Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 11:00:51 (3404)

1999-12-18 11:00:51# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[11:00]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að vekja máls á þessu máli og þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Við eigum að sjálfsögðu að kappkosta að dreifa rannsóknum í landbúnaði um allt land í þær stofnanir sem þar eru. Ég nefni Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði. Við bárum gæfu til þess í síðustu fjárlagagerð að veita 10 millj. til uppbyggingar þar á gróðurhúsi sem verður miðstöð rannsókna varðandi ylrækt í landinu. Ég nefni stofnanir eins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Bændaskólann á Hólum. Allt eru þetta myndarlegar stofnanir sem ber að styrkja.

Fyrir nokkrum árum bárum við gæfu til þess að færa Skógrækt ríkisins á Egilsstaði og um margt hefur þar mjög vel til tekist. Að vísu á Skógrækt ríkisins í miklum fjárhagslegum örðugleikum. Það kemur í raun og veru ekkert við staðsetningu þeirrar stofnunar.

Landgræðsla ríkisins í Gunnarsholti er mjög myndarleg ríkisrekin stofnun. Þar fer fram afar fjölbreytt vísindastarf og í raun má segja að Landgræðsla ríkisins sé alltaf skrefinu á undan. Svo er fyrir að þakka mjög traustum stjórnanda þeirrar stofnunar.

Ég sé fyrir mér að í framtíðinni geti t.d. í Gunnarsholti verið alþjóðlegt rannsóknasetur varðandi landgræðslu, uppgræðslu, eldfjallarannsóknir og jafnvel ferðaþjónustu. Það kom fram í umræðunni að stofnanir eins og Veiðimálastofnun eiga að sjálfsögðu að vera staðsettar úti á landsbyggðinni. Þó að litlir vísar séu t.d. á Selfossi og Borgarnesi þá á sú stofnun að vera staðsett úti á landsbyggðinni.

Veiðimálastofnun sótti um fjárveitingu fyrir einu ári til þess að byggja upp í Reykjavík en við í fjárln. neituðum um þá fjárfestingu. Ég tek undir að það er pólitískt galið að byggja upp mörg þúsund fermetra rannsóknasetur á Keldnaholti. Við eigum að færa þessa starfsemi út á landsbyggðina.