Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:05:05 (3299)

1999-12-17 20:05:05# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, Frsm. 1. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:05]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Hér kemur frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun til 2. umr. Undirritaður, sem skipar fyrsta minni hluta samgn., vill fyrst gera þá athugasemd, herra forseti, að þetta frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun kom afar seint fram og fékk aðeins umfjöllun í örfáa daga í samgn. Miðað við þann hraða sem var óskað eftir að frv. fengi í gegnum nefndina til afgreiðslu tel ég að það hafi alls ekki fengið nægan tíma og ekki var hægt að leita þeirra umsagna sem hefði verið æskilegt varðandi þetta frv.

Ég vil í upphafi lýsa þeirri skoðun minni að það ætti að vera alveg ástæðulaust að leggja stjórnarfrv. eins og þetta fram á síðustu dögum fyrir jólaleyfi, svona viðamikið mál eins og Póst- og fjarskiptastofnun í rauninni er fyrir alla landsmenn. Ef réttum og skipulegum vinnubrögðum væri beitt væri óþarfi að láta þetta gerast á þennan hátt.

Herra forseti. Þetta frv. færir til nútímavegar ýmis atriði sem þarf að leiðrétta miðað við þá þróun sem orðið hefur, bæði í alþjóðasamningum og alþjóðasamskiptum og eins líka varðandi fjarskipti og í sjálfu sér er margt gott um það að segja.

Aftur á móti er, herra forseti, í þessu sami þráður og ég vil aftur vara við, þetta er Póst- og fjarskiptastofnun, þetta er póstþjónustan líka. Í þessu frv. er nánast hvergi minnst á þjónustuskilyrði, þjónustukröfur, hvergi er minnst á öryggið sem þjónustan á að veita. Talað er um rekstrarleyfi og skilyrði fyrir rekstrarleyfum. Það er svo gott og blessað og eðlilegt að svo sé en þjónustukröfur nefndar númer eitt. Ítrekað er talað um samkeppni og samkeppniskröfur en lítið fer fyrir þeim þjónustukröfum.

Þó vona ég, herra forseti, að þjónustukröfur leynist í þessum greinum þó að nú þurfi að orða þetta með allt öðrum hætti en á því máli sem við Íslendingar skiljum. Ég vek athygli á því, herra forseti, að í 3. gr. er sagt:

,,Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar eru:

Að veita rekstrarleyfi fyrir almenna fjarskiptaþjónustu og net, setja skilyrði um almennar heimildir til að veita fjarskiptaþjónustu, sundurliðuð eftir þjónustu, allt í samræmi við lög um fjarskipti. Stofnunin setur skilyrði í rekstrarleyfum eftir því sem við getur átt innan þeirra marka sem fjarskiptalög segja til um.``

Öll þessi þjónustustarfsemi er orðuð í formi reksturs og rerkstrarleyfa. Í 2. lið 3. gr., herra forseti, með leyfi, stendur:

,,Að veita leyfi til póstþjónustu samkvæmt lögum um póstþjónustu. Stofnunin setur skilyrði í rekstrarleyfum eftir því sem við getur átt innan marka laga um póstþjónustu.``

Ég hefði gjarnan viljað sjá í frv. það skilyrði að það væri póstþjónusta fimm daga í viku heim á alla bæi og það væri sett í lög en ekki eingöngu talað um rekstur. (Gripið fram í: Forstöðumaðurinn mundi þá bera út.) Já, hann væri sjálfsagt bara ágætur til þess og nokkuð góður. Hann bæri a.m.k. ábyrgð á að það væri gert.

En ég leyfi mér aftur að benda á, herra forseti, að í 22. tölulið 3. gr. stendur:

,,Annað sem lýtur að framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi.

Póst- og fjarskiptastofnun skal framfylgja lögum um fjarskipti og póstþjónustu og tryggja að markmið laganna náist. Skal það gert m.a. með því að stuðla að samkeppni og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti í póst- og fjarskiptaþjónustu og rekstri fjarskiptaneta.``

Aftur og aftur. Ég get farið í grein eftir grein þar sem stöðugt er minnst á samkeppni, samkeppni og aftur samkeppni en þjónustan er falin að mestu leyti. Ég vil bara vekja athygli á því að póstur er þjónusta og Póst- og fjarskiptastofnun, sem á að fylgjast með slíku, hlýtur að setja sér þjónustumarkmið, öryggismarkmið á vera númer eitt, arðsemin og það hvernig einhver samkeppni er hér á markaði er síðan annað mál.

Ég bendi á t.d. að víða úti um land er verið að berjast fyrir því að halda uppi þeirri póstþjónustu sem var. Ég minni á pósthúsið í Varmahlíð. Núna síðustu árin er verið að skerða opnunartímann þar og sjálfsagt kemur að því að afgreiðsludögum verður fækkað. Þetta fólk sem á 50 eða hundruði kílómetra á langt að, ekki er hægt að vera að bæta þessa þjónustu.

Herra forseti. Ég vil draga þetta alveg sérstaklega fram vegna þess að það er þjónustan númer eitt, tvö og þrjú sem við þurfum að fá lögboðna og lögstyrkta. Samkeppni innan Stór-Kópavogssvæðisins er síðan bara annað mál.

Herra forseti. Ég leyfi mér að lesa hér upp nál. sem undirritaður hefur lagt fram:

,,Frv. er lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti í þskj. 143 og taka brtt. í því mið af frumvarpi til fjarskiptalaga. Með vísan til nefndarálits 1. minni hluta samgöngunefndar um frumvarp til laga um fjarskipti mun 1. minni hluti sitja hjá við afgreiðslu málsins.``

Ástæða þess er einkum sú að ekki er nógu fast kveðið á um þjónustukröfur, þjónustuskilyrði og öryggishlutverk.

Varðandi brtt. sem hv. formaður samgn. mælti fyrir, sem var verið að leggja fram þar sem gert er ráð fyrir að forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar sé heimilt að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunar, er það bara liður í því að fara að einkavæða þessa skoðun. Ekki hefur það verið reynsla okkar úti um land að einkavæðing á skoðunum og eftirlit og skoðunarstofum og þjónustu og viðbragðsflýti hafi verið til góðs, því miður. Ég er því algjörlega andvígur þessari brtt. Hún undirstrikar áfram að samkeppni, einhver arðsjónarmið en ekki þjónusta, öryggi og viðbragðsflýtir sem á að vera höfuðsýn Póst- og fjarskiptastofnunar.