Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 17:56:40 (3287)

1999-12-17 17:56:40# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er ég miklu nær. Ég hef lesið stjórnarsáttmálann og ég hef séð að þar stendur að stefna eigi að undirbúningi að sölu. Ég hef líka hlustað á hæstv. ráðherra og ég tiltók það áðan að hæstv. ráðherra hefur margsagt að hann sé að undirbúa sölu og stefni að því að hún hefjist innan skamms.

Ég spurði líka annarrar spurningar sem var ekki svarað. Hún var: Hefur Framsfl. samþykkt að grunnnetið fylgi með í sölunni sem verið er að undirbúa? Það hlýtur að skipta máli við undirbúning málsins því að væntanlega þarf að gera verulega miklar ráðstafanir til þess að aðskilja grunnnetið frá annarri starfsemi ef það á ekki að fylgja með. Ég tel þess vegna að svörin hafi verið afar óskýr hjá hv. þm. um það hver er stefna Framsfl. í þessu máli. Er hún kannski enn þá til athugunar eins og kom fram við 1. umr. málsins? Eru menn enn að hugsa sig um eða hafa menn samþykkt að staðið sé þannig að málum eins og hæstv. ráðherra lýsir?