Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:46:10 (3397)

1999-12-18 10:46:10# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:46]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er í raun verið að ræða mál sem er aðeins hluti af mun stærra máli. Það liggur ljóst fyrir í þeirri skýrslu sem nokkrir hv. þm. hafa undir höndum að verið er að leggja grunn að því að reisa húsnæði sem mun þekja um 3,5 hektara á Keldnaholti. Rætt er um 17 stofnanir, nokkrar undir landbrn. en einnig undir mun fleiri ráðuneytum.

Ljóst er að heimildir virðast a.m.k. vera af skornum skammti til að fara út í þessar framkvæmdir. Á fundum fjárln. var upplýst að ýmis fagráðuneyti könnuðust ekki við málið. Jafnvel er verið að ræða um það að þarna eigi sér stað flutningur stofnana sem eru nú staðsettar úti á landi.

Það er líka umhugsunarefni í því ástandi, sem er nú í efnahagsmálum og þeirri miklu þenslu sem nú er á höfuðborgarsvæðinu, að unnið sé að því af opinberum aðilum að hella þar olíu á elda.

Nauðsynlegt er að vitna til þess bréfs sem hv. þm. Jón Bjarnason minntist á frá ráðuneytisstjóranum, Birni Sigurbjörnssyni. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Vísindarannsóknir eru þó með þeim annmarka að til þess að marktækur árangur náist þarf helst að vera á einum stað mjög góður og fjölbreyttur tækjakostur og hópur hámenntaðra sérfræðinga.``

Hér virðist mér, herra forseti, vera talað tæpitungulaust. Mér sýnist, herra forseti, að þessi setning úr bréfi ráðuneytisstjórans sé í algjörri andstöðu við samþykkta þáltill. í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 þar sem einmitt er rætt um það að dreifa slíkum rannsóknum um landið og efla þær.

Herra forseti. Ég spyr: Hver er stefna hæstv. landbrh. og hver er stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum?