Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:02:40 (3298)

1999-12-17 20:02:40# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, Frsm. meiri hluta ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:02]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta samgn. um frv. um Póst- og fjarskiptastofnun. Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið á sinn fund ýmsa sérfræðinga úr ráðuneyti og frá stofnunum og frá fyrirtækjum.

Við samningu frv. var höfð hliðsjón af frv. til nýrra fjarskiptalaga sem lagt var fram samhliða.

Í frv. er leitast við að skerpa á úrræðum stofnunarinnar til að afla upplýsinga frá einstökum póst- og fjarskiptafyrirtækjum á markaðinum og gera stofnuninni þannig kleift að rækja hlutverk sitt samkvæmt frv. til fjarskiptalaga. Er stofnuninni m.a. ætlað veigamikið hlutverk við framkvæmd reglna um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu.

Þá er gert ráð fyrir því nýmæli í frumvarpinu að stofnuninni verði veitt heimild til að taka ákvörðun til bráðabirgða þegar aðstæður krefjast þess að mati hennar og dráttur á niðurstöðu máls er til þess fallinn að valda verulega tjóni.

Í frv. eru ákvæði um að skýra skuli valdmörk Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar.

Einnig er gert ráð fyrir að tekið verði sérstakt gjald fyrir úthlutun símanúmera til rekstrarleyfishafa og úthlutun einstakra stuttnúmera. Verði gjald fyrir þriggja stafa númer 1.000.000 kr. og 200.000 kr. fyrir fjögurra stafa númer. Er tilgangurinn m.a. að draga úr eftirspurn þar sem um fá númer er að ræða og því erfitt, þegar til lengri tíma er litið, að anna eftirspurn.

Þá er gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtæki, póstrekendur og rekstrarleyfishafar skuli árlega greiða Póst- og fjarskiptastofnun rekstrargjald sem nemi 0,25% af bókfærðri veltu. Vegna ákvæða 77. gr. stjórnarskrárinnar um skipan skattamála er nauðsynlegt að heimild til skattlagningar sé skýr í lögum og er því mælt fyrir um að gjaldið sé fast hlutfall af bókfærðri veltu.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á tilvísun í 6. mgr. 5. gr. en þar er vísað í 7. mgr. greinarinnar í stað 9. gr. frv.

Þá leggur meiri hlutinn fram brtt. við 3. gr. þar sem bætist ný svohljóðandi málsgrein:

,,Forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunar sem framkvæmd er með heimild í lögum þessum.``