Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 17:11:51 (3283)

1999-12-17 17:11:51# 125. lþ. 48.31 fundur 291. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ellilífeyrisgreiðslur, samsköttun félaga og ríkisverðbréf) frv. 101/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Fyrir rúmlega ári síðan benti ég úr þessum ræðustól á leið til að komast hjá því að greiða eignarskatt og orðaði það þannig að þeir greiddu eignarskatt sem nenntu. Ástæða þessa er sú að í áratug eða meira hefur verið möguleiki að taka lán til að kaupa spariskírteini. Lánið dregst frá eignum en spariskírteinið kemur eigninni ekki við. Þannig hafa þeir sem til þekkja getað notað þessa reglu í áratug. Mér fannst það ekki lengur fært eftir að hafa bent á þessa meinsemd í lögunum í tíu ár og ekkert gerðist, að fólk sem á tiltölulega litlar eignir, kannski íbúðarhús upp á 15 milljónir, að einstaklingur, e.t.v. nýbúinn að missa maka sinn, sé að borga eignarskatta undir drep af litlum tekjum oft og tíðum, lífeyrisgreiðslum, á meðan aðrir sem eiga miklu meiri eignir komist hjá því vegna þekkingar sinnar á þessum möguleika. Þess vegna fannst mér ótækt annað en að benda þessu fólki á að það þurfi ekki að borga eignarskatta. Og svo varð um marga. Sumum fannst þetta reyndar ósiðlegt þar sem þetta væri undanskot, en ég kem inn á það á eftir að það eru fleiri sem gera það og meira að segja opinberir aðilar.

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að beiðni ráðuneytisins. Þó það hafi haft heila tólf mánuði til þess að vinna í málinu þá er eins og það hafi vaknað af værum blundi --- þar voru menn kannski svo uppteknir af því að semja glæsileg fjárlög --- þegar aðilar úti í þjóðfélaginu, bankamenn, fóru að hringja inn og spyrja hvort þetta fína dæmi sem búið var að setja upp í fyrra virkaði ekki aftur í ár. Þarna yrðu milljarðar í eignum fluttir á milli. Þá vaknaði það sem sagt af værum blundi allt of seint. Og svo er komið hér viku fyrir áramót og menn ætla sér að breyta skattlagningu á skattstofni sem afar erfitt er fyrir skattgreiðandann að breyta á svona stuttum tíma, þ.e. eignum manna. Fólk hleypur ekkert að því að selja fasteignir sínar og breyta þeim yfir í sparifé eða aðrar leiðir sem eru enn þá til, herra forseti, eins og ég mun koma hér inn á á eftir.

Í athugasemd frá Félagi löggiltra endurskoðenda kemur fram að nefnd hjá þeim telur orka tvímælis hvort gildistaka með svo stuttum fyrirvara standist, með leyfi herra forseta:

,,Einstaklingar hafa margir hverjir gert sínar ráðstafanir sem byggst hafa á gildandi eignarskattsfrelsi ákveðinna tegunda eigna. Íþyngjandi breytingar á því eignarskattsfrelsi gætu því verið felldar úr gildi samkvæmt almennum reglum um afturvirkni skattlagningar.``

[17:15]

Þeir efast sem sagt um að frv. sem hér liggur fyrir fái staðist vegna afturvirkni. Þeir telja að fólki gefist ekki tóm til þess að breyta skattstofninum eins og skyldi.

Ég hef sömu áhyggjur af þessu frv. og það er ástæðan fyrir fyrirvara mínum. Þessi breyting hækkar greinilega tekjur ríkissjóðs af eignarskatti vegna þess að fjöldi fólks hefur á undangengnum áratugum sparað í spariskírteinum vegna þess að þau eru eignarskattsfrjáls. Sá sparnaður verður að einhverju leyti skattlagður núna og þar með aukast tekjur ríkissjóðs. Ég hefði talið eðlilegt að hin ofurháa eignarskattsprósenta hér á landi sem er 1,45% yrði lækkuð um leið.

Ég bendi á að sú breyting sem er lögð til í ákvæði til bráðabirgða, 2 millj. fyrir einstakling og 4 millj. fyrir hjón, gerir það að verkum að nú geta bankarnir boðið staðlaðan pakka, 2 millj. fyrir einstakling og 4 millj. fyrir hjón. Það verður væntanlega notað af öllum þeim sem á síðasta ári borguðu eignarskatt umfram svona 20--30 þús. kr.

Þegar fjármagnstekjuskattur var settur á var nefnd sett í að fjalla um það og ég var í þeirri nefnd. Ég lagði mikla áherslu á að margvíslegar tegundir fjármagnstekjuskatta sem áður voru lagðar á, sérstakur skattur af leigjutekjum, sérstakir skattar á arðgreiðslur, stundum skattar, stundum ekki skattar, stundum tvískattað, afar hár skattur á söluhagnað og svo skattfrelsi vaxta, gerðu það að verkum að enginn vandi var að flytja tekjur á milli þessara forma þannig að menn gátu komið öllum fjármagnstekjum undir vexti og komist hjá því að borga skatt. Það gerist alltaf þegar menn leggja mismunandi skatta á sama skattstofn.

Ég gat um það áðan að til eru ýmsar skattasmugur eða skattaskjól sem sumir kalla. T.d. notað Seðlabanki Íslands svokölluð endurhverf verðbréfaviðskipti. Hvað skyldi það nú þýða? Þetta er furðulegt nafn, endurhverf verðbréfaviðskipti. Af hverju skyldi Seðlabankinn nota svona form á skammtímalánum sínum sem eru til tveggja vikna til bankanna? Það er vegna þess að Seðlabankinn getur ekki borgað stimpilgjald. Hann kemst hjá því að borga stimpilgjald með því að nota sömu bréfin aftur og aftur. Þetta er viðtekin regla í viðskiptum. Þegar stimpilgjald er svo hátt að það er vart hægt að stunda skammtímaviðskipti á markaðnum þá gera menn það einmitt svona eins og þessi opinberi aðili gerir. Þetta kalla sumir skattsvik, aðrir skattundankomu en ég kalla þetta skattaskjól. Enda segir Seðlabankinn í umsögn sinni, með leyfi forseti:

,,... ætti fyrst og fremst að draga úr viðskiptum og amstri sem engan tilgang hafa annan en að komast undan sköttum.``

Enn fremur segir:

,,Þó er til í dæminu að leit að og amstur vegna annarra skattaskjóla muni aukast að sama skapi. Sambærilegar glufur eru þó varla auðfundnar.``

Þær eru afskaplega auðfundnar, herra forseti. Þær eru afskaplega auðfundnar eftir þessa breytingu. (SJS: Fáum við námskeið?) Ég get gefið hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni bæði námskeið í því hvernig á að komast undan eignarskatti sem og erfðafjárskattinum. Ég gat um það í félmn. í morgun. (SJS: Ég ætla ekki að fara að deyja.) Það veit enginn hvenær hann deyr, herra forseti.

Í dag hafa menn þann háttinn á að hlutabréf eru metin á nafnvirði í eignum manna. Á móti kemur að fyrirtæki borga eignarskatt af öllum eignum sínum að frádregnu nafnvirði hlutabréfa. Þetta er ósköp eðlilegt og virðist sanngjarnt, nema menn eigi hlutabréf í öðrum löndum þar sem yfirleitt er enginn eignarskattur. Í flestum löndum heims er ekki eignarskattur á fyrirtæki og því afskaplega auðvelt að stofna hlutafélag í svoleiðis landi, þ.e. ef maður á umtalsverðar eignir. Menn stofna fyrirtæki sem eignast eignir þeirra en síðan eiga þeir hlutabréf í því á lágu nafnvirði. Ef maður selur sjálfum sér þetta á mjög háu gengi þá á maður litla eign í hlutafélagi og það á allar eignirnar. Þetta er ein leiðin og þá er enginn eignarskattur borgaður nema af milljón sem menn eiga. Það er undir mörkunum svo þetta er allt í lagi. Þetta er ein leiðin.

