Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:25:31 (3325)

1999-12-17 21:25:31# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:25]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa komið hér og tekið þátt í umræðunni. Ég vil taka undir með hæstv. menntmrh. um að það beri að styrkja starfsmenntun og tæknimenntun og að skipan hennar verði með þeim hætti að hún geti byggst upp af virðingu og reisn vítt og breitt um landið. Þess vegna að hvarvetna, --- þetta er nærri því eins og jafnréttisbarátta, ekki veitti af að setja alls staðar þar sem maður getur komið því við í lagasetningum og reglugerðum og tali um menntun --- sé starfsmenntun og tæknimenntun sett númer eitt og tvö, svo mikilvægt er þetta fyrir þjóð okkar og að þessi menntun verði byggð upp og tryggð um allt land .