengjast inn á heimtaug, tengjast með reikisamningum á milli í farsímakerfinu o.s.frv., að það verði leiðin sem við eigum að fara til þess m.a. að offjárfesta ekki í mörgum kerfum.

[16:00]

Ég sagði, þegar Orkuveita Reykjavíkur kom inn á þennan markað, að ég óttaðist að menn mundu offjárfesta með því að leggja ljósleiðara hlið við hlið um allar trissur. Það kann vel að vera að ljósleiðararnir séu svo uppteknir hér á höfuðborgarsvæðinu að þetta hafi verið nauðsynlegt. Ég vil ekki fullyrða neitt um það en menn verða að gæta að sér. Ég óttast ekki að löggjöf um Póst- og fjarskiptastofnun dugi ekki til að við ráðum við umferðina í þessum viðskiptum. Ég tel að reynslan af þessu fyrirkomulagi hingað til hafi verið sú að engin ástæða sé til að óttast að ekki megi hafa hemil á þessari samkeppni sem ég tel nauðsynlega og æskilega.