Framleiðsluráð landbúnaðarins

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:14:14 (3269)

1999-12-17 16:14:14# 125. lþ. 48.12 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Frsm. minni hluta landbn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu minni hluta landbn., þ.e. okkar þingmanna Samfylkingarinnar sem þar sitja. Þar kom það fram sem ég vil undirstrika hér að við styðjum meginefni þessa frv.

Á hinn bóginn vakti ég athygli á því við 1. umr. málsins og einnig í tilgreindu nál. að ýmis atriði frv. væru þess eðlis að þau vekja til umhugsunar um hvort markmið frv. nái að öllu leyti fram að ganga. Þar voru atriði á borð við það hvort það samræmdist hlutverki Bændasamtakanna til skemmri eða lengri tíma litið að taka að sér stjórnsýsluverkefnið sem hér um ræðir og hvort hagsmunir mundu þar ekki óhjákvæmilega rekast á.

[16:15]

Í öðru lagi er rétt að taka fram að í athugasemdum Bændasamtakanna sjálfra töldu þeir að þetta mundi ekki valda erfiðleikum og vísuðu til þess að Bændasamtökin hefðu gegnum árin verið í nánu samstarfi og samráði við yfirvöld, landbrn. og aðra aðila, og m.a. skipað 14 af 15 nefndarmönnum í Framleiðsluráðinu. Ég vek hins vegar athygli á því, herra forseti, að þrátt fyrir þetta nána samráð stéttarsamtakanna við yfirvöld er um eðlisbreytingu að ræða.

Nú er svo komið með samþykkt þessa frv. að Bændasamtökin eru nokkurs konar verktaki ríkisins og sjá um tiltekna þjónustu og standa undir ákveðnum, tilteknum skyldum sem eru falin í frv. enda undirstrikað í frv. að Bændasamtökin verða í ljósi þessa að undirgangast upplýsingalög og stjórnsýslulög. Af þessu hef ég nokkrar áhyggjur og minni á að Bændasamtökin eru fyrst og síðast hagsmunasamtök bænda á Íslandi og sækja sem slík eðlilega á þetta sama opinbera stjórnvald sem landbrn. er, ríkisstjórnin er eða Alþingi.

En allt um það, þetta atriði er hér inni og ég vona sannarlega að þróun máls og framkvæmd þess verði með þeim hætti að Bændasamtökin beri ekki skaða af og trúverðugleiki þeirra gagnvart umbjóðendum sínum, bændum í landinu, fari ekki minnkandi.

Í öðru lagi eru talsvert há sparnaðarmarkmið í þessu frv. Í nýsamþykktum fjárlögum var gert ráð fyrir því að heilar 40 millj. kr. spöruðust á þessari tilfærslu einni saman. Að vísu er þungt á metum að verkefnum hefur fækkað en samt sem áður kom fram í áætlun Bændasamtakanna sjálfra að þau töldu mikla möguleika á verulegri hagræðingu og sparnaði og ræddu þar um umtalsverða fækkun starfsmanna. Það voru hins vegar alveg ný tíðindi fyrir mér því að við 1. umr. málsins kom fram af hálfu hæstv. landbrh. og raunar það staðfest af hálfu formanns landbn. að um óverulega breytingu á mannahaldi yrði að ræða. Ef ég man rétt var talað um að af sjö starfsmönnum mundi sennilega einn hætta. Í þeim nýju tíðindum, sem ég vísaði til áðan, er hins vegar gert ráð fyrir að um mun meiri fækkun starfsmanna verði þar að ræða og það verði í raun og sanni kannski þrír eða fjórir menn í mesta lagi sem haldi störfum sínum.

Um þetta er svo sem ekki margt að segja ef verkefni eru með þeim hætti að hægt er að hagræða og spara og fækka starfsfólki þá verður svo að vera. Á hinn bóginn er stutt til áramóta og þessi gildistaka á að verða þá og væntanlega mun það skapa einhvern kostnað að segja upp því starfsfólki sem verður ekki endurráðið.

