Skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:21:09 (3389)

1999-12-18 10:21:09# 125. lþ. 49.93 fundur 238#B skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:21]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Forsvarsmenn dómstólaráðs komu til fjárln. vegna málefna héraðsdómstólanna. Eitt af þeim málum sem þeir báru upp var að bæta aðstöðu við héraðsdómstólana til yfirheyrslu. Það var þannig lagt fyrir fjárln. að bæta þyrfti aðstöðu til yfirheyrslu yfir eldri aldursflokkum brotaþola sem lentu í þeirri skelfilegu reynslu sem þarna er um að ræða.

Ég fullyrði að aðstaða brotaþola og réttindamál þeirra voru efst í huga fjárlaganefndarmanna þegar þessi fjárveiting var ákveðin. Í henni fólst engin stefnumörkun til að draga úr gildi Barnahússins. Við litum einfaldlega svo á að verið væri að bæta aðstöðu við dómstóla landsins með þessari fjárveitingu. Ég hafði síðan samband við Barnaverndarstofu og þeir sögðu mér frá tillögu þeirri sem komið var inn á áðan, að 14 ára og eldri yrðu yfirheyrðir við héraðsdómstólana. Ég endurtek það að í þessu fólst ekki stefnumörkun til að draga úr gildi Barnahússins, þvert á móti er þar unnið merkilegt starf. Ég tek undir það og vil eindregið hvetja til að hv. þm. hafi stöðu brotaþola fyrst og fremst að í huga í þessu máli og komist verði að niðurstöðu um málið sem tryggi stöðu þeirra. Það er aðalatriðið að mínu mati.