Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:41:15 (3312)

1999-12-17 20:41:15# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:41]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli formanns nefndarinnar, hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, þá rita ég undir þetta nál. með fyrirvara. Ég stend að þeirri brtt. sem hér var kynnt. Hún er mjög til bóta. En ég treysti mér ekki til þess að styðja málið alveg hiklaust þó að ég og Samfylkingin muni greiða þessu máli atkvæði þegar það kemur til endanlegrar atkvæðagreiðslu.

Fyrirvari minn tengist aðallega því að hér eru að eiga sér stað ákveðnar breytingar, þ.e. verið er að fella niður fornám sem verið hefur í einhverjum framhaldsskólanna og því er beint inn á almennu brautirnar. Sömuleiðis er það að gerast að samræmd próf í 10. bekk grunnskóla verða bæði fleiri og verða auk þess valkvæð þannig að reikna má með því að í framhaldsskólana fari að koma nemendur sem ekki hafa lokið öllum samræmdum prófum og með því má reikna að stórum hópi þessara nemenda sem ekki taka samræmd próf af einhverjum ástæðum eða hugsanlega einungis eitt eða tvö, verði jafnframt beint inn á þessar almennu brautir.

Fyrirvari minn, eins og ég segi, tengist kannski fyrst og fremst því atriði að þessar almennu brautir hafa ekki verið nægjanlega skilgreindar og tilfinning mín eftir umfjöllun nefndarinnar er sú að menn séu ekki alveg búnir að marka brautina, að menn hafi ekki alveg náð utan um þá hugsun sem er í frv. og tengt hana síðan áfram yfir á þær breytingar sem eru að verða í sambandi við lokapróf úr grunnskóla.

Kennarafélögin voru með umsögn um þetta mál þar sem fram koma ákveðin sjónarmið sem mér finnst ástæða til þess að halda til haga. Þau eru á þeirri skoðun að sú umgjörð sem dregin er um almennu námsbrautina sé enn þá býsna óskýr og kennarar telja jafnframt að engin fagleg rök standi til þess að fella 18. gr. og skilgreiningu hennar á starfrækslu fornáms brott úr lögunum.

Ég get alveg út af fyrir sig fellt mig við það að ekki sé endilega til braut sem heitir fornám heldur fari allir nemendur inn á svokallaða almenna námsbraut þó að ég geti líka tekið undir þær áhyggjur kennarafélaganna að almenna námsbrautin gæti orðið nokkurs konar ,,ruslakista`` eins og það er orðað.

Þess vegna er mikilvægt að menn séu nokkuð vissir um það hvert þeir stefna. Það er alveg ljóst varðandi nemendur sem eru að útskrifast úr 10. bekk og munu gera það eftir að lögin taka gildi, þ.e. lögin um breytingar á grunnskólalögum sem gera 10. bekkjar samræmdu prófin valkvæð og fjölga þeim að auki, og nemendur munu fara að ráða því sjálfir hvort þeir ganga undir samræmd próf og þá hver þeirra, að við munum fá nýja hópa, ef það má orða það þannig, inn í framhaldsskólana sem framhaldsskólarnir eru kannski ekki tilbúnir til í dag að segja hvernig þeir muni taka á móti.

[20:45]

Framhaldsskólarnir munu að öllum líkindum þurfa að skerpa inntökuskilyrði sín. Það er alveg ljóst að miðað við stöðuna núna má reikna með að almennu brautirnar þurfi að taka við mjög breiðum hópi nemenda, mun breiðari en fer inn á aðrar brautir.

Ég er nokkuð viss, herra forseti, um að á næstu árum þurfum við að takast á við þetta mál, þ.e. breytingar sem eru að verða á skilunum milli grunnskóla og framhaldsskóla. Það er kannski eðlilegt, við erum að vinna með bæði ný grunnskólalög og ný framhaldsskólalög og því ekki óeðlilegt að menn þurfi að takast á við breytingar á löggjöfinni eftir því sem reynslan kennir mönnum hvað betur megi fara. Ég er nokkuð viss um að á næstu árum kalli þessar breytingar á enn frekari skoðun framhaldsskólalaganna. Þá þarf að skoða þær brautir sem skilgreindar eru í lögunum og skýra hvernig almenna brautin á að taka á móti þessum breiða hópi eða móta aðrar brautir sem geti uppfyllt þær kröfur og komið til móts við þær aðstæður sem mér sýnast vera að skapast.

Þetta var sá fyrirvari, herra forseti, sem ég vildi gera grein fyrir en að öðru leyti má segja að ýmislegt í frv. séu breytingar sem ekki eru óeðlilegar. Það kom fram strax við 1. umr. að ekki væru stór ágreiningsmál sem hér kæmu inn í þingið. Það er meiningarmunur og kannski fyrst og fremst það að menn treysta sér ekki til að styðja málið hiklaust, ekki allir endar hnýttir eins og maður hefði viljað sjá.