Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:58:51 (3403)

1999-12-18 10:58:51# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:58]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Eins og kom fram í ræðu síðasta þingmanns er algerlega óviðunandi að unnið sé að stórfelldri uppbyggingu á Keldnaholti og að ráðagerðir séu uppi um uppbyggingu án þess að það komi nokkurs staðar fram, það sé verið að vinna þetta bak við tjöldin. Það er óþolandi að koma að slíku eftir á þegar allt er frágengið fyrir hv. Alþingi sem á þá að greiða það sem pakkinn kostar. Og eins og bent var á er þetta algjörlega gegn pólitískri yfirlýsingu núv. ríkisstjórnar.

Verkefni RALA eru mörg og þau geta mörg hver hæglega farið út um land og hefðu átt að vera farin út um land. Það á að styrkja háskólana sem eru þegar starfandi, búnaðarháskólana og Háskólann á Akureyri. Það á að koma upp virku háskólanámi á Austurlandi og styrkja Skógrækt ríkisins til að stunda rannsóknir. Það þýðir lítið að fara í greiningu, vinna að skýrslum, gera úttektir, marka sér stefnu varðandi fjarvinnslu og ætla að byggja upp atvinnu á landsbyggðinni með fjarvinnslu þar sem grunnurinn að þeim störfum eru rannsóknir, ekki eingöngu þjónustustörf. Það eru rannsóknir og rannsóknirnar á að gera á þeim stöðum þar sem verkefnin eru og verkefnin eru út um allt land og ekki hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef þetta er framtíðin verður að fara að byggja undir þessa framtíð.