Reynslusveitarfélög

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:04:31 (3339)

1999-12-17 23:04:31# 125. lþ. 48.23 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég skil ekki þetta mál. Mér er ómögulegt að skilja af hverju heimildarlög mega ekki hafa aðeins rýmri gildistíma heldur en einhverjir meta að sé akkúrat hinn rétti. Eru þetta ekki heimildarlög, herra forseti, í eðli sínu? Þetta eru lög sem búa til lagarammann um heimildina til að hafa reynsluverkefni í gangi. Hverjum gerir það til þó að slík heimildarlög séu til jafnvel þó þau séu ekki notuð? Engum. Og þau sveitarfélög sem ekki þurfa á þeim að halda geta varla amast við því að heimildin sé til staðar ef það er svo að hjá einhverjum sveitarfélaganna í landinu eru þær aðstæður að óþægilegt er að hafa þessa tímaöxi yfir sér akkúrat þarna nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Hvers vegna má þá ekki leyfa heimildinni að lifa og svo kemur bara í ljós hvort á henni þarf að halda eða ekki? Þannig lít ég á málið.

Mér finnst ekki boðleg rök að segja: Ja, ef það kemur í ljós á næsta ári eða þarnæsta að framlengja þurfi þá er alltaf hægt að breyta þessu. Af hverju ekki að ganga bara frá því núna að gildistíminn sé það rúmur að menn geti þá haft allt það svigrúm sem þeir vilja fram á næsta kjörtímabil sveitarstjórna til að tímasetja sínar ákvarðanir og ganga frá málum? Það finnst mér. Ég finn lyktina af því, herra forseti, að í þessu sé verið að búa til einhverja svipu með því að hafa gildistímann svona stuttan. Hvað er á bak við það? Ég bið um önnur rök en þau að einhverjir vísir menn hafi sagt að þeir teldu ekki þörf á þessu. Ég þarf meiri skýringar á málinu.