Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:26:20 (3305)

1999-12-17 20:26:20# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:26]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú best að nota ekki þessa mínútu til að svara þessu efnislega. Það sýnir sig árangurinn af stjórnarstefnu sjálfstæðismanna síðustu tvö kjörtímabil hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig. Landsbyggðin hefur aldrei tapað eins mörgum til suðvesturhornsins og núna allra síðustu ár og það er hrun úti um byggðirnar, á þriðja þúsund manns. Það kallast óreiða í innanríkismálum. Ef við eigum að fara út í umræður af þessu tagi um stöðu landsbyggðarinnar þá er það efni í heilan dag þess vegna.

En ég lýsi því yfir enn og aftur að ég tel að þjónusta gagnvart hinum dreifðu byggðum sé í stórhættu og við höfum meira að segja fundið forsmekkinn þegar menn hafa verið í einkavæðingartöktum. Það eru ýmsir þættir, t.d. hjá símanum, sem eru nú þegar orðnir miklu lélegri úti um land en var, t.d. að ná í þjónustu. Ég nefni sem dæmi að ef manni liggur á að hringja í 118, þá er það bara allt annað mál en var fyrir um þremur missirum. Ég tel því að nú þegar sé byrjað, í undirbúningi einkavæðingarfasa, að skerða þjónustu sem var með miklum blóma og til fyrirmyndar.

Þess vegna vil ég koma að hér þeim miklu áhyggjum mínum af þessu máli. Ég ítreka það enn og aftur sérstaklega að ég tel allsendis óviðunandi að annar stjórnarflokkurinn, framsóknarmenn, skuli ekki hafa séð ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu og veita svör svo heitið geti.