Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:40:31 (3396)

1999-12-18 10:40:31# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:40]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er sérstök ánægja fyrir mig sem landbrh. að fá tækifæri til að tala á Alþingi um málefni sem ástæða er til að vera stoltur af. Nýsamþykkt lög um búnaðarfræðslu gefa okkur öllum stórkostleg tækifæri til að vinna gagn fyrir land og þjóð. Í þeim lögum er markaður vegur framfara og sóknar í íslenskum landbúnaði. En vegurinn er ekki beinn og á honum eru hindranir. Þessi vegur hefur heldur enga endastöð. Þess vegna þurfum við auðvitað að standa vörð um þær sterku stofnanir sem hv. þm. minntist á.

Í upphafi er rétt að skoða hvernig ráðuneytið hefur haft forgöngu um að fela stofnunum sínum verkefni. Ráðuneytið gekk í að gerður var verkskiptasamningur milli menntastofnana í landbúnaði. Það var gert til að auðvelda samstarf en um leið sérhæfingu þessara stofnana. Á Hólum er nú forusta í rannsóknum er tengjast íslenska hestinum, bleikju og bleikjukynbótum og ferðaþjónustu í sveitum. Þar eru nú starfandi vísindamenn í fremstu röð og hafa verk þeirra hlotið alþjóðlegar viðurkenningar. Þar eru erlendir háskólanemar í framhaldsnámi og við skólann er rekin af myndarskap sú íslensk skóladeild sem hefur mest aðdráttarafl fyrir útlendinga.

Í Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Ölfusi hafa um langa hríð verið stundaðar rannsóknir í garðyrkju og er langt komin uppbygging nýs tilraunagróðurhúss og að sjálfsögðu mun ráðuneytið fylgja því eftir að það nýtist búgreininni til heilla. Í heimi sívaxandi samkeppni í heimsviðskiptum er nauðsynlegt að styrkja þekkingargrunninn og það verður gert.

Við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hafa verið stundaðar margvíslegar rannsóknir til styrktar íslenskum landbúnaði. Þar er rekinn myndarbúskapur sem allur nýtist í rannsóknum og kennslu. Má þar nefna af handahófi loðdýrabúið, en ég mun láta kanna það sérstaklega hvað Hvanneyri varðar. Það er mikilvægt fyrir Landbúnaðarháskólann að skólinn verði styrktur til rannsókna.

Það er ágætt að geta greint frá því hér að á milli Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur undanfarið verið unnið að samningi um aukið faglegt samstarf öllum til heilla. Það samstarf felst m.a. í sameiginlegum mannaráðningum og samstarfi í rannsóknum á milli þessara stofnana.

Þegar spurt er um rannsóknir í skógrækt og landgræðslu er ánægjulegt að geta þess að mikil gróska er í þeim rannsóknum. Í Gunnarsholti hefur á síðustu árum átt sér stað mikil uppbygging og eru ekki líkur á öðru en það starf haldi áfram. Svipaða sögu má segja af rannsóknum á Mógilsá. Ráðuneytið hefur mikinn metnað til að styðja við þessar rannsóknir áfram og mynda þannig öflugan þekkingarbrunn til handa þeim sem ætla sér þátttöku í landbótum og skógrækt á næstu öld.

Hv. þm. minntist örlítið á tvær stofnanir sem ég vil hér koma að, en gerði þeim ekki stór skil. Þar á ég við framtíðaráform og metnað landbrn. og minn fyrir hönd Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Veiðimálastofnunar. Það er vilji til þess að styrkja þessar stofnanir af hálfu landbrn. Ég upplýsi hér að sá mannauður sem saman er kominn í þessum tveimur síðastnefndu stofnunum er ómetanlegur fyrir landbúnaðinn. Þess vegna er mikill metnaður til þess að byggja þær upp.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. um Rannsóknarráð Íslands þá hefur það fyrir ríkisins hönd forræði á landsvæði á Keldnaholti. Þess vegna er skipulagsvinna sú sem þar hefur farið fram undanfarið unnin á ábyrgð þess og greidd af því. Ástæða þess að farið var í þarfagreiningu svæðisins er nauðsyn á uppbyggingu sameiginlegrar aðstöðu, svo sem lagnahúss. Allmargir aðilar voru spurðir um þarfir og áhuga á að tengjast vísindasvæðinu á Keldnaholti, þar á meðal landbúnaðarstofnanir. Þær stofnanir sem nefndar eru í því sambandi eru þrjár, þ.e. Landgræðslan, Skógræktin og Veiðimálastofnun. Landbrn. hefur ekki komið að þessu máli nema vegna Veiðimálastofnunar. Veiðimálastofnun flytur fljótlega úr því húsnæði sem hún er nú í og þá verða kostir þess að byggja upp á Keldnaholti bornir saman við aðra möguleika sem vissulega eru á borðinu. Vegna þessa vil ég segja að ég tel vel að þessu staðið og er sjálfsagt að þessi greining fari fram. En það þarf auðvitað að vinna úr þessu.

Hvað bréf ráðuneytisstjórans varðar sem hér var minnst á, þá finnst mér ástæðulaust að snúa út úr því bréfi. Ráðuneytisstjórinn er þar fyrst og fremst að minnast á þær atvinnumálastofnanir sem eru á Keldnaholti. En ég er sannfærður um að ráðuneytisstjórinn styður eins og við í landbrn. að styrkja þær stofnanir sem hér hefur verið minnst á og auðvitað í rólegheitum að huga að flutningi á ýmsum verkefnum.