Varðandi erfðafjárskatt þá er auðvelt að gera það þannig að menn selja hlutafélagi með milljón kr. nafnverð allar eignir sínar, segjum að það séu 100 millj. Síðan kaupir maður hlutabréf af fyrirtækinu á genginu 100, þ.e. að það eru líka 100 millj. Þegar maður svo fellur frá þá telst nafnverð hlutabréfanna, þ.e. 1 millj., til erfðafjárskatts. Af því er nettur skattur og svo þegar maður er allur þá geta erfingjarnir breytt félaginu aftur yfir í eignir og erfðafjárskatturinn hefur gufað upp. Þetta er ein leiðin sem sýnir hve mikilvægt er að skattalög séu rökrétt. Það er að sjálfsögðu ekki eðlilegt að telja nafnverð hlutabréfa til eignar heldur ætti að sjálfsögðu að taka verðmæti hlutabréfanna sem eign. En menn hafa ekki haft miklar áhyggjur af því að skattalög séu rökrétt hér á landi.

Breytingin sem við erum að gera hér, herra forseti, er t.d. afskaplega órökrétt. Í henni stendur að sparisjóðsinnstæður, spariskírteini o.s.frv. skuli vera eignarskattsfrjáls ef þau eru umfram skuldir. Þannig er til möguleiki á að breyta eignum sínum, þ.e. ákveðnar eignir eru eignarskattsfrjálsar. Hvað gerir maður ef manni leiðist að borga eignarskatt? Nú, maður reynir náttúrlega að eyða öllum skuldum og flytja allar eignir sem bera eignarskatt yfir í það form að vera eignarskattsfjálsar. Hvaða form er það? Það eru sparifjárinnstæður. Af því að maður er eignamaður þá hefur maður góðan aðgang að bankastjórunum, spjallar við hann smástund og dæmið gengur upp eftir þessa breytingu. Þetta er reyndar dálítið meira vesen en sú leið sem ég benti á fyrir ári síðan.

Svo var önnur leið að opnast nú nýverið. Það eru lífeyrissjóðirnir. Lífeyrisréttindi eru eignarskattsfrjáls, koma manni ekkert við. Fólk telur ekki fram eign sína í lífeyrissjóðum. Það kemur framtalinu bara ekkert við. En eignin er samt sem áður til staðar. Það er enn ein leiðin. Ég gæti t.d. talað við séreignasjóðinn minn og spurt hvort hann vilji ekki kaupa húsið mitt og svo borga ég leigu til séreignasjóðsins. Ég fæ vexti hjá honum af því að þetta er ávaxtað í séreigninni minni, húsið mitt. Þá gleymist það algjörlega í framtalinu. Lífeyrissjóðurinn er algjörlega skattfrjáls varðandi fjármagnstekjuskatt o.s.frv. Svo náttúrlega þegar ég tek það út aftur þá er það skattlagt sem er dálítill ókostur. En eignarskattstekjur í mörg ár geta samt sem áður upphafið það. Það eru til ýmsar leiðir til að komast hjá eignarskatti á meðan menn hafa órökrétt skattalög.

Þær reglur sem hafa verið í gangi hafa verið mjög óréttlátar. Ég þekki t.d. dæmi um hjón með tvö börn sem bjuggu í kjallaraíbúð. Af því að þessi hjón voru ekki skuldarar eins og Íslendingar eru yfirleitt þá áttu þau dálítið í þessari eign sinni. Ég held að þau hafi átt 7 eða 8 millj. kr. í henni skuldlaust. Svo fellur maðurinn frá, sem aldrei skyldi verið hafa, og þá fer ekkjan til viðbótar við öll vandræðin að borga eignarskatt. Hún er allt í einu orðin stóreignamanneskja með börnin tvö. Þannig eru nú reglurnar í dag. Ef það er eldri kona sem missir manninn sinn þá fær hún oft lakan lífeyrir en telst allt í einu eignarskattsmanneskja. Segjum að hjónin hafi komið sér upp einbýlishúsi sem þau vildu eiga skuldlaust undir lokin. Ef maðurinn fellur frá er konan allt í einu farin að borga töluvert miklar upphæðir í eignarskatt. (SJS: Ætlaði ekki Sjálfstfl. að leggja niður ekknaskattinn?) (Gripið fram í: Það er hinn frægi ekknaskattur.) Þetta er hinn frægi ekknaskattur, herra forseti. Já já, hann lifir góðu lífi. (SJS: Hvað er Sjálfstfl. búinn að vera lengi í stjórn?) Hann hefur breytt miklu. Þetta er það næsta sem hann gerir.

