Framleiðsluráð landbúnaðarins

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:28:58 (3274)

1999-12-17 16:28:58# 125. lþ. 48.12 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:28]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara en tek mjög jákvætt undir þessar breytingar. Þessar breytingar koma fram að tilstuðlan Bændasamtakanna, búnaðarþing ályktaði um að leggja niður Framleiðsluráð og að koma starfseminni undir Bændasamtökin. Það er hagræðing af þessu, það er sparnaður og aukin skilvirkni en öllum slíkum breytingum og hagræðingu fylgir að starfsfólki er fækkað. Þetta gerist í öllum þeim stofnunum þar sem farið er í hagræðingu. Það má taka bankana sem dæmi og það eru sársaukafullar aðgerðir þegar fækka þarf starfsmönnum. En þetta er hliðarverkun, hliðaraðgerðir í oft nauðsynlegum breytingum.

[16:30]

Brtt. frá Hjálmari Jónssyni er, eins og hann sagði, til þess að gera greinina skýrari. Ráðherra hefur ekki lengur heimild til að hafa áhrif á verðskerðingargjaldið. Það er bundið í lögum og því er það til að taka af allan vafa að þessi brtt. kemur fram.

Brtt. frá Guðmundi Árna Stefánssyni um að sjóðurinn sem er hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins upp á 190 milljónir renni til Lífeyrissjóðs bænda eftir ákveðin tímamörk, er umhugsunarinnar virði. En ég mæli gegn því að greinin verði samþykkt eins og hann leggur til því að allar þessar brtt. eru samkomulag á milli ráðuneytis og Bændasamtakanna og að ákveða einhliða hér hvert þessi sjóður eigi að fara finnst mér ekki koma til greina. Framleiðsluráðið hafði þetta fé til þess að sinna þeim verkefnum sem því var falið. Bændasamtökin þurfa á þessu fé að halda og vöxtum af sjóðnum til þess að sinna þeirri starfsemi sem þau yfirtaka.

Vissulega er staða Lífeyrissjóðs bænda bág og það þarf meira en 190 milljónir og þó svo að aðrar 190 milljónir legðust við eða 150 þá er það kannski ekki einu sinni nóg til þess að ... (GÁS: Mjór er mikils vísir.) Já, mjór er mikils vísir. En ég held að á þessu stigi núna sé ekki rétt að ákveða þessa breytingu. Það verður að gerast með samkomulagi. Ég benti á fyrr í ræðu minni að nokkur atriði væru óljós, t.d. hvað ætti að gera við þetta fé. Framleiðsluráðið hefur haft þennan sjóð. Bændasamtökin fá þennan sjóð. Það þarf að skilgreina hvernig honum skuli varið. Þetta er þá bara ein leið. En við getum ekki ákveðið það að mínu mati hér og nú án þess semja við bændur.

Ég vil svo spyrja hæstv. landbrh. um framkvæmdanefnd búvörusamninga. Nú er hún hluti af verkefnum Framleiðsluráðs landbúnaðarins: Er það alveg nógu skýrt hvernig framkvæmdanefndin muni starfa eftir að verkefnin færast yfir til Bændasamtakanna?