Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:01:06 (3262)

1999-12-17 16:01:06# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi held ég að menn megi alls ekki rugla saman framförum og uppfinningum á sviði búnaðar og tækninýjunga í þessu sem einkafyrirtæki og ýmis stór alþjóðafyrirtæki hafa rutt brautina fyrir og svo því að veita þessa þjónustu um byggðir Íslands. Það eru tveir óskyldir hlutir. Ég endurtek að ég hef ekki mikla trú á því að það verði ofarlega á forgangslista nýrra fjarskiptafyrirtækja sem ætla að keppa á þessum markaði að bæta úr ónógri flutningsgetu eða tæknibúnaði í afskekktustu héruðum landsins. Ég held að það verði þvert á móti alveg á hinum endanum og tilhneigingin verði sú að menn reyni frekar að komast í þann hluta viðskiptanna þar sem hægt er að fleyta rjómann ofan af. Það er auðvitað til þess að varna slíku sem hugtök eins og alþjónusta og annað slíkt eru þarna til staðar.

Ég held að langgáfulegasta leiðin í þessum efnum sé, burt séð frá pólitískum ágreiningi, að prófa þetta fyrirkomulag að vissu marki en varðveita þó eignarhald ríkisins á Landssímanum og þar með grunnnetinu, a.m.k. fyrst um sinn.