Málefni aldraðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 22:31:51 (3332)

1999-12-17 22:31:51# 125. lþ. 48.19 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[22:31]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir ræðu hennar en hún endaði einmitt málflutning sinn á því máli sem ég kastaði hér fram og gerði fyrirspurn um, þ.e. ábyrgð stjórnenda í þjónustu hjúkrunarheimila á að vera nákvæmlega sama og á sjúkrahúsum.

Þá kem ég að því sem segir í lögum um heilbrigðisþjónustu. Þar segir í 30. gr., með leyfi forseta:

,,Einkasjúkrahúsum og sjálfseignarstofnunum skal stjórnað af fimm manna stjórnum þar sem í eiga sæti þrír kosnir af eigendum, einn fulltrúi kosinn af starfsmannaráði og einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Stjórnir einkasjúkrahúsa og sjálfseignarstofnana skipta sjálfar með sér verkum.``

Þá er spurningin: Erum við að tala um þessa breytingu? Það er búið að taka út úr þessum lögum ákvæði um að heilbrrh. skipi einn í stjórn. En er þá bara verið að fara bakdyramegin inn með tilliti til þessara laga? (Gripið fram í: Hvað heldurðu?)

Í annan stað vildi ég spyrja um starfsmannaráð. Hvernig ætlar Reykjavíkurborg að fara að skipa starfsmannaráð? Það eru Droplaugarstaðir, Langahlíð, Seljahlíð, Norðurbrún 1 og sjálfsagt starfsmannaráð á öllum þessum heimilum fyrir aldraða, en vel að merkja ein stjórn Reykjavíkurborgar yfir þessu öllu. Hvernig ætla menn að fara með þetta mál?