Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 12:49:06 (3419)

1999-12-18 12:49:06# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[12:49]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta iðnn. á þskj. 371 vegna þáltill. hæstv. iðnrh. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun á þskj. 216.

Meginniðurstaða meiri hluta hv. iðnn. er sú að meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram komu á fundum hennar, að ætíð verði að líta á manninn sem hluta af náttúrunni og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Það er meginniðurstaða meiri hluta hv. iðnn. og mun ég draga fram meginrökin síðar í ræðu minni.

Ég vil þó áður, herra forseti, víkja að tveimur þáttum. Annars vegar starfi hv. iðnn. og vil ég þá fyrst nefna að strax á haustdögum, í september, hélt nefndin ásamt hv. umhvn. austur á land til þess að skoða málið í tengslum við þáltill. sem var þá ljóst að berast mundi inn á þingið. Í fylgd með báðum hv. nefndunum voru það sem kalla má færustu sérfræðinga á þessu sviði og jafnframt helstu hagsmunaaðilar. Segja má að þetta hafi verið semínar fyrir tvær þingnefndir og afskaplega góður grunnur að því starfi sem fram undan var. Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að sérhver nefndarmanna hv. iðnn. og hv. umhvn. hefur lagt gífurlega mikla vinnu í þetta mál síðan. Málið hefur verið til formlegrar og óformlegrar vinnslu síðan í september.

Hv. iðnn. tók þá ákvörðun strax þegar málinu var formlega vísað til hennar að taka einn þáttinn af nokkrum og vísa til hv. umhvn., nefnilega þáttinn sem lýtur að náttúrufari. Hv. umhvn. skilaði síðan tveimur minnihlutaálitum og umsögn 3. minni hluta hv. umhvn. Til að gera langa sögu stutta gerir meiri hluti hv. iðnn. álit 1. minni hluta að áliti sínu, tekur undir það og vísar til þess í nál. sínu.

Ég vil nota þetta tækifæri fyrir hönd hv. iðnn. að þakka nefndarmönnum í hv. umhvn. fyrir afskaplega vel unnið starf. Þá er rétt að vekja athygli á því að fjölmargar athugasemdir bárust á heimasíðu iðnn., hátt í tvö hundruð umsagnir. Eins og vænta mátti voru skoðanir skiptar í þeim umsögnum. Fjölmargir gestir, þeir skiptu tugum, komu á fund nefndarinnar, eins og gengur og gerist í viðamiklu starfi þingnefnda, og kynntu sjónarmið sín. Er þá ógetið, herra forseti, fjölda einstaklinga og samtaka sem hafa persónulega haft samband við einstaka þingmenn hv. iðnn. eða þá í gegnum tölvupóst til einstakra hv. þingmanna.

Í annan stað, áður en ég vík að röksemdum fyrir meirihlutaáliti hv. iðnn. vil ég gera að umtalsefni nýlegan úrskurð skipulagsstjóra ríkisins vegna umhverfismats álvers í Reyðarfirði. Áður vil ég þó taka mjög skýrt fram, herra forseti, að þar er um tvö aðskilin mál að ræða, annars vegar álver í Reyðarfirði og hins vegar Fljótsdalsvirkjun. Þetta eru tvö sjálfstæð mál þó auðvitað séu tengsl þar á milli. Þar sem úrskurður skipulagsstjóra vegna álvers í Reyðarfirði hefur blandast inn í umræðuna vil ég fara nokkrum orðum um þann úrskurð. Rétt til upprifjunar ber að hafa í huga að hlutverk skipulagsstjóra við mat á umhverfisáhrifum er að fara yfir ólíkar og breiðar forsendur slíkra málum. Það lýtur ekki eingöngu að mengunarmálum heldur að öllum þáttum málsins, þar á meðal samfélagsþáttum málsins. Hins vegar er svo um að ræða starfsleyfi fyrir starfsemi eins og álver sem veitt er af Hollustuvernd ríkisins. Hlutverk Hollustuverndar er að safna gögnum frá framkvæmdaraðila og sérfræðingum og leggja mat á hvort skilyrði, einkum vegna mengunarþátta, séu uppfyllt.

Þekkt er, herra forseti, og reynslan sýnir að skipulagsstjóri hefur, og það eru fordæmi fyrir því, vísað, einkum mengunarþættinum, yfir til starfsleyfis og kallað þar eftir frekari upplýsingum enda er það í sjálfu sér ekki órökrétt þar sem Hollustuvernd er sérfræðistofnun stjórnsýsluvaldsins til þess að skoða tiltekna þætti, þ.e. mengun. Stjórnsýslan hefur full tök á málinu meðan það er undir opinberri stjórnsýslustofnun. Í úrskurði skipulagsstjóra var þessum þáttum hins vegar ekki vísað til Hollustuverndar heldur aftur heim í hérað, ef svo má segja. Úrskurður skipulagsstjóra byggir á 13 atriðum. Herra forseti, 8--9 af þeim atriðum má telja að heyri undir Hollustuvernd og hefði að mörgu leyti verið eðlilegt að skipulagsstjóri vísaði þeim yfir til Hollustuverndar en ekki aftur heim í hérað enda eru fordæmi fyrir því, m.a. voru starfshættir þannig þegar Norðurálsstarfsleyfið var afgreitt. Ég ítreka að Hollustuvernd hefur tök á málinu og gefur ekki út starfsleyfi fyrr en að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Það hlýtur, herra forseti, að vekja spurningar hvers vegna málinu var ekki vísað yfir til Hollustuverndar eins og áður hefur verið gert. Þá hlýtur í annan stað, herra forseti, að vekja spurningar að skipulagsstjóri skuli hafa vísað málinu öllu til framkvæmdaraðila og m.a., eins og segir á bls. 56 í úrskurðarskýrslu skipulagsstjóra, að skipulagsstjóri hafi viljað skoða málið hvað varðar álver í Reyðarfirði, í þrepum en ekki einungis að líta á þetta sem 480 þús. tonna álver. Á bls. 56 í skýrslunni segir, herra forseti, að á það sjónarmið hafi ekki verið fallist.