Í þriðja lagi, sem mér finnst stórt mál, og ég hef hér flutt brtt. um og lýtur að peningalegri eign Framleiðsluráðs landbúnaðarins, fjármunum sem eru umtalsverðir, 190 milljónir. Ráð er fyrir því gert í þessu frv. eins og það birtist okkur hér og var afgreitt við 2. umr., að þeir fjármunir renni til Bændasamtakanna í sjóð sem hafi það að markmiði að standa undir þeim verkefnum sem voru áður á hendi Framleiðsluráðsins. Að vísu hefur það aldrei verið útskýrt til hlítar og rétt að kalla nánar eftir því af hálfu hæstv. landbrh. og/eða formanns landbn. hvernig vörslu þessa sjóðs verði hagað og hvernig hún væri hugsuð. Það var látið í veðri vaka að rentur af þessum fjármunum ættu að renna til þessara verkefna en sjóðurinn ætti að öðru leyti að vera ósnertanlegur og til haga haldið til framtíðar. Nú var hins vegar aldrei mjög skýrt og í fjárlögum ríkisins er a.m.k. ekki gert ráð fyrir því að neinn hluti af þessum sjóði renni til þessara verkefna enda er við það miðað að Bændasamtökin geti staðið undir þeim verkefnum sem Framleiðsluráðið hafði á hendi áður miðað við forsendur fjárlaga.

Hins vegar hafa menn í umræðum um þetta mál af hálfu allra flokka, hygg ég, ítrekað verið að viðra aðrar hugmyndir um ráðstöfun þessara fjármuna. Ég gat þess í nál. mínu og hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar að það mætti nálgast ráðstöfun þessara fjármuna með ýmsum hætti. Menn gætu haldið því fram með rétti að þarna væri um að ræða eign allra bænda í landinu, menn gætu líka haldið því fram með sama hætti að skattgreiðendur í landinu ættu þessa fjármuni. Í þriðja lagi, sem var kannski hvað oftast nefnt í umræðunni allri saman, hvort ekki væri eðlilegast að Lífeyrissjóður bænda fengi þessa fjármuni til ráðstöfunar. Sá lífeyrissjóður, ef ég veit best, er ekki allt of sterkur og hefur átt í erfiðleikum og væri væntanlega kærkomið fyrir þann lífeyrissjóð að fá þessa fjármuni í vörslu sína. Það er e.t.v. eðlilegasti hluturinn að þessir fjármunir renni einmitt beint þangað.

Til þess að mæta þessum ábendingum og röddum sem, eins og ég sagði, komu frá fjölmörgum þingmönnum í umræðu um þessi mál, frá Sjálfstfl., frá Framsfl., taldi ég eðlilegast að á þetta væri látið reyna í atkvæðagreiðslu á þinginu og því flutti ég þá brtt. sem finna má á þskj. 473, 205. mál, þar sem einfaldlega er gert ráð fyrir því að eignir Framleiðsluráðsins renni til Bændasamtakanna aðrar en peningalegar eignir þess sem hins vegar renni til Lífeyrissjóðs bænda.

Ég hygg ekki, herra forseti, að nokkur ástæða sé til þess að fara frekari orðum um málið. Ég undirstrika stuðning minn við meginefni þess, markmið frv., en vil þó engu að síður undirstrika mikilvægi þess að við vöndum okkur við meðferð málsins og gerum rétt. Ég hygg að í þessari brtt. sé verið að gera rétt og ég kalla eftir viðbrögðum hæstv. landbrh. til þessara ábendinga minna og tillögunnar og raunar væri fróðlegt að heyra viðhorf formanns landbn. sömuleiðis, ég held að ég fari ekki rangt með að hann hafi verið opinn fyrir þessari hugmynd, og jafnframt að landbrh., ef honum hugnast ekki þessi nálgun, geri okkur nánari grein fyrir því hvernig hann sjái þennan sjóð vistast og ávaxtast í höndum Bændasamtakanna og til hvaða hluta hann eigi raunar að nota.

Herra forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem ég held að kalli á athygli okkar og skoðun.