Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 17:59:00 (3289)

1999-12-17 17:59:00# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[17:59]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er kannski svona lengi að skilja en nú skil ég þetta alveg. Framsfl. er ekki til í þetta. Það er ekki komið að þeirri stund og yfirlýsingar hæstv. ráðherra eru, þó ekki sé minna sagt, allt of snemma á ferðinni. Hæstv. ráðherra hefur sem sagt verið með yfirlýsingar um hvað hann ætli að gera í málinu sem eru ekki tímabærar. Það er ekki búið að ná samkomulagi við Framsfl. um þetta mál. Þannig les ég út úr því sem hv. þm. var að segja og ég get út af fyrir sig fagnað því. Ég tel að þetta sé ágætt svar og ef ég hef skilið málið rétt sem ég efast ekkert um núna, þá munum við fá inn pólitíska umræðu um málið áður en langt um líður líklega miðað við það sem hæstv. ráðherra hefur verið að segja. En a.m.k. hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um þetta og hv. þm. Sjálfstfl. sem hafa sagt mér að slík ákvörðun lægi fyrir hljóta að hafa verið eitthvað að gera grín að mér eða koma af stað einhverjum upplýsingum sem ekki eiga við rök að styðjast.