Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:33:32 (3309)

1999-12-17 20:33:32# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, Frsm. 1. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:33]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góð fyrirheit hæstv. ráðherra. En ég ítreka, herra forseti, að fyrir mér er póstþjónusta spursmál um þjónustu en ekki arð. Fyrir mér er þetta spursmál um að þjónustunni sé haldið uppi og ef Pósturinn sem fyrirtæki á eitthvað erfitt með að sinna sinni þjónustu þá er okkar að taka þar í taumana, þá er okkar að sjá til þess að bæta úr. Það má ekki vera háð arðsemiskröfum fyrirtækja hvort þjónusta er veitt, t.d. póstþjónusta um land allt.

Herra forseti. Síðan vil ég árétta og spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki hæstv. ráðherra sem setur þjónustukröfurnar, sem setur kröfur um þá þjónustu sem fyrirtæki sem ætla sér að veita póstþjónustu verða að uppfylla, þ.e. bæði þjónustuna og öryggi hennar? Er það ekki hæstv. samgrh. sem setur þær reglur og ræður því hvenær hann getur sett þessa kröfu fram? Ef svo er þá vona ég að það verði gert sem allra fyrst og ekki í ljósi arðsemissjónarmiða heldur í ljósi þjónustusjónarmiða.