Skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:01:35 (3383)

1999-12-18 10:01:35# 125. lþ. 49.93 fundur 238#B skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:01]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í morgunfréttatíma útvarps sl. fimmtudag greindi hæstv. félmrh. frá því að þær breytingar sem tóku gildi hinn 1. maí sl. á lögum um meðferð opinberra mála að því er varðar skýrslutökur á börnum vegna meintra kynferðisbrota hefðu haft þau áhrif að starfsemi Barnahúss væri í hættu og í það stefndi að því yrði lokað. Ástæðan er sú að lagabreytingin fól í sér að dómurum var falið að bera ábyrgð á skýrslutökum meintra fórnarlamba kynferðisafbrota í stað lögreglu eins og áður. Dómarar hafa hins vegar ekki notað Barnahús fyrir skýrslutöku heldur dómhúsin sjálf.

Nýlega kom fram í fréttaviðtali við lögmann sem hefur verið réttargæslumaður margra barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi að hann vissi til að í Héraðsdómi Reykjavíkur hefðu frá því í ágústmánuði verið tekin viðtöl við 15 börn, aðeins eitt í Barnahúsi. Í langflestum tilvikum hafa dómararnir sjálfir rætt við börnin og staðfest dæmi eru um að þeir hafi jafnvel verið íklæddir hempu við skýrslutökuna.

Nú hefur verið samþykkt við afgreiðslu fjárlaga að veita héraðsdómstólum í Hafnarfirði og Akureyri fjárveitingu til að koma sambærilegri aðstöðu upp hjá sér og búast má við því að það sama verði upp á teningnum í þeim umdæmum og í Reykjavík. Því er ótti hæstv. félmrh. um að Barnahúsið líði undir loki ekki ástæðulaus.

Hann hefur orðað það svo að ef dómarar kjósa frekar að smala börnum í dómhúsin í stað þess að nota Barnahúsið sé ekkert annað að gera en að loka því. Hér eru alvarleg tíðindi á ferðinni og ég efast um að það hafi hvarflað að nokkrum sem stóðu að afgreiðslu frv. til laga um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála að tilgangurinn hafi verið sá að færa rannsókn kynferðisafbrotamála gegn börnum aftur í tímann og skapa aukna erfiðleika fyrir börnin. Forstjóri Barnaverndarstofu hefur sagt að ef Barnahúsið leggist af höfum við Íslendingar horfið frá því að vera með fullkomnustu skipan á rannsókn kynferðisafbrotamála til hinnar frumstæðustu í Evrópu.

Barnahúsið markaði tímamót í meðferð kynferðisbrotamála á Íslandi. Í fyrsta sinn sameinuðust allir þeir opinberu aðilar sem bera ábyrgð á meðferð þessara mála undir sama þaki til þess að rækja hlutverk sitt þannig að best félli að velferð barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi. Í stað þess að börnin þurfi að fara á margar stofnanir, segja sögu sína við marga ólíka aðila þurfa þau nú aðeins að fara á einn stað, í Barnahúsið. Þar eru sérfræðingar sem hlotið hafa sérþjálfun á þessu sviði erlendis í því að framkvæma skýrslutöku af börnum og veita þeim áfallahjálp og sálfræðimeðferð og aðstandendum þeirra einnig. Barnahúsið er sérstaklega hannað til að börnum líði vel í því. Innréttingar, húsgögn, litaval og leikföng eru til þess fallin að auka á vellíðan barnsins. Þetta byggir á niðurstöðum rannsókna sem sýna að nauðsynlegt er að draga úr kvíða barns ef takast á að fá það til að tjá sig.

Það er deginum ljósara að ekkert dómhús í landinu getur nokkurn tíma komið í stað Barnahússins hvað þetta varðar, ekki heldur er varðar þá sérfræðiþekkingu og reynslu sem þar er til staðar. Hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni og ég vil því, virðulegi forseti, beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmrh.:

1. Telur ráðherrann að það sé ekki skref aftur á bak við rannsókn kynferðisafbrotamála ef börn sem sætt hafa kynferðisofbeldi þurfa að fara á marga staði og hitta marga ólíka viðmælendur, t.d. vegna skýrslutöku, læknisskoðunar, greiningar og sálfræðimeðferðar sem óhjákvæmilega gerist ef Barnahús leggst af?

2. Fram kom í skýrslu Barnahúss að á fyrsta starfsári þess hafi verið tekin rannsóknaskýrsla af 60 börnum níu ára og yngri. Hvort telur hæstv. ráðherra líklegra að börnunum líði betur við slíka skýrslutöku í Barnahúsi eða dómhúsi?

3. Telur ráðherrann það ekki afturför við rannsókn kynferðisbrotamála að nú er hvergi tryggt að sérfræðingar annist skýrslutöku af börnum vegna meintra kynferðisbrota?

4. Telur ráðherrann það ekki skref aftur á bak að þeir sérfræðingar sem nú starfa í Barnahúsi og hafa þegar öðlast meiri reynslu en nokkurn tíma hefur safnast fyrir hérlendis með viðtölum við meira en 130 börn á sl. 12 mánuðum, séu ekki notaðir við framkvæmd skýrslutöku á börnum hjá dómstólum?

5. Telur ráðherrann það ekki skref aftur á bak ef sú þverfaglega samvinna á vettvangi Barnahúss með þátttöku barnaverndaryfirvalda, lögreglu, lækna og ríkissaksóknara undir sama þaki leggst af?

6. Telur hæstv. ráðherra að það sé ekki skref aftur á bak að heildarsýn tapast yfir fjölda og eðli kynferðisbrotamála gegn börnum þegar vinnsla mála fer fram á mörgum stöðum í stað Barnahúss?

7. Telur ráðherrann það ekki afturför ef sú sérhæfða ráðgjöf og fræðsla sem lögregla, barnaverndarnefndir, heilbrigðisstarfsfólk, kennarar og almenningur um allt land geta fengið í Barnahúsi hættir að standa til boða?

8. Hvar sér ráðherrann fyrir sér að börnum sem sætt hafa kynferðisofbeldi verði veitt áfallahjálp og sú sérhæfða meðferð sem þau þurfa ef Barnahúsið leggst af?

9. Hvar sér hæstv. ráðherra fyrir sér að foreldri og syst\-kini barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi fái áfallahjálp og ráðgjöf sem þau þurfa ef Barnahúsið leggst af?

10. Hvar sér hæstv. ráðherra fyrir sér að læknisskoðanir barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi fari fram ef Barnahúsinu verður lokað?