Reynslusveitarfélög

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:16:41 (3343)

1999-12-17 23:16:41# 125. lþ. 48.23 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ákaflega þakklátur fyrir fræðsluna sem ég fæ hér í hverri ræðunni á fætur annarri um að reynsla þýði reynslu, og svo frá hæstv. ráðherra að það sé hægt að breyta lögum. Þetta eru allt mjög gagnlegar upplýsingar.

En ég er í sjálfu sér enn síður sannfærður hafandi heyrt hæstv. ráðherra m.a. lýsa því að ástæða gæti verið til að sum þessara verkefna lifðu jafnvel lengur. Þó að yfirfærslu málefna fatlaðra lyki farsællega árið 2002 þá gætu lifað eftir reynsluverkefni einmitt á sviði heilsugæslu eða annarra slíkra hluta. Ég held að það sé miklu betra að gefa þennan gildistíma frekar rýmri en skemmri og gera það strax heldur en að standa frammi fyrir því að hringla með þetta þannig að menn þurfi fyrst að miða við að þetta megi ekki vera lengur en til 2002, en svo komi í ljós að það hentaði að standa þar öðruvísi að málum. Menn mega ekki rugla hér saman annars vegar gildistíma laganna og möguleikanum á því að láta reynsluverkefni ljúka á árinu 2003 og hinu að ákvörðun um hlutina þurfi að taka innan þess tíma. Sveitarstjórn getur valið undir lok ársins 2001 að óska eftir því að tilteknu reynslusveitarfélagaverkefni ljúki á árinu 2003. Það er líka sjónarmið fyrir því að hafa tímann kannski frekar rýmri en þrengri í þessum efnum.

Að lokum, bara svo menn mistúlki ekki orð mín, þá var ég ekki að segja, og ég bið hæstv. félmrh. að fara ekki að rökræða við mig á þeim nótum, að ég hafi sérstaklega verið að lýsa áhuga mínum á því að öll verkefni væru samstarfsverkefni eða að það ætti að vera hið almenna módel. Það sem ég var að segja var að ég teldi það ekkert bannorð á hinn bóginn, það gæti vel verið fyrirkomulag sem hentaði við vissar aðstæður í okkar litla landi. Í raun er það auðvitað þannig að allt þetta tal er svolítið sérkennilegt því að þessi mál eru öll samstarfsverkefni í vissum skilningi þess orðs. Löggjafarvaldið verður áfram hér, eða hvað? Fjárveitingavaldið og fjárveitingaramminn er að ýmsu leyti hér. Fjármálum sveitarfélaganna er stýrt með tilteknum hætti einnig héðan hvað varðar löggjöf um tekjustofna og álagningu. Við getum því ekkert slitið þetta svona sundur og verið svo kaþólsk að segja að þetta eigi að vera algjörlega hreint. Þetta er samstarf.