Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:50:44 (3399)

1999-12-18 10:50:44# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka upp þetta mál. Ekki er von að það gangi vel að dreifa starfsemi og stofnunum um landið ef ekki einu sinni starfsemi tengd landbúnaði getur farið fram utan höfuðborgarsvæðisins. Auðvitað er afstaða eins og kom fram í áður tilvitnuðu bréfi ráðuneytisstjóra landbúnaðarins með ólíkindum.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, herra forseti, að það væri kjörið tækifæri til þess og sérstaklega í landbúnaði að færa þessa starfsemi út til þeirra eininga sem eru starfandi á landsbyggðinni, sérstaklega háskólans á Hvanneyri og Hólaskóla, Garðyrkjuskólans í Hveragerði og það sama á reyndar líka við um höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum og Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Auðvitað ber að stefna að því, herra forseti, að láta eitthvað gerast í þessum efnum. Hugmyndir af því tagi að þjappa starfseminni saman í stórbyggingu á Keldnaholtinu, sem ganga í þveröfuga átt, væru hrein uppgjöf gagnvart öllu því sem menn hafa verið að ræða um að reyna að dreifa þarna verkefnum og störfum. Hæstv. ráðherra verður að gera betur en að halda þjóðhátíðarræður í þeim stíl sem hann gerði áðan. Ef ekkert gerist og húskarlar hæstv. ráðherra sniglast í öfuga átt er ekki von á góðu.

Það sagði við mig hámenntaður doktor, herra forseti, sem flutti norður til Akureyrar og hóf þar störf fyrir nokkru eftir nokkurra ára kennslu í amerískum háskólum að hann gerði engan greinarmun á því á grundvelli nútímatækni hvort hann flytti til Reykjavíkur, Akureyrar eða þess vegna Kópaskers. Hann hefði undrað sig á þeim heimóttarskap íslenskra vísindamanna sem hann hefði rekið sig á þegar hann kom heim eftir kennslu í nokkrum af stærstu háskólum Ameríku að það væri eitthvert vandamál að stunda vísindi sín eða vera í samskiptum við alþjóðlega vísindasamfélagið hvort menn byggju á Akureyri, Reykjavík eða á Kópaskeri. Því miður, herra forseti, er einhver landlægur ósiður í gangi í vísindasamfélaginu að ekki sé hægt að hugsa rökréttar hugsanir ef menn eru komnir eitthvað að ráði upp fyrir Ártúnsbrekku.