Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:15:58 (3301)

1999-12-17 20:15:58# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera efnislegar athugasemdir við frv. sjálft sem hér um ræðir vegna þess að hv. þm. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hefur lýst afstöðu okkar og skoðunum á frv. sem slíku. En ég vil koma á framfæri undrun minni á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru. Mjög lítil umræða hefur orðið um þetta mál og ég vil sérstaklega gera athugasemd við það að sá stjórnarflokkur sem stærir sig af því að sækja mikið af fylgi sínu út á land hefur nánast ekki sést í þingsalnum í dag við umfjöllun um málið. Það er mjög alvarlegt vegna þess að við hljótum, og þá á ég sérstaklega við þá sem búa úti á landi og þekkja aðstæður þar, að krefjast svara um hvert menn ætla að stefna í þessu máli. Það þarf að svara mjög mikilvægum spurningum.

Það sem háir landsbyggðinni í dag er vöntun á aðgangi að netinu. Við vitum öll að fyrirtæki sem eru einkavædd og eiga að skila hámarksárangri vinna út frá því að sitja að feitustu og bestu bitunum, það er lögmálið. Og ég vil taka innilega undir með framsetningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar þegar hann lýsti eftir því að við ræddum um markmiðin með stofnunum af þessu tagi. Markmiðið hlýtur að vera að þjóna öllu landinu þó svo að það borgi sig ekki á vissum svæðum per se. Það hlýtur að vera markmið okkar að hægt sé að ná út um allt land og allir eigi jafnan aðgang að þessum línum og kerfum. Þetta er því stóráhyggjuefni.

Hver maðurinn á fætur öðrum segir hér að þetta verði ódýrara. Hvað eru menn að tala um ódýrara þegar margoft hefur komið fram að íslenska símakerfið er með því ódýrasta í heimi? Það er líka talið vera með því tæknivæddasta í heimi. Hvað er að því að eiga sameiginlega fyrirtæki sem blómstrar á þann hátt? Ekki nokkur skapaður hlutur. Við höfum marglýst því yfir að við höfum sérstakar áhyggjur af einmitt þessum þætti og teljum að engin ástæða sé til þess að einkavæða með því offorsi sem hér gerist. Og að taka ákvarðanir á hinu háa Alþingi um sölu á fyrirtæki landsmanna sem er metið, eins og fram hefur komið í umræðunni í dag, upp á 30--50 milljarða, hvar í ósköpunum mundi þetta gerast í viðskiptageiranum sem flestir hv. þm. virðast vera svo hrifnir af í dag? Halda menn að þeir tækju sér ekki betri tíma til að fara ofan í þessi mál og skoða hvað væri um að vera og hvernig væri best að koma hlutum fyrir? En það virðist alls ekki vera gert.

Það er líka sérstakt áhyggjuefni að í þessari hröðu uppbyggingu, sem er nauðsynleg, hefur landsbyggðin verið á eftir og það tefur fyrir. Það eru meira að segja stórir ferðamannastaðir sem ná ekki GSM-sambandi og komast ekki inn á línurnar, inn á ljósleiðara o.s.frv. Það hefði nú verið gott að fá svör við því frá hv. þm. Framsfl. hvernig á að tryggja uppbyggingu og tengingu þessara svæða sem um ræðir miðað við þau lög sem þeir ætla að keyra í gegn núna og sölu á fyrirtækjunum. Þessu er að mínu mati algjörlega ósvarað.

Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af framtíðinni fyrir landið í heild. Ég efast ekkert um að einkavætt fyrirtæki getur þjónað ágætlega þéttbýlisstöðunum á suðvesturhorninu og e.t.v. einhverjum af stóru bæjunum en landið er miklu, miklu stærra. Og þetta er þröngsýni ef við högum málum þannig, t.d. út frá túrisma að ekki sé hægt að ná sambandi alls staðar og þjónustan sé ekki veitt alls staðar, inn til dala og uppi um fjöll. Það er samfélagslegt markmið okkar að innanríkismálin séu vel rekin og er metnaðarmál og lykilatriði hvers einasta lands.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lýst okkur reiðubúin til þess og gerðum það í fyrri umræðum, að gera breytingar og vörpuðum því fram að við værum til viðræðu t.d. um að selja símann en að flutningsleiðirnar yrðu í sameiginlegri eign. Það var flötur á því máli að fara í það út frá þeim sjónarhóli.

En nú á að selja allt í einum pakka og miðað við reynsluna frá söluæði síðustu ára og mánaða líður sennilega ekki á löngu þar til þetta verður komið í hendurnar á fjármagnseigendum. Þeir fjármagnseigendur þurfa kannski ekkert nauðsynlega að vera Íslendingar, þetta getur lent úti í Chicago eins og mörg önnur símafyrirtæki heimsins. Ég vildi gjarnan koma þessu að og vil sérstaklega lýsa eftir afstöðu Framsfl. vegna þess að ég tel að Framsfl. þurfi að segja kjósendum sínum úti um allt land hvernig hann hyggist gæta hagsmuna þeirra. Það er lykilatriði í þessu máli.