Herra forseti. Þetta er mjög vafasöm og hæpin fullyrðing með hliðsjón af því að í bréfi frá framkvæmdaraðila, undirrituðu af framkvæmdastjóranum Guðmundi Bjarnasyni, er farið sérstaklega fram á mat á áfangaskiptu álveri. Þar er þess getið að framtíðaráætlanir til lengri tíma litið snúist um 480 þús. tonna álver en megnið af bréfi framkvæmdastjóra snýst um 120 þús. tonna álver. Jafnframt kemur fram að formaður samráðshópsins hafi á fundi með skipulagsstjóra borið þau boð frá framkvæmdaraðila að óskað væri eftir mati á 120 þús. tonna álveri sérstaklega en síðar, ef og þegar ákvörðun lægi fyrir um 2. og 3. áfanga, yrði það mat gert sérstaklega.

Það hlýtur að vekja upp spurningar, herra forseti, þegar því er haldið fram í skýrslu mikilvægs embættismanns að framkvæmdaraðilar hafi í raun ekki fallist á það sem þeir eru að fara fram á. Ég tek það mjög alvarlega því á fund hv. iðnn. kom skipulagsstjóri til þess að fjalla sérstaklega um þennan úrskurð. Hv. nefndarmenn spurðu sérstaklega um hvort ekki hefði komið til greina m.a. að vísa mengunarþættinum yfir til starfsleyfisins hjá Hollustuvernd. Því var í raun svarað neitandi þrátt fyrir þá staðreynd að skipulagsstjóri í sendi bréf í lok nóvember til Hollustuverndar og óskaði eftir frekari gögnum varðandi útgáfu starfsleyfis.

Ég tek það alvarlega, herra forseti, þegar embættismaður leynir nefndarmenn upplýsingum og ég endurtek: leynir upplýsingum fyrir nefndarmönnum. Það liggur fyrir --- mér tókst að útvega það eftir þennan fund --- að Hollustuvernd svarar svarar bréfi Skipulagsstofnunar frá 18. nóv. 1999 þar sem Skipulagsstofnun, herra forseti, óskar eftir frekari umsögn Hollustuverndar ríkisins um 1. áfanga álvers í Reyðarfirði. Það bréf er dags. 18. nóv. 1999.

[13:00]

Í svarbréfi Hollustuverndar, dags. 6. desember 1999, er niðurstaðan þessi, herra forseti:

,,Hollustuvernd ríkisins telur í ljósi fyrirliggjandi gagna unnt að hefja vinnu við gerð starfsleyfis þegar fullnægjandi umsókn liggur fyrir, og leggst ekki gegn því að heimilaðar verði framkvæmdir við 120.000 tonn/ár álver við Reyðarfjörð með ákveðnum skilyrðum:`` (Gripið fram í: Hvenær er það dagsett?) Það er dagsett, hv. þm., 6. desember 1999.

Herra forseti. Ég vil draga þetta fram, alveg óháð því í rauninni hvert málið er, vegna þess að það hlýtur að teljast grafalvarlegt þegar embættismaður, kallaður til þingnefndar til að veita upplýsingar um mál og er spurður sérstaklega um þessa þætti leynir þessum upplýsingum. Þær komu ekki fram þó að um þetta væri rætt sérstaklega á fundi hv. þingnefndar. (Gripið fram í: Af hverju kallaði nefndin ekki ...?) Það er mjög alvarlegt mál, herra forseti. Ég ítreka það og vildi draga þetta fram vegna þess að þessi úrskurður hefur nokkuð verið dreginn inn í umræðuna en ítreka það sem ég sagði í byrjun að hér er um tvö sjálfstæð mál að ræða. Annars vegar álverið í Reyðarfirði og hins vegar Fljótsdalsvirkjun.

En nú mun ég, herra forseti, freista þess að færa rök fyrir því nál. sem hér var vísað til og er meginrökstuðningur meiri hluta hv. iðnn. fyrir þeirri niðurstöðu sem komist er að í meirihlutaálitinu.

Ég vil þá fyrst segja, herra forseti, að forsenda fyrir skoðun og niðurstöðu okkar er sú að leyfi er til staðar, Landsvirkjun hefur leyfið lögum samkvæmt, með lögum frá 1981, og þar að auki með starfsleyfi útgefnu af þáv. iðnrh. árið 1991. Þar að auki má segja að vilji stjórnvaldsins hafi verið staðfestur með starfsleyfi til Landsvirkjunar með útgáfu starfsleyfis fyrir Fljótsdalslínu 1 árið 1994 og eru ekki nema rúm fimm ár síðan. Þetta er fyrsta forsendan og hvað varðar lagaákvæði telur meiri hluti hv. iðnn. eins og 1. minni hluti hv. umhvn. að lagaforsendur séu til staðar.

Í annan stað hvað varðar forsendur liggur fyrir að innlendir fjárfestar og Norsk Hydro hafa óskað eftir því að fá að reisa álver í Reyðarfirði eftir þeirri tímaáætlun sem kynnt hefur verið og til þess þurfa þeir að fá afhenta orku ekki síðar en árið 2003. Það er forsenda þeirra samningaviðræðna. Í svari frá orkumálastjóra kemur fram að eina leiðin til þess að afhenda orku á þeim tímapunkti er að halda áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun. Það er eina leiðin.

Í þriðja lagi í forsendum okkar vil ég nefna að Landsvirkjun kaupir réttinn til virkjana fyrir 1,5 milljarða árið 1982 og hefur síðan fjárfest fyrir 1,5 milljarða í ýmsum rannsóknum og framkvæmdum í kringum Fljótsdalsvirkjun og nágrenni hennar.

