Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:14:05 (3300)

1999-12-17 20:14:05# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, Frsm. 2. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:14]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nál. 2. minni hluta samgn. um frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun og er á þskj. 470.

Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum er nátengt því frv. sem við ræddum fyrr í dag og nánast óaðskiljanlegur hluti af því. Meginefni þessa frv. og umræðan um það hefur fyrst og fremst snúist um það hvernig verkaskipting eigi að vera hjá þeim eftirlitsaðilum sem eiga einmitt að tryggja að farið sé eftir þeim reglum sem þeim eru settar í því skyni, virðulegi forseti --- vegna orða þess ræðumanns sem flutti langt mál áðan --- til þess einmitt að tryggja þjónustu, til þess einmitt að tryggja lágt verð. Ég held að að mörgu leyti hafi vel tekist til með það frv. sem við ræðum hér en þar sem við í 2. minni hluta í samgn. teljum að þetta frv. sé nánast bara hluti af því frv. sem við ræddum í dag og verður vart á milli skilið munum við sitja hjá vegna þeirra athugasemda sem við höfum gert fyrr í dag við það frv. og þær athugasemdir eiga einmitt við um þetta.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, hef ég gert nokkuð skýra grein fyrir þessu frv. Meginefnið er það að Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun er ætlað að komast að samkomulagi um það hvernig þær sinna þessu eftirliti. Ég er sannfærður um að þeim mun takast að sinna þessu eftirliti eins og til er ætlast svo ég geri ekki lengra mál úr þessu, virðulegi forseti.