Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:03:43 (3264)

1999-12-17 16:03:43# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki af hverju en það fer óskaplega í taugarnar á mér þegar menn tala um Landssíma Íslands eins og píslarvott, eins og aumingja sem ekki má gera kröfur til. Það fer líka í taugarnar á mér þegar það er orðað þannig að verið sé að gera Landssímann tortryggilegan. Því miður, herra forseti, sýnist mér og mörgum fleirum að Landssíminn hafi bara verið fullkomlega einfær um að gera sig tortryggilegan. Af hverju halda menn að Landssíminn hafi nánast viðstöðulaust verið inni á borðum hjá Samkeppnisstofnun undanfarin ár?

Nei, ég held að menn þurfi að huga að því hver raunveruleg staða þessa fyrirtækis er. Það hefur mikla yfirburði á markaðnum og þarf ekki að tala um það eins og beiningamann eða aumingja. Það þarf heldur ekki að tala um Landssímann eins og hann sé einhver góðgerðastofnun. Þetta er fyrirtæki sem við eigum að gera kröfur til bæði varðandi þjónustu og arðsemi. Það á ekki að horfa á fyrirtæki eins og Landssímann sem stofnun sem er góð við alla. Landssíminn er fyrirtæki sem við eigum að gera arðsemiskröfur til. Okkar hlutverk, hér á Alþingi, er að útbúa leikreglur til að tryggja að fyrirtæki á þessum markaði, Landssíminn og öll önnur fyrirtæki, veiti þjónustu. Við sköpum þann ramma og gerum þær kröfur með þeim lögum sem hér eru sett.

Um leið og ég bendi honum á að hér liggur ekki bara fyrir frv. um að hlutabréf ríkisins í Landssímanum færist frá samgrh. til fjmrh. heldur líka að bréfið í bönkunum færist frá viðskrh. til fjmrh. þá vil ég spyrja hæstv. samgrh.: Hvaða brýnu nauðsyn sér hann til þess að bréfið sé í höndum samgrh.?