Reynslusveitarfélög

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:02:28 (3338)

1999-12-17 23:02:28# 125. lþ. 48.23 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:02]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að bregðast við hugleiðingum hv. þm. að öðru leyti en því er varðar starf nefndarinnar og þær umræður sem komu fram um gildistíma verkefnisins. Það er rétt að í umsögn Reykjavíkurborgar kom fram að breyta bæri þeim ártölum sem í frv. eru. Við ræddum þetta sérstaklega við gesti okkar, bæði úr félmrn. og talsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga. Þeir töldu að nokkurs misskilnings gætti um eðli þessara verkefna og ekki væri ástæða til að breyta tímasetningum á þeim verkefnum sem þarna er verið að fjalla um.

Þegar á þennan tíma líður og ef í ljós kemur að frekari framlenginu þurfi á lögunum um reynslusveitarfélagaverkefnið, þá er auðvitað dágóður tími til að fjalla um það þegar fram líður á næsta og þarnæsta ár. Ég held að ekki hafi verið ástæða til þess að kanna þetta frekar eftir þær viðræður sem við áttum við þetta fólk. Við skulum líta á það einnig að þetta er álit verkefnisstjórnar reynslusveitarfélagaverkefnisins sem þarna kemur fram, þ.e. að þetta sé það sem henta muni varðandi gildistímann.