Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:31:39 (3347)

1999-12-17 23:31:39# 125. lþ. 48.25 fundur 274. mál: #A málefni fatlaðra# (ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs 2000) frv. 116/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég kom aðallega hingað til að veita hæstv. ráðherra aflausn af því að hæstv. ráðherra var svo bljúgur og játaði svo hreinskilninslega að það hefði ekki verið alveg nógu góð frammistaða að leggja málin fram svona seint. Það líkar mér vel og ég fyrirgef hæstv. ráðherra fullkomlega og veiti honum hér með aflausn. Aðrir menn bregðast öðruvísi við og þeir eiga síður samúð skilið.

Í öðru lagi þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin fyrir hönd hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem er ekki viðstödd til að hlýða á þau. Að hluta til fengum við þessar upplýsingar í félmn. og að hluta til ekki þannig að hæstv. ráðherra upplýsti um vissa hluti sem komu kannski ekki skýrt fram þar, þar á meðal bæði yfirlit yfir skuldbindingarnar og eins skerðingarnar aftur í tímann. Að vísu mætti á fund nefndarinnar stjórnarmaður í Framkvæmdasjóði fatlaðra, fyrrum hv. þm. Helgi Seljan, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins. Af sinni þekkingu á þessum málum, hafandi setið lengi í stjórn sjóðsins, gat hann upplýst okkur um ýmislegt sem þar var á ferðinni.

Í reynd var hæstv. ráðherra kannski að segja að menn þyrftu ekki að una svo illa við skerðinguna frá því sem verið hefði þegar hann tók við búinu og ætla ég ekkert að hafa um það fleiri orð, það talar fyrir sig. En hitt er ljóst, herra forseti, og það er að ef við lítum á framkvæmdatöluna upp á aðeins 150 millj. kr. til nýframkvæmda, að frádregnum skuldbindingum og öðrum rekstrarþáttum og öðru sem hæstv. ráðherra vék að, er það auðvitað dapurlega lágur hluti af kannski tæpum 600 millj. kr. sem má vænta að erfðafjárskattur og erðfafé ríkisins skili samtals á næsta ári. Við erum því miður að tala um, herra forseti, að verja sorglega lágu hlutfalli af þessum þó myndarlega tekjustofni upp á vel yfir hálfan milljarð kr. til framkvæmda á þessu sviði og þörfin er æpandi. Ég nefni þar sérstaklega, fyrir utan húsnæðismálin, stórátak í aðgengismálum fatlaðra sem mér er vel ljóst að þarf að gera á Íslandi.