Herra forseti. Forsendur fyrir niðurstöðum okkar snúast um fimm þætti og mun ég nú reyna að hlaupa yfir þá. Í fyrsta lagi snýst þetta um efnahagsleg rök. Rétt er að hafa í huga að til allrar hamingju hefur ríkt hér bjartsýni í atvinnulífinu allt frá því 1995 eftir langt kyrrstöðutímabil þar sem stöðnum var í efnahagslífi okkar, atvinnuleysisstigið var hátt og almenn svartsýni í atvinnu- og efnahagslífi okkar. Til allrar hamingju hefur orðið viðsnúningur hvað þetta varðar. Það er líka, herra forseti, eitt af meginmarkmiðum hæstv. ríkisstjórnar að reyna að draga úr þeim reglulegu sveiflum sem komið hafa í efnahagslífi okkar og eiga fyrst og fremst rætur í tiltölulega fábreyttu atvinnulífi. Sveiflur í efnahagslífi hafa gjarnan fylgt sveiflum m.a. í fiskstofnum. Eina leiðin til þess að draga úr slíkum sveiflum, herra forseti, er að auka fjölbreytni í atvinnulífi og einn þeirra þátta er að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar.

Rétt er að taka fram að eftir eitt til tvö ár mun draga úr þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi og þeim fjárfestingum sem lagt hefur verið í á síðustu árum. Að óbreyttu mun þá skapast hér niðursveifla með venjulegum afleiðingum, svo sem atvinnuleysi og samdrætti á flestum sviðum. Það eru ein rökin fyrir þeirri niðurstöðu sem meiri hluti hv. iðnn. hefur komist að. Það er líka rétt að benda á það, herra forseti, eins og fram hefur komið, m.a. hjá Þjóðhagsstofnun, að með virkjuninni og þeim framkvæmdum sem henni fylgja má búast við verulegum breytingum í efnahagslífi okkar, m.a. allt að 1,2% aukningu í varanlegri þjóðarframleiðslu. Það skiptir gífurlega miklu máli fyrir efnahagslíf einnar þjóðar.

Þá er líka vert að benda á það, herra forseti, að margfeldiáhrif af stóriðju, bæði virkjun og síðan tilheyrandi álveri eru gífurlega mikil. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að nefna örfá dæmi. Einungis í samstarfi við Ísal hafa sprottið upp minni fyrirtæki þar sem íslenskt mannvit hefur verið notað. Ég nefni t.d. ALTECH, fyrirtæki Jóns Hjaltalíns Magnússonar, sem hefur verið að selja kragaásetningarvélar fyrir álver til Noregs og búnað til þriggja annarra landa í álverum; málmsteypuna Hellu sem stendur í miklum útflutningi á skautlásum til álvera í Noregi og víðar; málmsteypu Jóns Þorgrímssonar; Kerfóðrun sem endurfóðrar ker fyrir álver í Sviss og hefur verið að vinna úr fyrirspurnum; verkefni raunvísindadeildar Háskóla Íslands sem hefur verið í þróunarverkefni með háskólanum í Nottingham í Bretlandi sem er m.a. kostað af enskum álframleiðanda; Stími sem hefur verið að vinna og framleiða skynjara fyrir steypurennur og selt til Ísals og fengið fyrirspurnir frá Bahrain, Kanada, Þýskalandi og Frakklandi; verkfræðistofu Hafliða Loftssonar sem hefur verið að þróa og framleiða stjórnkerfi fyrir álhæðaskynjara. Þannig má, herra forseti, áfram telja. Ég vil draga þetta fram vegna þess að þetta sýnir svo augljós margfeldiáhrif af álveri og stóriðju og eru þá ónefnd ýmis önnur störf sem varða t.d. verslun, hárskera og iðnaðarmenn á ýmsum sviðum. Þannig má áfram telja. Þetta eru hin efnahagslegu rök og má að lokum benda á þau jákvæðu áhrif sem Norðurál og stóriðja við Grundartanga hafa haft á Akranesi og næsta nágrenni. Svipuð er reynslan í Noregi. Þetta eru hin efnahagslegu rök.

Herra forseti. Í annan stað vil ég nefna byggðarleg rök. Stóriðja er liður í byggðaáætlun okkar Íslendinga. Það kemur fram, herra forseti, hjá fulltrúum Byggðastofnunar að stóriðja hefur verið á stefnuskrá Byggðastofnunar um lengri tíma. Þess vegna mælist Byggðastofnun, sem er sérfræðistofnun stjórnvaldsins á Íslandi í byggðamálum, mjög afdráttarlaust með því að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun haldi áfram og álver rísi á Reyðarfirði.

Það kom jafnframt fram, herra forseti, hjá fulltrúa Byggðastofnunar að infrastrúktúr byggðar á Miðausturlandi er kominn niður undir hættumörk vegna stöðugs fólksflótta þaðan að undanförnu og telja að grípa þurfi strax til alvarlegra og harðra aðgerða til að snúa þeirri þróun við. (Gripið fram í: Er þetta leiðin?) Þetta er leiðin, hv. þm., sem m.a. Byggðastofnun bendir á, sérfræðingur í byggðaþróun. Hér er spurt hvort þetta sé leiðin. Þetta virðist vera eina raunhæfa leiðin að mati Byggðastofnunar. Menn hafa velt upp ýmsu öðru og m.a. gefið í skyn að lítið hafi verið reynt á Austfjörðum.

Herra forseti. Vitað er og það kom fram hjá nefndinni og hefur margsinnis komið fram í umræðum að til margra aðgerða hefur verið gripið en þær, herra forseti, hafa illu heilli ekki dugað. Því er í rauninni verið að hefja lífróður fyrir áframhaldandi byggð á Miðausturlandi. Rétt er að benda á, og það skiptir auðvitað máli, herra forseti, þegar stór hluti Austfirðinga og allar sveitarstjórnir á Austurlandi hvetja hv. alþingismenn til að samþykkja tillöguna vegna þess að það er mat heimamanna að þetta sé eina raunhæfa aðgerðin til að snúa þessari byggðaþróun við, til að efla aftur byggð og mannlíf á Austfjörðum.

