Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:35:17 (3395)

1999-12-18 10:35:17# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Með nýsettum lögum um búnaðarfræðslu var kveðið á um að menntastofnanir landbúnaðarins á Hvanneyri í Borgarfirði og Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi yrðu sérhæfðar og þeim færð aukin verkefni á sviðum bæði rannsókna og mennta. Þessar stofnanir allar sinna fjölþættu rannsókna- og menntunarstarfi fyrir íslenskan landbúnað og ört vaxandi dreifbýlisatvinnuvegi.

Skógrækt ríkisins var flutt austur á Hérað í því augnamiði að stjórnsýsla, þróun og þjónustustarf yrði þar byggt upp af myndugleik. Landgræðsla ríkisins er í Gunnarsholti og gert var ráð fyrir að starf á vegum hennar yrði byggt þar upp. Bæði við Hólaskóla og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hafa verið gerðir árangursstjórnunarsamningar sem hnykkja enn frekar á því hvaða verkefni þessar stofnanir eiga að fást við.

Á þessum menntastofnunum landbúnaðarins er unnið að margþættum vísindarannsóknum sem margar hverjar eru fremstar á sínu sviðis hérlendis og fyllilega frambærilegar á heimsmælikvarða. Ég skildi stefnu ríkisstjórnarinnar svo að hún fælist í að byggja upp og efla rannsóknir og þróunarstarf úti á landi og þekkingariðnaðinn eins og nokkur væri kostur. Hvað rannsóknastarfsemi á vegum landbúnaðarins varðar þá hélt ég að það væri ætlunin að tilfærslan færi fram á verkefnalegum grunni þannig að verkefni á vegum þessara stofnana yrðu byggð upp og hægt og bítandi og yrðu þau flutt með þeim hætti. Því skýtur skökku við þegar svar berst frá landbrn. við erindi frá sveitarfélögum frá Norðurlandi vestra um eflingu rannsókna á Norðurlandi vestra, sem hljóðar þannig herra forseti:

,,Enginn vafi er á því að æskilegt er að efla atvinnulíf á Norðurlandi vestra og ekki á því heldur að öflug rannsóknastarfsemi í þágu atvinnuveganna er eitt öflugasta tækið í þeirri eflingu. Vísindarannsóknir eru þó með þeim annmarka að til þess að marktækur árangur náist þarf helst að vera á einum stað mjög góður og fjölbreyttur tækjakostur og hópur hámenntaðra sérfræðinga. Þessu marki hefur verið stefnt að með stofnun Rannsóknastofnunar atvinnuveganna. Ekki virðist ráðlegt að brjóta þær upp og dreifa um landsbyggðina en ýmis verkefni sem þær vinna að mætti að sjálfsögðu vinna annars staðar, enda eru þess mörg dæmi svo sem tilraunareitir í Húnaþingi, silunga- og laxarannsóknir í ám sýslunnar og fleira.``

Herra forseti. Eðlilega veldur svona bréf titringi á menntastofnunum eins og háskólanum á Hvanneyri, Hólaskóla, Garðyrkjuskóla ríkisins og fleiri slíkum stofnunum úti á landi sem telja fyllilega að þær rannsóknir og vísindastörf sem þar er unnin séu virkilega samkeppnishæf við rannsóknir, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Á Reykjavíkursvæðinu er Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Tilraunastöð Skógræktarinnar á Mógilsá og Veiðimálastofnun. Verkefnum allra þessara stofnana, herra forseti, væri hægt að dreifa og koma fyrir á þessum stofnunum úti um landsbyggðina og styrkja þær og efla og ég taldi að það væri markmiðið í áföngum.

En það er ekki aðeins þetta, herra forseti. Ég hef einnig undir höndum gríðarlega mikla skýrslu sem unnin er að frumkvæði ákveðinna forstjóra hjá Rannsóknastofnun atvinnuveganna á Keldnaholti og þar er ekki endilega verið að fjalla um það hvernig mætti best flytja rannsóknastarfsemi þessara stofnana út á landi og styrkja Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Hólaskóla, Garðyrkjuskóla ríkisins eða Háskólann á Akureyri. Nei, það er verið að kanna hvernig megi ráðast hér í stórfjárfestingar til að byggja upp rannsóknastofnanir í þágu landsbyggðarinnar eins og stendur á einum stað.

Herra forseti. Við höfum leitað eftir svörum hjá ráðuneytunum um hvað þau vita af þeirri vinnu sem hér fer fram en þau hafa borið af sér nánast alla vitneskju af þessu. Því hef ég leyft mér, herra forseti, að bera fram spurningar til hæstv. landbrh.:

1. Hvernig hyggst ráðherra efla vísinda- og rannsóknastarf menntastofnana landbúnaðarins á Hvanneyri, Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi, styrkja Skógrækt ríkisins á Egilsstöðum og Landgræðsluna í Gunnarsholti?

2. Að hvaða frumkvæði og hverra var unnin skýrsla með upplýsingum fyrir væntanlega deiliskipulagsvinnu á Keldnaholti og hvað á þar að fara fram?

3. Hver er afstaða ráðherrans til yfirlýsingar ráðuneytisstjóra landbrn. þess efnis að vísindastarfi í landbúnaði sé best fyrir komið á höfuðborgarsvæðinu?