Skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:23:29 (3390)

1999-12-18 10:23:29# 125. lþ. 49.93 fundur 238#B skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er aðkallandi mál vegna þess að dómsmrh. er með gerðum sínum að gjörbreyta mikilvægri stefnu sem Alþingi var stolt af að taka. Af því að félmrh. vísaði til orða Héraðsdóms Norðurlands þá vil ég vísa til annarra orða hans, með leyfi forseta, er hann segir:

,,Hitt er svo annað mál að það eru afskaplega skiptar skoðanir meðal dómara um þessi lög, hvort það er eðlilegt að yfirheyrslur á rannsóknarstigi mála fari fram fyrir dómi sem er hrein afturför frá þróun í réttarfari undanfarinna ára.``

Herra forseti. Þetta mál er ekki byggðamál. Þegar svo alvarlegur atburður gerist þá verða bæði foreldrar og barnið að fara suður þar sem sérhæfða aðstoð er að fá. Það er alveg sama hversu góður viljinn er. Þessa sérhæfðu aðstöðu á öllum sviðum munum við aldrei geta byggt upp alls staðar á landinu. Þeir sérfræðingar sem þarna þurfa að vinna munu ekki verða á litlum stöðum til að mæta vonandi sem fæstum tilfellum í tímans rás.

Ég vil líka benda á að í beinni fréttaútsendingu í gær hafnaði dómstólaráð því að leiðbeinandi reglur væru settar, t.d. um að börn eldri en 14 ára væru yfirheyrð af dómstólum en yngri en 14 ára nytu aðbúnaðar Barnahússins. Nei, þeirra mat er að hver dómari eigi að ráða hvort rannsóknarviðtal fari til Barnahúss. Þeir ætla líka að sérhæfa sitt fólk en þjóðin er búin að mennta og sérþjálfa í Bandaríkjunum tvo sérfræðinga í þessum sérstöku yfirheyrslum. Þá á hins vegar ekki að nota lengur.

Herra forseti. Þetta er afskaplega alvarlegt mál og mér sýnist að það sé orðið að togstreitu á milli dómstóla og þeirra sem fara með barnaverndarmálin hvernig fara á með þessi litlu skinn sem hafa orðið fyrir verstu upplifun sem hægt er að hugsa sér í lífinu.