Skipulags- og byggingarlög

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 22:38:24 (3335)

1999-12-17 22:38:24# 125. lþ. 48.22 fundur 276. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (deiliskipulagsáætlanir o.fl.) frv. 117/1999, Frsm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[22:38]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Frv. er aðeins tvær greinar en seinni greinin skiptist í þrennt. Í 1. gr. er lagt til að sveitarstjórn hafi heimild til að víkja frá ákvæðum þessara laga um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í sérstakri samþykkt.

Þarna er verið að lögfesta ákvæði sem reynslusveitarfélögin höfðu um meðferð verkefna og færslu þeirra frá byggingarnefndum til byggingarfulltrúa. Reynslan af þessu þykir það góð að ástæða þykir til að þetta ákvæði verði lögfest. Ákvæðið hjá reynslusveitarfélögunum rennur út 1. janúar nk. og er því lagt til að það verði lögfest hér til frambúðar.

2. gr. skiptist í þrennt eins og ég gat áður um. Í fyrsta liðnum, sem heitir liður 10, er gert ráð fyrir því að einstaklingar sem fengu útgefið eða áttu rétt á að fá útgefið meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hafa lokið meistaraskóla eiga rétt á löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd skv. 2. mgr. 52. gr., enda hafi þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið stendur fyrir í samvinnu við prófnefnd skipulags- og byggingarmála og Samtök iðnaðarins. En námskeið þetta hefur ekki verið mótað að fullu en verður gert samkvæmt nánari reglugerð.

Annar liður 2. gr. sem hérna settur fram og er tölusettur nr. 11 gerir grein fyrir þeirri tillögu að deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafa verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 gilda án tillits til þess hvort þær hafa verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þarna er verið að greiða fyrir samþykktum deiliskipulags og eyða vafa sem lengi hefur staðið mörgum framkvæmdum fyrir þrifum og valdið óróa og réttaróvissu.

Síðasti liður 2. gr. sem hefur verið tölusettur með tölunni 12 segir að samþykktir sem reynslusveitarfélög hafa sett sér með heimild í 16. gr. laga um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994, halda gildi sínu til 1. mars 2000.