Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 18:08:03 (3291)

1999-12-17 18:08:03# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, Frsm. 2. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[18:08]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. kom víða við í ræðu sinni sem verður náttúrlega ekki farið yfir í stuttu andsvari svo ég hef sett mig á mælendaskrá að nýju. En ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa þá margumræddu grein sem við höfum kannski rifist um í dag hvort þýði skilyrðislausan rétt fjarskiptafyrirtækja inn á margumtalaða heimtaug, 20. gr. sem hljóðar svo:

,,Þegar fjarskiptafyrirtæki geta ekki tengst einstökum notendum sem eru tengdir fjarskiptaneti rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild vegna eðlis eða umfangs fjárfestingar í heimtaug sem er forsenda viðskiptasambands`` --- virðulegi forseti, og ég ítreka það --- ,,getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að fjarskiptafyrirtæki fái beinan aðgang að einstökum notendum.``

Ég held, virðulegi forseti, að þetta geti ekki verið miklu skýrara og að halda því fram að þetta ákvæði feli í sér skilyrðislausan rétt til þess að komast inn á þessa heimtaug takist samningar ekki og til þess að samningar takist þarf að ná samningum við hið markaðsráðandi fyrirtæki, virðulegi forseti, þá þarf a.m.k. tvo aðila til þess að ná samningum.

Það sem ég var að segja í ræðu minni áðan var að forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar sagði einfaldlega aðspurður að þeir mundu meta það hverju sinni hvort rétt væri að það fyrirtæki sem sækti um að komast inn á heimtaug ætti í framtíðinni að fara ofan í jörðina með fjarskiptanet sitt eða hvort það færi í loftið. Með öðrum orðum: Póst- og fjarskiptastofnun mundi meta það hvort rétt væri fyrir fyrirtæki að stefna að fjarskiptum í jörðu eða lofti. Þetta er langur vegur, virðulegi forseti, frá því að þetta sé skilyrðislaus réttur að heimtaug. Það er algerlega fráleitt að halda því fram. Hins vegar get ég tek undir það með samgrh. að greinargerðin með þessu ákvæði er allt annars eðlis. Þar er að finna allt annað. Hins vegar er það ákvæðið sjálft sem ákvarðar í þessum efnum.