Rétt er að benda á að um hvert starf sem losnaði hjá Norðuráli sóttu 10 einstaklingar. Hins vegar er rétt að benda á það líka, herra forseti, að þetta er ekki eingöngu mál Austfirðinga. Það er þjóðhagslega mikilvægt fyrir okkur að halda uppi byggð um landið. Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt að byggð verði meira og minna öll á sömu þúfunni og fyrir því hafa margsinnis verið færð rök, m.a. í umræðum á hv. Alþingi. Þetta voru sem sé, herra forseti, byggðarökin sem hv. iðnn. færir fyrir niðurstöðu sinni.

Í þriðja lagi vil ég nefna náttúrufarsþáttinn. Enginn gengur þess dulinn að með þeirri virkjun sem hér er til umræðu, herra forseti, eða öðrum virkjunum sem risið hafa hér á landi er verið að ganga á náttúruna. Enginn gengur þess dulinn. En spurningin er alltaf sú, hvað við erum tilbúin að færa miklar fórnir vegna þarfa mannfólksins, vegna þegna landsins? Þar er auðvitað vandinn sá að vega meiri hagsmuni fyrir minni og að finna þá mikilvægu meðalhófsreglu sem kann að vera einhvers staðar til. Í þessu sambandi hlýtur að vera dregið fram að í tvígang hefur Náttúruverndarráð, bæði 1981 og 1991, samþykkt að Eyjabökkum væri í rauninni fórnandi, m.a. var það liður í samkomulagi til þess að halda Þjórsárverum óspjölluðum ef þannig má að orði kveða. Þetta gerðist í tvígang. Vísindalegar forsendur hafa ekkert breyst frá því 1991, herra forseti. Það hafa verið stundaðar gífurlega miklar rannsóknir á Eyjabakkasvæðinu. Endalaust má deila um hvort þær rannsóknir eru nægar og endalaust má bæta við og nægir í því sambandi, herra forseti, að vísa til rannsóknanna á Mývatni sem hafa verið stundaðar í áratugi en auðvitað aldrei nægar. En einhvern tíma kemur að því, herra forseti, að taka þarf ákvörðun: hingað og ekki lengra. Það er í rauninni það sem hv. alþingismenn standa frammi fyrir núna.

Ég vil aðeins nefna örfá atriði, m.a. svokallaða hrauka sem eru einstakt náttúrufyrirbrigði og mjög vafasamt að til séu alveg sambærileg náttúrufyrirbrigði þó bent hafi verið m.a. á svipað jarðfræðifyrirbrigði við Brúarjökul þó að það sé í umhverfi sínu ekki að öllu leyti það sama því ekki er votlendisgróður umhverfis hraukana hjá Brúarjökli. En það er alveg ljóst að hraukum verður fórnað.

[13:15]

Hér í umræðunni hefur verið nefnd hætta á foki þegar dregur úr lóninu, sérstaklega á vorin og á sumrin þegar vatnshæð virkjunarlónsins er lítil og menn hafa dregið upp mjög dökka mynd af fokhættunni. Á það hefur hins vegar verið bent, herra forseti, og er nauðsynlegt að það komi fram, að í verstu vatnsárum er fokhættan jafnvel minni en hún er í dag. Í dag er töluvert fok af Eyjabökkum, einkum á haustin, en með lóninu færist rofstaðurinn til sem fokhætta mun stafa af og verður á verstu vatnstímum í rauninni minni en hún er í dag. Þetta er rétt að draga fram en þar að auki að benda á að frost fer ekki úr jörðu að öllu jöfnu við Eyjabakka fyrr en komið er fram í júlí og er lónið tiltölulega fljótt að fyllast eftir það.

Engar plöntur eru á válista. 1% af álftastofni landsins verpir við Eyjabakka og er auðvitað þar af leiðandi ekki í hættu. Hvað varðar heiðagæsir hafa menn lýst ótta sínum, og er eðlilegt að lýsa honum, um að heiðagæsir, þ.e. geldgæsir sem eru í sárum við Eyjabakka vegna þess að þar hafa þær skjól og næringu, muni hverfa. Þá er rétt að benda á, herra forseti, að þetta eru geldgæsir. Þarna er ekki um varpstað gæsarinnar að ræða. Jafnframt hefur verið bent á að 1979 voru u.þ.b. 2.000 heiðagæsir, geldfuglar, við Eyjabakka, fóru síðan upp í 13.000 og hafa haldið sig í um 8.000 síðan. En í sumar sáust u.þ.b. 2.000 heiðagæsir á Blöndulóni, manngerðu uppistöðulóni við Blöndu. Af því hljóta menn að geta dregið einhverjar ályktanir.