Af eignarskattinum eru önnur áhrif. Ísland er þjóðfélag skuldara. Við dáum og dýrkum skuldarana og gerum allt fyrir þá. Þeim sem slysast til að spara skal hins vegar refsað endalaust og stöðugt. Segjum að einhverjum takist að spara milljón umfram það sem hann má eiga umfram íbúðina sína í hlutabréfi eða einhverju slíku þá er hann orðinn áskrifandi að því að borga 14.500 árlega í ríkissjóð upp frá þeim tíma ævilangt. Ef hann skyldi eiga 10 millj. --- þetta er svona maður sem neitar sér um allar utanlandsferðir, jeppa og því um líkt og meira að segja bíla --- ef hann skyldi nú slysast til að eiga 10 millj. í einhverju, fasteignum eða öðru slíku, þá er hann orðinn áskrifandi að því að borga 145 þús. kr. á ári í ríkissjóð. Ég sé ekki hæstv. fjmrh. hérna en það er hann sem hirðir aurana, þ.e. 12 þús. kall á mánuði. Er nema von að fólk hugsi sér að betra sé að skreppa í heimsreisu og eyða þessum aurum í staðinn fyrir að borga skatta í áskrift?

Við erum yfirleitt með hæstu eignarskatta í OECD-löndunum. Það er mjög brýnt að þeir verði lækkaðir eða a.m.k. samræmdir þannig að öll form beri sama skatt þannig að það séu engin skattaskjól, eins og Seðlabankinn kallar það. Ríkið á ekki að hafa áhrif á það hvernig menn dreifa eignum sínum, í hverju menn eiga. Þeir eiga helst að eiga bankainnstæður, segja lögin. Menn mega eiga spariskírteini en ekki fasteignir. Þeir eiga ekki að eiga hlutabréf, nema það standist sem hér kom fram áðan um að þau séu orðin algjörlega eignarskattsfrjáls, sem ég efast nú um. Ég hef ekki áttað mig nákvæmlega á því hvernig þessi lög virka. En núna er eignunum stýrt virkilega mikið.

Breytingin sem hér er verið að gera, ég hef sagt hvernig hún virkar. Þarna er ákveðinn skammtur sem menn munu kaupa og það getur vel verið að áhrifin verði þau að miklu meiri viðskipti verði með þetta eftir en áður. Eftir sem áður er stór hluti eignarforma skattfrjáls, þ.e. sparisjóðsinnstæður, spariskírteini, lífeyrissjóðir og annað slíkt. Ég held að það sé mjög brýnt, herra forseti, að menn vinni að því að breyta skattalögunum fyrr en síðar.

Ég skora á hæstv. fjmrh., sem ekki er viðstaddur, að vakna nú af værum blundi fyrr en um næstu áramót og byrja strax að vinna að því að breyta skattalögunum í þá veru sem ég og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson leggjum til með frv. um breytingu á eignarsköttum. Þannig yrðu allar eignir skattlagðar jafnt: lífeyrissjóðir, fasteignir, hlutabréf, sparifjárinnstæður og opinberar eignir líka, Landsvirkjun, orkufyrirtæki sveitarfélaganna og fjöldinn allur af fyrirtækjum sem blómstrað hafa í skjóli skattfrelsis. Allar eignir yrðu skattlagðar og þá yrði hægt að lækka skattinn niður í eitthvað réttlætanlegt, niður í 0,35% samkvæmt útreikningum sem gerðir voru fyrir tveimur árum.

Ég skora á hæstv. fjmrh. að taka sig nú á og breyta skattkerfinu, eignarskattskerfinu þannig að menn geti ekki notað svona skattaskjól.