Skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:18:49 (3388)

1999-12-18 10:18:49# 125. lþ. 49.93 fundur 238#B skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:18]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á því að utandagskrárumræðu um þetta efni sé krafist nú, mitt í desemberönnum þingsins. Tilgangurinn er reyndar ekki fullkomlega ljós. Er verið að mótmæla því að fjármunum sé ráðstafað til að bæta aðstöðu til yfirheyrslu við dómstóla landsins? Allir flokkar eiga fulltrúa í fjárln. Þar hefur málið vitanlega engri mótstöðu mætt. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur ekki tjáð sig um málið í umræðum um fjárlög en krefst hins vegar sérstakrar utandagskrárumræðu. Með framlögum sem gera héraðsdómi Norðurlands eystra kleift að koma upp góðri aðstöðu til yfirheyrslu og skýrslutöku er verið að bæta þjónustu við börn á landsbyggðinni. Er það virkilega vilji hv. þm. að börn sem búa annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu þurfi að leggja í langt ferðalag vegna rannsókna á brotum sem beinast gegn þeim eða er tilgangurinn sá að gera athugasemdir við sjálfræði dómstólanna sem m.a. felst í forræði á málsmeðferð, svo sem um vettvang skýrslutöku? Megum við e.t.v. búast við tillögu um stjórnarskrárbreytingu sem leggur af sjálfstæði dómstólanna í framhaldinu?

Eru þeir þingmenn sem hér hafa tjáð sig að mótmæla þeim breytingum sem Alþingi gerði á lögum um meðferð opinberra mála í vor? Þau lög voru sett til þess að bæta réttarstöðu brotaþola, m.a. samkvæmt ábendingum umboðsmanns barna. Breytingarnar fólu í sér að þegar grunur leikur á því að barn hafi verð beitt kynferðislegri misnotkun ber lögreglu alltaf að leita til dómara um skýrslutöku af barninu. Þetta ákvæði tryggir m.a. að börn þurfi ekki að lýsa reynslu sinni ítrekað fyrir ýmsum yfirvöldum en það getur verið þeim afar þungbær reynsla. Staðreyndin er sú að aukin áhersla á að bæta aðstöðu til yfirheyrslu í dómstólum landsins er fagnaðarefni. Það er fagnaðarefni að börn hafi nú fengið fleiri og betri úrræði en áður. Það er jafnframt fagnaðarefni að málsmeðferð fyrir dómstólum taki í auknum mæli tillit til þarfa þeirra barna sem orðið hafa fyrir erfiðri reynslu. Við höfum stigið skref fram á við. Það er kjarni málsins.