Komið hefur fram að hreindýrastofninn þar er ekki talinn í hættu, sérstaklega ef haft er í huga að aðveituskurðir sem voru upphaflega á teikniborðinu hafa horfið og aðveitan er núna í gegnum jarðgöng þannig að hreindýrin eiga mun greiðari aðgang um svæðið en áður var. Á hitt hefur svo verið bent, herra forseti, og skal engin dul dregin á, að fegurð Eyjabakkasvæðisins er mikil. Þarna er náttúrulegt víðerni sem er gífurlega mikils virði og á það verður ekki dregin nein dul. En þetta má lengi teygja og toga og nægir að benda á, herra forseti, könnun sem gerð var meðal erlendra ferðamanna sem fóru um Þjórsár- og Tungnaársvæðið fyrir þremur árum. Ef ég man rétt var úrtakið hátt í tvö þúsund manns og voru þeir spurðir hvernig þeir upplifðu Þjórsár- og Tungnaársvæðið með tilliti til víðernis og ósnortinnar náttúru. Svarið er athyglisvert, herra forseti, eða niðurstöður úr þeirri könnun, því að fæstir þeirra telja að mannvirkin þar hafi verið að þvælast fyrir þeim. Þeir telja sig upplifa svæðið sem ósnortna víðáttu. Ef menn hafa í huga erlenda ferðamenn frá erlendum stórborgum sem hingað koma þá er þar mikill munur á, að vera í miðju erlendra stórborga eða að þvælast um Þjórsár- og Tungnaársvæðið þrátt fyrir þau mannvirki sem þar eru, aukinheldur sem mannvirkin hafa orðið til þess að ferðamenn eiga greiðari aðgang um það. Jafnframt bendi ég á, herra forseti, að í sömu könnun töldu hinir erlendu ferðamenn tvennt vera til baga. Það var annars vegar mikill ágangur ferðamanna og hins vegar íslenska veðrið og við það fáum við sennilega seint ráðið.

Herra forseti. Í fjórða lagi vil ég nefna öryggisatriði og fram hjá þeim verður ekki litið. Við höfum öll orðið vör við fréttir af ólgu bæði í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli að undanförnu og meginþorri af raforkuframleiðslu okkar Íslendinga fer fram á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu sem er í örskotsfjarlægð frá Eyjafjalla- og Mýrdalsjökli. Við þurfum ekki mikið hugmyndaflug til að sjá hvað gerist við eldgos og þarf ekki annað en öskugos til þess að lama raforkuframleiðslu landsmanna á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Jafnháð og við erum, bæði í einkalífi og efnahagslífi okkar, raforku þá hygg ég að hér yrði mikið neyðarástand ef slíkt gerðist. Því hefur verið haldið fram og bent á að um 40% af nýtanlegu vatnsafli þjóðarinnar sé fyrir norðan Vatnajökul og það er þess vegna með öryggissjónarmið í huga mjög mikilvægt að líta til þess svæðis til að efnahagslíf og einkalíf okkar sé ekki of háð raforkuframleiðslu á einum og sama staðnum. (Gripið fram í: Ekki hjónalífið?) Hjá sumum kann það að vera, hv. þm.

Í fimmta lagi nefni ég það sem við höfum nefnt siðferðilegar og alþjóðlegar skyldur okkar, þ.e. að hleypa erlendum aðilum að vistvænum orkugjöfum okkar. Mér þykir miður, herra forseti, að á stundum í umræðunni er tiltölulega lítið gert með þann siðferðilega þátt að hleypa erlendum aðilum að þeim endurnýjanlegu orkugjöfum sem við eigum hér. Hreinasta orka sem hægt er að fá til raforkuframleiðslu er vatnsorkan og væntanlega kemur gufuorkan þar á eftir. Þá er rétt að hafa í huga, herra forseti, að frá 1990 hafa rúmlega 80% allrar uppbyggingar og endurnýjunar álvera í heiminum átt sér stað utan OECD-landanna, þ.e. frá árinu 1990 sem eru viðmiðunarmörk í Kyoto-bókuninni. Hvert hafa þau álver sem hafa verið byggð frá því 1990 verið flutt, herra forseti? Þau hafa verið flutt til landa sem bjóða upp á kol og olíu sem orkugjafa, mengandi orkugjafa.

Ég efa það ekki að allir sem um þetta mál fjalla séu miklir umhverfissinnar og láti sér umhugað um mengunarvarnir. Mengunarmál, sérstaklega losun gróðurhúsalofttegunda, er aldrei hægt að skoða öðruvísi en í hnattrænu samhengi. Við getum ekki horft á útblástur gróðurhúsalofttegunda sem staðbundna mengun. Við skynjum það og við vitum það og vísindin hafa sýnt það að áhrif útblásturs gróðurhúsalofttegunda hefur jafnvel áhrif á veðurfar út um allan heim. Íslendingar upplifa þetta í langvarandi sunnanáttum þegar iðnaðarpestin frá Evrópu berst hingað norður til hreina Íslands.

Jakob Björnsson, fyrrv. orkumálastjóri, hefur skrifað afskaplega athygliverða grein og ég hvet alla hv. þingmenn til þess að lesa grein hans á heimasíðu iðnn. Hann hefur m.a. bent á rök fyrir því að með því að vísa fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði frá Íslandi og til Ástralíu t.d. eða Mósambík þar sem þessa dagana eru álver í uppbyggingu með kol og olíu sem verðandi orkugjafa, hafna uppbyggingu álvers á Íslandi og vísa því til kola- og olíuframleiðslu mundi útblástur gróðurhúsalofttegunda í heiminum aukast sem nemur sama magni og svarar til 15% minnkunar á heildarútblæstri okkar Íslendinga. Þetta finnst mér mikilvægt að hafa í huga. Það nemur 15% af heildarútblæstri okkar Íslendinga ef við vísum þessu frá og látum kol og olíu taka við.

Herra forseti. Ég vil jafnframt vekja athygli á því að mengun af bílum sem meginsamgöngutækum okkar hér á Íslandi mun miðað við áætlanir verða rétt eftir aldamótin meiri en af stóriðju. Annar mjög stór mengunarvaldur hvað varðar gróðurhúsalofttegundir er svo fiskiskipaflotinn. Þar eru syndir okkar mestar og ég tel að sú orka sem hefur farið í umræðuna um Fljótsdalsvirkjun hefði að mörgu leyti betur verið komin í umræðu um að draga úr mengun af völdum bíla sem er meiri en frá stóriðjunni samkvæmt öllum áætlunum og síðan fiskiskipaflotanum.

