Framleiðsluráð landbúnaðarins

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:11:23 (3268)

1999-12-17 16:11:23# 125. lþ. 48.12 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, Frsm. meiri hluta HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt brtt. á þskj. 477 við b-lið 9. gr. frv. Í þeirri mgr. er kveðið á um skyldu afurðastöðva til að halda eftir verðskerðingargjaldi og standa Bændasamtökunum skil á því. Tekin hefur verið ákvörðun um verðskerðingu skv. 20. gr. laganna.

Þetta orðalag getur valdið þeim misskilningi að innheimta verðskerðingargjalds sé háð ákvörðun einhvers en svo er ekki. Það er beinlínis skylt skv. 20. gr. laganna að innheimta verðskerðingargjald og því er nauðsynlegt að umorða þessa málsgrein til samræmis við 20. gr. laganna. Lagt er til að hún orðist þannig:

,,Afurðastöð er skylt að halda verðskerðingargjaldi skv. 20. gr. eftir við uppgjör við framleiðanda og standa Bændasamtökum Íslands skil á því.``

Aðdragandi málsins og ástæða þessa misskilnings er sá, herra forseti, að í frv. til breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem lagt var fram á haustþingi 1995 var gert ráð fyrir að landbrh. hefði heimild til að kveða á um verðskerðingu skv. 20. gr. laganna. Þessu var hins vegar breytt í meðförum hv. landbn. og kveðið á um greiðsluskyldu í stað heimildar og einnig hversu hátt gjaldið skyldi vera. Þessar breytingar voru lagðar til og samþykktar af Alþingi þar sem þessi gjöld teljast skattar. Því er ekki unnt að framselja skattlagningarvald til ráðherra með heimildarákvæðum. Af þessum ástæðum var ákvæðinu breytt í meðförum Alþingis haustið 1995.

Við meðferðina gleymdist hins vegar að breyta orðalagi þeirrar málsgreinar sem hér er til umfjöllunar. Nú gefst tækifæri til að kveða drauginn niður en óþarft er að taka fram að þessi breyting hreyfir í engu við efni frv. né laganna. Þetta er fyrst og fremst lagahreinsun svona fyrir jólin. Mér þótti því ekki ástæða til að kalla nefndina saman á fund heldur leyfi mér sem formaður hv. landbn. að flytja þessa brtt. í eigin nafni.