Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:06:09 (3265)

1999-12-17 16:06:09# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get kannski ekki sagt að mjög brýn nauðsyn sé til að samgrh. hafi þetta bréf í Landssímanum af öðrum ástæðum en þeim að samgrh. er skylt að sinna fjarskiptamálum. Þróunin á Íslandi hefur verið sú að við höfum til þessa dags haft heilmikið um það að segja að Landssíminn byggði upp þjónustu um allt land. Lítum t.d. á sjálfvirka tilkynningarskyldukerfið og strandstöðvarnar sem síminn rekur núna án þess að fá greiðslu fyrir. Samgrh. hefur í raun skikkað Landssímann til að sinna þessari þjónustu sem ekki fæst greiðsla fyrir. Ég tel nokkurs virði að samgrh. sem fer með siglingamálefni hafi möguleika á því, án þess að ofgera fyrirtækinu, að byggja upp þessa þjónustu. Ég tel að það hafi að því leyti verið mjög rík ástæða til að samgrh. hefði með þau mál að gera sem snúa að Landssímanum.

En tímarnir eru að breytast. Margt er að breytast mjög mikið og ég held að þróunin verði í þá átt að ekki þurfi að deila um þetta.

Auðvitað er Landssíminn engin góðgerðarstofnun, það hefur aldrei hvarflað að mér, hvað þá píslarvottur. Það má gera kröfur til fyrirtækisins, líka arðsemiskröfur. Ekkert fyrirtæki í eigu ríkisins þarf að uppfylla aðrar eins arðsemiskröfur og Landssíminn. Það er nauðsynlegt að átta sig á því. Ef hv. þm. vita það ekki þá geta þeir litið í fjárlögin til þess að sjá það.