Þessir fimm þættir eru meginkaflarnir í rökum og forsendum hv. iðnn. fyrir niðurstöðu sinni. Ég vil aðeins stikla á örfáum atriðum til viðbótar. Ég hef þegar nefnt að meiri hluti hv. iðnn. telur að lagaforsendur séu til staðar, einkum út frá þeirri meginreglu í íslenskri stjórnsýslu að lög eru ekki afturvirk og vona ég að seint verði sá siður tekinn upp með tilheyrandi óvissu sem fylgdi því.

Lögformlegt umhverfismat hefur gjarnan verið nefnt hér. Þá er rétt að benda á, herra forseti, að 1994 er gefið út starfsleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun án lögformlegs umhverfismats. Fyrir einu, tveimur árum voru hafnar framkvæmdir og lokið við virkjun á Nesjavöllum, glæsilegu húsi við Bláa lónið. Náttúruhús er í smíðum hér skammt frá Alþingi, í Vatnsmýrinni, sem er ákveðinn grundvöllur fyrir lífríki tjarnarinnar. Hitaveita Suðurnesja hefur til allrar hamingju verið að stækka og bæta við hverfli hjá sér. Í engu af þessum atriðum hefur, herra forseti, komið fram jafnhávær krafa um lögformlegt umhverfismat og um Fljótsdalsvirkjun og hefur þó Fljótsdalsvirkjun í rauninni allar lagaforsendur til þess. Við skulum aðeins velta fyrir okkur hvar þessi mannvirki sem ég taldi hér upp eru staðsett, þ.e. Nesjavellir, Bláa lónið, náttúrufræðihúsið og Hitaveita Suðurnesja. Þau eru nefnilega á suðvesturhorninu þaðan sem krafan um lögformlegt umhverfismat er svo hæst hvað varðar Fljótsdalsvirkjun.

Herra forseti. Í öðru lagi hefur stundum verið nefnt að álver sé úrelt. Það sé úrelt starfsemi. Ég tel að ekki þurfi annað en að ræða við starfsfólk í álveri til að komast að hinu sanna þar. Ef menn horfa til framtíðar, hvers vegna eru stórfyrirtæki að fjárfesta í álveri? Ástæðan er augljós. Markaðurinn kallar á þau. Aukin ferðaþjónusta sem allar spár segja að eigi eftir að verða veruleg í heiminum öllum kallar á fleiri flugvélar úr áli. Aukin krafa um minni mengun frá bílum kallar á að bílaframleiðendur létti bílana og þess vegna kallar bílabransinn óhjákvæmilega á ál. Það er þess vegna rangt að segja að álframleiðsla sé úrelt og draga upp einhverja svarta mynd að slíkri starfsemi. Það er þörf til framtíðar fyrir ferðamenn og efnahagslíf heimsins að nota ál. Þess vegna er markaðurinn til staðar fyrir því. (ÖJ: Ekki gleyma hergagnaiðnaði.) Já, og svo er hergagnaiðnaðurinn. Við viljum nú, hv. þm., bæði þjóna ferðamönnum og létta bílana, geri ég ráð fyrir.

Í þriðja lagi hefur verið fjallað um arðsemismatið á virkuninni og skrifaðar greinar og ræður haldnar um það þar sem menn hafa dregið mjög í efa að arðsemismatið sé rétt. Þá umræðu á ég, herra forseti, afskaplega erfitt með að skilja vegna þess að grunnpunkturinn er aðeins einn og hann hefur komið ítrekað fram bæði hjá stjórn Landsvirkjunar og forstjóra Landsvirkjunar. Landsvirkjun fer í þessa framkvæmd af því hún ætlar að græða á henni. Hún ætlar að hagnast á þessari framkvæmd. Ef ekki nást samningar um orkuverð sem Landsvirkjun telur að muni færa henni hagnað verða ekki samningar. Rétt er að minna á það að við erum hér einungis að skapa forsendur fyrir samningum. Við erum ekki að taka ákvörðun um að hér rísi álver. Þar á eftir að semja um ýmsa þætti og þá nokkuð marga.

Eitt af því sem komið hefur fram í greinum um arðsemi virkjunarinnar og er svolítið villandi er að menn hafa reiknað arðsemina út frá mjög vafasömum forsendum svo ekki sé meira sagt. Það hefur meira að segja sést allt niður í 15 ára afskriftatími á Fljótsdalsvirkjun sem er algjörlega út í hött og nægir í því sambandi að benda á Sogsvirkjun sem er orðin 60 ára gömul og framleiðir meira rafmagn núna, 60 ára gömul, en hún gerði í upphafi vegna þess að tækninni hefur fleygt fram. Afskriftatíminn er a.m.k. 60 ár.

[13:30]

Þá er rétt að hafa í huga að álverð hefur verið lágt að undanförnu en almennt er því spáð að það sé á uppleið. Um álverð er ekki samið á dagprísum. Um það er samið til langs tíma, a.m.k. til 15 ára. Því er rétt að skoða dæmið í heild sinni frá upphafi til enda. Meginreglan er sú að álverin fá lægra álverð í byrjun á meðan þau eru að greiða niður fjárfestingarkostnað en það hækkar síðan eftir því sem á samningstímann líður. Þess vegna er óeðlilegt að líta á þetta sem einhverja dagprísa og eðlilegt að skoða samningstímann í heild sinni. Þannig má áfram telja. Þannig mun vera ástatt um helminginn af þeirri orku sem Landsvirkjun selur til stóriðju í dag.

Í fjórða lagi hafa menn hafa talað um að álverið sé þvílíkt skrímsli að íslenskur fjármagnsmarkaður muni ekki ráða við það. Viðræður standa yfir og hefur ekki verið gengið frá eignaraðildinni milli íslensku fjárfestanna og þeirra norsku. Fram kom hjá hv. iðnn. að allt upp í 40--50% eignaraðild Norðmanna væri í umræðunni. En það er alveg ljóst, herra forseti, hvað varðar stærðina að fyrirtækið er ekki stærra en svo að þegar eignaraðilar hafa lagt eigið fé fram þá þarf ekki nema um 2% af íslenska hlutabréfamarkaðnum til að dekka lánsþörfina fyrir álverinu. Fyrirtækið yrði ekki nema það níunda stærsta á Íslandi.

Í fimmta lagi vil ég nefna tímann. Menn hafa sagt að okkur liggi ekkert á og að við ættum að fresta ákvörðuninni. En í rauninni stöndum við frammi fyrir því að fyrir liggur skýr ósk frá íslensku og norsku aðilunum um að þeir verði að fá svar strax. Þá er rétt að minna á, herra forseti, að virkjun þarf alltaf að vera a.m.k. einu ári á undan framkvæmdum í stóriðjunni eðli málsins samkvæmt. Það tekur lengri tíma að byggja virkjun og áður en í hana er ráðist þarf að vera búið að semja um orkuverð. Þess vegna er mikilvægt að geta svarað beiðni erlendra og innlendra fjárfesta um afhendingu orkunnar árið 2003.

Þá er líka rétt að hafa í huga, herra forseti, að við bjuggum um tuttugu ára skeið við algera kyrrstöðu hvað varðar erlenda fjárfestingu. Frá 1995 hefur heldur rofað til. En þetta er í rauninni það eina sem er í farveginum og liggur nokkuð við núna.

Eðli málsins samkvæmt er ferlið frá fyrstu viðræðum til framkvæmda afskaplega langt og það er mjög mikilvægt, herra forseti, að framkvæmdaraðilar, samningsaðilar, geti unnið í nokkuð öruggu starfsumhverfi í þessari grein eins og öðrum greinum. Þess vegna eru það mjög hæpin skilaboð til erlendra fjárfesta ef menn ætla að rifta samkomulagi svo að segja í miðjum klíðum. Ég ítreka það, herra forseti, að Orkustofnun segir Fljótsdalsvirkjun eina möguleikann til að afhenda orkuna árið 2003.

Herra forseti. Menn hafa nefnt að rafmagnið gæti komið annars staðar frá og um tíma var norðausturhornið í umræðunni vegna jákvæðra fyrstu prófana á norðausturhorninu hvað varðar gufuafl. Síðan hefur, herra forseti, reyndar komið í ljós að gufumagnið reyndist ekki vera jafnmikið og fyrstu athuganir bentu til, þar er óvissa enda er eðli gufuaflsvirkjana þannig að þær verður að byggja upp í áföngum. Þær eru teknar í smáum þrepum. Hvert þrep er tekið fyrir sig til þess að sjá hvað svæðið þolir mikla virkjun og tekur þess vegna langan tíma. Þar að auki, herra forseti, mun það kosta um 15--20 millj. kr. á hvern km að leggja rafmagnslínu frá virkjun að þessari gerð. Það eykur einfaldlega kostnaðinn og eykur að sjálfsögðu á mengunina, þ.e. sjónmengun og jarðrask. Ber þá að hafa í huga að upphaflega stóð til að fara með aflið frá Fljótsdalsvirkjun þvert yfir hálendi Íslands á Keilisnes. Þannig var leyfið í rauninni upphaflega, þvert yfir landið.

Herra forseti. Menn hafa nefnt fleiri atriði sem vafasöm í tengslum við virkjunina, m.a. að atvinnulífið á Austfjörðum þyldi þetta ekki. Því er í rauninni svarað m.a. af formanni útvegsmanna og sjávarútvegsins á Austfjörðum þar sem þeir gera sér grein fyrir áhrifum þess og hvetja eindregið til þess að í þessa virkjun verði ráðist þannig að álver kunni að rísa á Reyðarfirði. Það sama kemur fram hjá talsmanni og fulltrúa ferðaþjónustunnar á Austfjörðum. Þeir hvetja til þess. Atvinnulífið á Austfjörðum eins og samfélagið þar að mestu leyti virðist því vera tilbúið og hvetur til þess að af þessu geti orðið.

Menn hafa nokkuð mikið velt upp neikvæðum hlutum. Ég fer nú að stytta mál mitt, herra forseti, en vil svona rétt í lokin benda á nokkur atriði sem fram komu á fundum hv. iðnn. og kalla má jákvæð atriði í tengslum við þessa virkjun, fyrir utan þau atriði sem þegar hafa verið nefnd, efnahagsleg, byggðaleg, öryggismál og öll þau rök. Það hefur fylgt virkjunum eins og hefur þegar sýnt sig og ágætur Austfirðingur sem fór með hv. umhvn. og iðnn. á Eyjabakka í haust sagði, að í sumar hefðu fleiri farið á Eyjabakka en samtals frá landnámstíð, m.a. vegna þess að menn hafa nú aðgengi að Eyjabökkum. Virkjanirnar hafa gert almenningi kleift að ferðast betur um hálendið og að njóta fegurðar landsins en ella hefði verið. Fyrir ýmsa skiptir það gífurlega miklu máli, þ.e. þá sem ekki eiga torfærutröll til að aka á eða hafa ekki fulla burði til gönguferða. Þá má benda á að í Bandaríkjunum eru uppistöðulón víða með eftirsóttustu ferðamannastöðum og útivistarstöðum almennings þar sem þeir dunda sér daglangt í náttúrunni við fiskveiðar og útiveru. Það má líka benda á að Bláa lónið í heimabyggð minni, líklega eftirsóttasti ferðamannastaður landsins, er í rauninni afsprengi stóriðju og ekkert annað og virðist ferðamönnum líka vel sem og Íslendingum. Ég vil líka benda á það sem mikill áhugamaður um veiði að Blanda er orðin ein fengsælasta laxveiðiá landsins. Eftir Blönduvirkjun dró úr jökullit og mjög svo lítt rómaðar veiðiaðferðir, sem stundaðar voru í Blöndu fyrir virkjun, hafa horfið og mun göfugri og fallegri veiðiskapur verið tekinn upp í kjölfar þess að Blanda er orðin ein gjöfulasta laxveiðiá landsins. Sömu áhrifum eru menn að spá hvað varðar Jökulsá. Geri ég ráð fyrir að bæði veiðimenn sem Austfirðingar horfi björtum augum til þess.

Þá hefur verið bent á að með virkjuninni muni rennsli Lagarfljóts jafnast en það mun gerast reglulega að hlaup kemur í ána með tilheyrandi raski á náttúrufari í kringum Lagarfljót. Á það hefur verið bent með rennslismælingum og rannsóknum að rennslið muni jafnast með tilkomu virkjunarinnar.

Hjá fulltrúum Landsvirkjunar kemur fram að Landsvirkjun hyggst í samstarfi bæði við sérfræðinga og heimamenn fara í landgræðslu, m.a. uppgræðslu á örfoka svæðum, fara í að reyna að ná upp gróðri á ýmsum hólmum í lóninu, taka þátt í Héraðsskógaverkefni með Austfirðingum, að endurgera votlendi með sérfræðingum, aðgerðir til þess að draga úr foki, styrkja gróður umhverfis lónið í þeirri von að gæsir muni njóta þess o.s.frv. Mótvægisaðgerðir Landsvirkjunar eru því miklar og eindreginn vilji kom fram hjá fulltrúum Landsvirkjunar til þess að vinna með sérfræðingum og heimamönnum að því að gera skaðann sem minnstan. En skaði verður auðvitað alltaf einhver á umhverfinu. Það fylgir mannskeppnunni, má segja.

Herra forseti. Þeir fimm meginþættir sem hv. meiri hluti iðnn. dregur fram, þ.e. öryggisþátturinn, efnahagsþátturinn, byggðaþátturinn, hinar alþjóðlegu skuldbindingar og náttúrufarsþátturinn, eru þættir sem alla þarf að meta en ekki bara einn þeirra. Hafandi metið alla þessa þætti kemst meiri hluti hv. iðnn. að þeirri niðurstöðu að hann vegur meiri hagsmuni fyrir minni og mælir með samþykkt þáltill.

Árekstrar eru óhjákvæmilegir, herra forseti, og árekstrar við náttúruna eru hluti af neyslusamfélaginu. Við þurfum að taka ábyrga afstöðu, sérhver þingmaður, þar sem horft er á myndina alla en ekki aðeins einn eða fáa hluta hennar. Ég efa ekki að sérhver sá sem kemur að þeirri ákvarðanatöku, sérhver hv. þm. er unnandi íslenskrar náttúru og náttúrunnar almennt. En hér er um fórnarkostnað að ræða og enginn skal taka þann rétt af hv. þingmönnum að vera unnendur náttúru. Þetta kann að vera síðasta deilan hvað þetta mál varðar því nú er unnið að því sem e.t.v. hefði átt að vera byrjað á fyrir nokkrum árum, þ.e. rammaáætlun, Maður, umhverfi, orka, þar sem verið er að skilgreina þessa þætti til lengri tíma litið, þ.e. þarfir efnahagslífsins og fólksins og möguleika okkar til að nýta náttúruna og hins vegar að varðveita náttúruperlur. Innan þriggja ára mun sú áætlun liggja fyrir þannig að þetta kann að verða síðasta verkið sem við deilum um. Þó er ólíklegt að deilum og skoðanaskiptum um nýtingu náttúrunnar ljúki nokkurn tímann.

Herra forseti. Ég vil aftur leyfa mér að vísa til ágætrar greinar Jakobs Björnssonar, fyrrverandi orkumálastjóra, þar sem hann varpar því m.a. fram hvar við Íslendingar stæðum ef við hefðum ekki rafmagn. Hann dregur fram á nokkuð skemmtilegan hátt að við tökum rafmagn í dag sem nokkuð sjálfgefnum hlut af því að við höfum alist upp við að rafmagnið er í innstungunum. En hins vegar hefur það ekki alltaf verið svo hjá íslensku þjóðinni og Jakob Björnsson bendir m.a. á hvernig sveitafólk bauð virkjunarmönnum í árdaga rafvæðingar á Íslandi upp á kaffi og pönnukökur. Það var vegna þess að sveitafólk skynjaði þarna framfarir. Það skynjaði breytta tíma og von um betra líf. Það er að sumu leyti svipað sem á sér stað í dag. En við getum líka snúið þessu við. Hvernig verður íslenskt samfélag, hvernig verða viðbrögðin --- við þekkjum það þó ekki sé nema nokkurra mínútna rafmagnsleysi, hvað þá ef rafmagnsleysi yrði hér dögum saman? (Gripið fram í.)

Herra forseti. Rafmagnið er stór hluti af neyslusamfélaginu. Það er kannski kjarni alls þessa máls að Íslendingar eru þurftarfrekir. Við gerum miklar kröfur í neyslusamfélaginu. Neyslukröfur okkar Íslendinga eru mjög miklar. Við gerum líka miklar kröfur til velferðarsamfélagsins og við eigum að gera það. En neyslusamfélaginu fylgja óhjákvæmilega árekstrar við náttúruna vegna þess að til þess að standa undir þeim væntingum sem felast í neyslusamfélaginu þurfum við að halda uppi framleiðslu, við þurfum að halda uppi öflugu efnahagslífi sem kallar á orku. Skilaboð þjóðarinnar í rauninni hvað þennan þátt varðar eru augljós og allar neyslutölur sýna það. Við sjáum það hvað varðar húsbyggingar, innflutning á bílum, innflutning á rafmagnstækjum, ferðalög og þannig má endalaust áfram telja. Þær tölur eru gífurlega háar og fara hækkandi. Íslenska þjóðin er neysluþjóð og það er e.t.v. rótin að þessu öllu saman. Þeirri vitund verður hins vegar aldrei breytt með lögum. Þar þarf aðrar aðferðir til. Það tel ég, herra forseti, að sé kjarni málsins.